2019 UT-verðlaun Ský
Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2019
Ragnheiður H. Magnúsdóttir
Upplýsingatæknimál á Íslandi hafa náð gríðarlegum árangri á undanförnum árum. Sá árangur felst meðal annars í því að hugverki og tækni hefur verið lyft upp á mun hærri stall en áður og við höfum séð risaskref í þá átt að gera það þekkt og sýnilegt að þessi geiri myndar eina af meginstoðum atvinnulífsins á Íslandi. Þá hefur náðst mikill árangur í að auka áhuga á námi í tæknigreinum almennt og loks að vekja athygli stelpna og kvenna á þátttöku í þeim greinum, en aukið afl, aukinn fjöldi og fjölbreytni fólks sem vinnur í tæknigeiranum er mikilvæg forsenda þess að Ísland dragist ekki aftur úr öðrum þjóðum í samkeppnishæfni til framtíðar.
Að öðrum ólöstuðum hefur Ragnheiður að okkar mati verið í fararbroddi þegar kemur að því að halda á lofti mikilvægi upplýsingatæknigeirans og mikilvægi fjölbreytileikans í þeim geira í íslensku atvinnulífi.
Ragnheiður var framkvæmdastjóri Hugsmiðjunar í tæp 6 ár þar til hún ákvað að söðla um til að taka að sér breytingastjórnunarverkefni hjá Marel sem snýr að því að breyta því hvernig Marel getur nýtt sér tæknina til að selja fleiri vörur til viðskiptavina sinna. Þaðan fór hún til Veitna, þar sem hún var ráðin forstöðumaður Framkvæmda þar sem hún vinnur meðal annars að snjallvæðingu veitukerfa.
Ragnheiður nýtur mikils trausts innan upplýsingatæknigeirans og er góð og mikilvæg fyrirmynd fyrir konur í tækni.
Sýnishorn af fjölbreyttu starfi Ragnheiðar til að breiða út áhuga og þekkingu á upplýsingatækni:
Ragnheiður sat í stjórn Samtaka vefiðnaðarins í tæp sjö ár og leiddi þar þá vinnu að fá meiri breidd í kennslu á tölvunarfræði, t.d. með að kenna meiri vef/viðmótsforritun sem hún telur að höfði betur til stelpna. HR tók vel í þessar hugmyndir Ragnheiðar og fór strax af stað með fimmtu áherslulínuna (Viðmótsforritun) í sínu tölvunarfræðinámi. Eins aðstoðaði hún Tæknskólann við gerð 2 ára diplómanáms fyrir vefþróun.
Ragnheiður sat til fjölda ára í stjórn Ský sem hefur þann tilgang að miðla þekkingu milli þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á upplýsingatækni.
Ragnheiður er ein af stofnendum félagsskaparins Tæknitátur (á ensku Arctic Girl Geek Dinners) ásamt þremur öðrum konum. Félagsskapurinn er byggður á félagsskap sem er starfræktur um allan heim - Girl Geek Dinners. Tilgangur félagsins er að stelpur í tæknigreinum hittist til að fræða hvora aðra um 1-2 málefni og borða svo saman kvöldmat á eftir og styrki tengslanetið sitt.
Hún hefur verið varaformaður Tækniþróunarsjóðs frá 2015- þar sem hún hefur tekið þátt í róttækum breytingum á styrkjunum, þar sem fyrirtækjum yngri en 5 ára hafa möguleika á að fá styrki fyrir verkefni á frumstigi. Einnig hef Ragnheiður beitt sér fyrir því að tækniþróunarsjóður sé kynntur sem víðast til að fá fleiri umsóknir frá konum.
Ragnheiður er formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, skipuð af atvinnuvegaráðherra í upphafi árs 2016. Hlutverk Vísinda og tækniráðs er að móta opinbera stefnu í tækni og vísindum á Íslandi.
Hún var formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja hjá SUT 2015-18, megin áhersla hefur verið lögð á að fá gögn um stærð bransans með hjálp Hagstofu Íslands, ná yfirliti yfir ung upplýsingatæknifyrirtæki, grasrótina, og taka þátt í verkefnum sem virkja ungt fólk til að skilja og taka þátt í upplýsingatækni. Hefur haldið fjölmarga fyrirlestra f.h. SUT um upplýsingatæknimál og mikilvægi þess að fá fleira fólk inn í bransann og þá sérstaklega konur.
Ragnheiður var einn helsti hvatamaður af stofnun Hugverkaráðs SI, sat sem varaformaður í byrjun og tók við formennsku 2016 og sat til september 2018. Í því hlutverki hefur hún haldið fjölmarga fyrirlestra um mikilvægi þess að Ísland leggi meiri áherslu á fjórðu stoðina, sem hugverkageirinn vissulega er. Megin markmið Hugverkaráðs var að ná skilningi á þessu hjá pólitíkinni. Unnið var ötullega að því að gera breytingar á lögum fyrir nýsköpunargeirann og nýtt nýsköpunarfrumvarp varð að lögum í júní 2016. Þar var hækkað þakið á endurgreiðslu á rannsóknar og þróunarkostnaði hjá fyrirtækjum, fyrirtækjum gert það auðveldara að ráða hingað til lands erlenda sérfræðinga o.fl.
Að auki var það markmið hugverkaráðs að áherslur á hugverkageirann kæmu fram í stjórarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar árið 2017. Það tókst, en þar segir m.a.: “Fjölbreytni í atvinnulífinu verður aukin með fjárfestingu eða annars konar hvatningu í skapandi greinum, grænum iðnaði, svo sem umhverfisvænni tækniþróun og framleiðslu, hugverka- og þekkingariðnaði og aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.”
Ragnheiður hefur undanfarin ár haldið mörg erindi um mikilvægi þess að Ísland taki þátt í fjórðu iðnbyltingunni sem er þegar hafin með látum með tækni eins Virtual reality, Augmentet reality, Gervigreind, Internet of things, machine learning og róbótavæðingu. Þá hefur hún beitt sér fyrr því að Ísland taki þátt í þessari tæknibyltingu strax frá upphafi og byggi hér upp mikla þekkingu og skapi nýsköpunarumhverfi sem er á pari við það sem best gerist í öðrum löndum.
Ragnheiður er engan veginn hætt, hún situr í stýrihópi um mótun heilstæðar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og hefur þar áhrif á framtíðarhorfur Íslands, þar sem upplýsingartæknin mun leika stórt hlutverk. Þá er hún í nefnd forsætisráðherra um 4. iðnbyltinguna.
Ragnheiður er sterkur leiðtogi og hefur gefið rausnarlega af sér í þennan mikilvæga málaflokk, í gegnum störf sín í tæknigeiranum, ráð, nefndir, stjórnir og félagsstarf. Þá hefur hún verið óþreytandi við að breiða út boðskapinn í frítíma sínum, enda með skýra hugsjón og sterka sannfæringu þegar kemur að vægi upplýsingatækni í íslensku samfélagi.
Það er með mikilli ánægju að veita Ragnheiði Upplýsingatækniverðlaun Ský 2019 – heiðursverðlaun fyrir framlag til upplýsingatækni.
Jafnframt veitti forsetinn þrenn önnur verðlaun við þetta tækifæri; UT-Fyrirtæki ársins, UT-Sprotinn og UT-Stafræna þjónustan.
NOX MEDICAL var valið UT-Fyrirtæki ársins 2018
Nox Medical hlýtur þessi verðlaun fyrir sérstaklega gott starf á árinu 2018, en það hefur skapað sér sérstöðu á sviði svefnrannsókna í heiminum og unnið til fjölda verðlauna fyrir rannsóknir sínar og verkefni. Fá íslensk tæknifyrirtæki hafa raunar fengið jafn mikla umfjöllun á þessu sviði.
-> Sjá tilnefningar í þessum flokki
SYNDIS var valið UT-Sprotinn 2018
Syndis hefur verið áberandi á sviði öryggismála og fundið stóra galla í vörum og þjónustu stórra og þekktra fyrirtækja, nú síðast snjallúrum barna. Öryggislausnin Adversary, sem Syndis þróaði og tekur á hættum og ógnum vegna netárása, hefur jafnframt vakið mikla athygli á alþjóðavísu.
-> Sjá tilnefningar í þessum flokki
LEGGJA.IS var valið UT-Stafræna þjónustan 2018
Þjónusta þeirra þótti skara fram úr þegar kemur að því að einfalda daglegt líf fólks, enda gerir app þeirra fólki kleift að borga fyrir gjaldskyld bílastæði, sem veitir óumdeilanleg þægindi.
-> Sjá tilnefningar í þessum flokki