Bylting í aðgengi að íslensku táknmáli
Hjörtur H. Jónsson, formaður Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra
Ytri aðstæður skipta miklu máli þegar einhver er greindur heyrnarlaus innan fjölskyldu og er oft það sem krefst mestrar athygli í upphafi. Til lengri tíma litið er þó mun mikilvægar að búa honum eðlilegt félagslegt umhverfi og aðstæður til þroska, ekki síst ef um barn er að ræða. Forsenda slíks er að viðkomandi einstaklingur geti átt samskipti við sína nánustu á þægilegan og merkingabæran hátt, en í því sambandi er tungumálið, þ.e. táknmálið, lykilatriði. Samskiptin standa í raun og falla með því að aðrir í fjölskyldunni nái að tileinka sér það mikið í táknmáli að það standi samskiptum ekki fyrir þrifum.
Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra hóf því snemma árs 2002 að kanna möguleikana á því að hrinda af stað verkefni um gerð táknmálsorðabókar, sem myndi byggja á myndböndum og væri aðgengileg öllum á netinu. Orðabók sem myndi gagnast öllum þeim sem vilja læra og viðhalda táknmáli og eiga samskipti við heyrnarlausa. Orðabók sem gæti einnig orðið mikilvægt tæki til varðveislu og þróun táknmálsins og undirstaða undir framtíðar rannsóknir á því. Sumarið 2002 vann Foreldrafélagið að því að skilgreina verkefnið og kanna stöðu mála erlendis. Þetta var gert í samstarfi við Félag heyrnarlausra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, en í framhaldi af þeirri vinnu var hafist handa við fjáröflun. Skriður komst fyrir alvöru á verkefnið þegar Velferðarsjóður barna styrkti það með myndarlegu framlagi og fljótlega eftir það var hafist handa í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið IM ehf. (nú Opin kerfi ehf.). Hönnun kerfisins og vinnu við undirliggjandi gagnagrunn og notendaviðmót lauk vorið 2003 og þá var strax hafist handa við næsta áfanga sem var gerð umsjónarhluta kerfisins, þ.e. þess hluta sem notaður er til að setja inn og viðhalda efni í því. Þessari vinnu lauk veturinn 2003-2004.
Hugbúnaðarsérfræðingar IM ehf. (nú Opinna kerfa) hafa undanfarin ár verið í fremstu röð við hönnun og forritun á kerfum í tækniumhverfinu sem kallast Microsoft .NET sem tryggir að auðvelt verður að þróa kerfið áfram og tengja það öðrum hlutum eins og farsímanotkun. Vel var staðið að verkefninu og það unnið í samræmi við kostnaðar- og tímaáætlun.
Síðasta sumar var síðan unnið að því, meðal annars með styrk úr Nýsköpunarsjóði stúdenta, að setja inn efni. Þegar Táknabankinn var síðan formlega opnaður laugardaginn 4. desember síðastliðinn voru um 1000 orð og setningar til staðar í kerfinu og ef allt gengur samkvæmt áætlun verður þessi fjöldi farinn að nálgast 3000 á vormánuðum.
Táknabankinn er fyrsta aðgengilega og nothæfa orðasafnið sem til er um íslenskt táknmál. Hann mun gjörbreyta aðstöðu til táknmálsnáms og er mikilvægur þáttur í að rjúfa félagslega einangrun heyrnarlausra og heyrnarskertra. Táknabankinn verður einnig mikilvægt tæki til að varðveita íslenskt táknmál, tungumál sem tekið hefur afar hröðum breytingum í gegnum tíðina, ekki síst vegna þess að það hefur borist mann fram af manni án þess að til hafi verið neinn varðveittur staðall.
Táknabankinn er hinsvegar einungis fyrsta skrefið á þessari leið, en tæknin ber í skauti sér nánast ótakmarkaða möguleika. Þar má til dæmis nefna möguleikann á að fá tákn send í farsíma. Mikið er þó ógert áður en slík framtíðarsýn getur orðið að veruleika og brýnt að hefjast handa þar sem frá var horfið við frekari þróun og betrumbætur.
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.