Skip to main content
3. júní 2005

Lægri kostnaður og skilvirkari þjónusta

Þorvaldur Finnbogason, viðskiptastjóri hjá Nýherja

Vöxtur IP tækninnar hefur verið mikill á undanförnum árum þar sem hún gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að samnýta gagnaflutningssambönd fyrir tal og tölvugögn, og þannig að lækka kostnað, auka sveigjanleika og bæta þjónustu gagnvart viðskiptavinum. Til að mynda hentar IP tæknin fyrirtækjum með dreifða starfsemi afar vel þar sem starfsmaður á ferð innanlands eða erlendis getur tengst IP símkerfi fyrirtækisins með einfaldri Internettengingu og þar með sparað símakostnað.  

Í raun má segja að IP tæknin breyti algjörlega samskiptaháttum fyrirtækja enda um að ræða mun auðveldari samskiptamáta.  Ekki er lengur þörf á sérstökum leigulínum á milli starfsstöðva þar sem IP símkerfi nýta tölvukerfi fyrirtækisins fyrir öll símasamskipti. Þannig eru starfsmenn ekki lengur bundnir við skrifborðið heldur geta þeir unnið óháð staðsetningu fyrirtækisins. Ekki þarf að greiða símagjöld á milli landa og hægt er að nota tölvu starfsmanna sem símtæki og þannig lækka kostnað.

Lægri eignarhaldskostnaður skv. Gartner
Rannsóknir ráðgjafarfyrirtækisins Gartner gefa til kynna að eignarhaldskostnaður – TCO – á símatækni smærri útibúa sé hærri en hjá höfuðstöðvunum þar sem megin kostnaðurinn liggi í netkerfum og símagjöldum.  Símkerfi flestra útibúa eru tengd í gegnum hefðbundnar fastlínutengingar sem þýðir að símtöl, að meðtöldum þeim sem eru á milli útbúa og við höfuðstöðvarnar eru gjaldfærð á hefðbundnum símatöxtum, innlendum sem erlendum.  Í rannsókninni kemur einnig fram að hlutfall símalína pr. notanda er mun  hærra hjá útibúinu en hjá höfuðstöðvunum.  Fyrirtæki geta því sparað háar fjárhæðir með því að flytja símtöl yfir á gagnanetið sem tengir saman höfðuðstöðvar og útibú í stað þess að leigja tvenns konar sambönd, gagnalínur fyrir gagnanetið og símalínur fyrir símann.


Sveigjanlegri þjónustuver
Samskipaleiðir viðskiptavina eru mun fjölbreyttari í dag en áður fyrr þar sem viðskiptavinir hafa nú orðið samband við fyrirtæki í gegnum síma, tölvupóst og vef. Með innleiðingu á IP símkerfum opnast möguleikar á að setja upp miðlægt IP þjónustuver sem heldur utan um öll samskipti við fyrirtækið, hvort sem um er að ræða í gegnum síma, tölvupóst, netspjall eða vefinn, og tryggir að öllum fyrirspurnum sé svarað tímanlega. IP tæknin gerir það líka að verkum að starfsmenn þjónustuvers þurfa ekki að vera allir á sama stað sem gefur mikinn sveigjanleika í nýtingu starfsfólks, opnar möguleika á fjarvinnu starfsmanna og gefur aukna möguleika í þjónustuframboði. 


Af hverju er þjónustuver mikilvæg fjárfesting?
Í hvert sinn sem viðskiptavinur hefur samband við fyrirtæki er um að ræða tækifæri til að selja vöru og styrkja viðskiptatengsl. Með innleiðingu nútíma þjónustuvers sem getur tekið við þjónustubeiðnum og fyrirspurnum frá viðskiptavinum, hvort sem er frá síma, faxi, tölvupósti eða vefnum, er auðvelt fyrir þjónustustjóra að fylgjast með fyrirspurnum óháð því hvaða samskiptaleið viðskiptavinurinn kýs að nota. Nútíma þjónustuver tryggir skilvirkni og gæði í svörun. Með nútíma þjónustuverum er þjónustufulltrúum auðveldað að þjóna viðskiptavininum og tryggja að hann fái ávallt bestu þjónustuna óháð því hvar þjónustufulltrúinn er staðsettur og hvernig viðskiptavinurinn kaus að senda inn sína þjónustubeiðni.

Sími í tölvunni
Með IP tækni er hægt að tengja símkerfið við öll algengustu hugbúnaðarkerfi fyrirtækja, sbr. Microsoft Outlook, Lotus Notes og Microsoft CRM.  Með því að tengja IP símkerfið við dagbókarforrit starfsmanna er hægt að sjá hvort viðkomandi sé upptekinn um leið og hringt er í hann og bæta þannig símsvörun skiptiborðsins.  Með því að nota hugbúnaðarsíma í tölvu þarf ekki lengur að vera með sérstakt símtæki á borðinu heldur er hægt að hringja beint úr tölvunni. IP tölvusímann er hægt að nota alls staðar þar sem hægt er að tengjast Internetinu og eru símtölin yfir Internetið ókeypis. Þetta þýðir m.a. að starfsmaður getur með auðveldari og ódýrari hætti unnið heima frá sér eins og hann sé staddur á vinnustað.  Um leið og svarað er í símann sýnir t.d. MSN forritið að viðkomandi sé upptekinn. Þessi tækni eykur skilvirkni og sparar notendum mikinn tíma.

IP símkerfi er í flestum tilfellum hægt að tengja við núverandi símkerfi fyrirtækja og þar með geta fyrirtækin nýtt sér kosti IP tækninnar strax án þess að fórna þurfi þeirri fjárfestingu sem liggur í gamla símkerfinu.

 

Skoðað: 6985 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála