Megum engan tíma missa
Getið þið sagt okkur frá hvernig hugmyndin að STEM Húsavík varð til og hver var helsta ástæða þess að þetta verkefni var sett á laggirnar?
STEM Húsavík var sett á fót sem pilot (tilrauna) verkefni vorið 2022, sem fyrsta samfélagsmiðaða STEM námsvistkerfið á Íslandi, eftir að við (Huld og Bridget) hittumst fyrir tilviljun á Húsavík sumarið 2021. Bridget var þá forstöðukona Cape Cod Regional STEM Network. Eftir að hafa rætt saman m.a. um starfsemina varð Huld forvitin um stöðu STEM menntunar á Íslandi. Eftir að hafa lesið gögn og séð skýrt kallað eftir bættri STEM menntun til undirbúningsfærni fyrir framtíðina og fjölgun útskrifaðra á Íslandi í svokölluðum STEM greinum, ákváðum við að skoða möguleikann á að prófa aðferðafræði STEM Learning Ecosystems á Íslandi. Það virtist einmitt sem aðferðafræðinni væri ábótavant hér á Íslandi, þ.e.a.s. hvernig átti að auka áhuga nemenda og þannig fjölga útskrifuðum nemum. STEM Learning Ecosystems aðferðafræðin kallar saman ólíka geira samfélagsins, eins og háskóla, leik- og grunnskóla, rannsóknastofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að taka höndum saman um STEM menntun. Vinnan tók svo á sig raunverulega mynd þegar Bridget kom sem Fulbright sérfræðingur í STEM menntun gegnum Fulbright stofnunina á Íslandi, en í þeirri heimsókn settum við STEM Húsavík formlega á fót með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra.
Hvert er meginmarkmið ykkar með STEM Húsavík og hvernig hefur starfsemin þróast frá stofnun?
Frá stofnsetningu hafa málin þróast ansi hratt og er STEM Húsavík nú orðið að virkri stofnun í samfélaginu. Við settum á fót ráðgefandi stjórn sem vann m.a. með okkur markmiðsyfirlýsingu og aðgerðaáætlun, en markmið STEM Húsavík er að efla íbúa og byggja upp færni með því að tengja saman fjölbreyttar auðlindir, náttúru og samfélag. STEM Húsavík varð formlega hluti af starfssamfélagi STEM Learning Ecosystems vorið 2023, og er nú hluti af neti yfir 115 námsvistkerfa víðs vegar í heiminum, þótt flest sé enn að finna í Bandaríkjunum, þá fer áhuginn ört vaxandi utan þeirra. Megináherslan hjá STEM Húsavík hefur verið að styðja við kennara í kennslu STEM greina, auk þess sem við leggjum áherslu á að auka vitneskju um STEM (störf og rannsóknir) í samfélaginu. Við höfum haldið átta vinnustofur fyrir kennara leik- og grunnskólans, sett á fót forritunarklúbb fyrir börn og náttúruvísindaklúbb fyrir börn. Þá buðum við opna hádegisfundi þar sem einstaklingum og stofnunum í samfélaginu var boðið að kynna starfsemi sína tengda STEM fyrir almenningi.
Við sáum STEM Húsavík alltaf fyrir okkur sem pilot verkefni og að til þess að ná raunverulegum árangri fyrir Ísland þyrfti svipuð þróun að eiga sér stað víðar á landsbyggðinni, á fleiri stöðum á Íslandi. Við settum á fót STEM Ísland ári síðar, en markmið STEM Íslands er að efla STEM menntun á Íslandi, m.a. með því að styðja samfélög við að koma á fót STEM námsvistkerfum á samfélagslegum grunni.
Með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Vesturlands og Lóu nýsköpunarsjóðs studdum við samfélagið í Borgarbyggð við að setja á fót STEAM Borgarbyggð, annað námsvistkerfið á Íslandi. Þá hófum við formlega samstarf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands nú í byrjun sumars, sem mun styðja okkur í þeirri viðleitni að innleiða fleiri námsvistkerfi í samfélögum á Íslandi.
Hver er helsti munurinn á STEAM og STEM í þessu samhengi? Felur STEAM í sér einhverja kosti umfram áherslur á STEM?
Þegar talað er um STEAM, stendur A-ið fyrir Arts eða skapandi greinar. Við fögnum sannarlega listum og skapandi nálgunum, en kjarninn í því sem við hvetjum til er að kennarar og nemendur hafi tækifæri til að leggja stund á vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði. Þannig héldum við okkur við STEM Húsavík og STEM Ísland, einfaldlega vegna þess að okkar markmið er að efla STEM menntun á Íslandi. Að bæta við listum er dásamlegt, en við leggjum ríka áherslu á að undirliggjandi ferli sé alltaf byggt á vísindalegri aðferð. Þá vekjum við gjarnan athygli á að með því að efla kjarnafærni í STEM greinum ýtum við undir svokallaða mjúka færni, eða færni fyrir 21. öldina sem er m.a. sköpunarkraftur, samstarf og teymisvinna, úrlausn flókinna vandamála, samkennd og fleira. Sem sagt, hágæða STEM upplifun felur í sér skapandi hugarfar og skapandi ferla.
Hvaða aldurshópar hafa helst aðgang að verkefnum og námskeiðum hjá STEM Húsavík og hvernig tryggið þið að sem flestir geti tekið þátt?
Sem fyrr segir höfum við lagt mesta áherslu á að vinna með kennurum leik- og grunnskóla og styðja við þá í kennslu STEM greina, en kennarar fá takmarkaða þjálfun í sínu námi í tengslum við STEM greinar, nema þeir leggi sjálfir þeim mun meiri áherslu á þær. Við vinnum þannig að í stað þess að bjóða fyrir fram ákveðnar áherslur, fáum við að heyra frá kennurum hvar mesta þörfin liggur, við hvað kennarar þurfa helst stuðning og verðum svo við þeim óskum. Það geta verið staðbundnar áskoranir og áherslur, en þar liggur einmitt styrkur námsvistkerfanna og einn liður í því að starfrækja samfélagsmiðað námsvistkerfi er að tengja nám við raunveruleg málefni og nærumhverfi nemenda. Þá höfum við lagt sérstaka áherslu á að auka aðgengi barna á aldrinum 8-12 ára að óformlegu STEM námi, t.a.m. með forritunarklúbbi og náttúruvísindaklúbbi, en það er um þann aldur sem nemendur missa gjarnan áhuga og/eða sjálfstraust þegar kemur að raunvísindum. Þeirri afþreyingu og námsframboði hefur verið vel tekið, enda skortir gjarnan fjölbreyttari afþreyingu á smærri stöðum á landsbyggðinni.
Hvaða leiðir hafið þið fundið til að gera námsefnið skemmtilegt og aðgengilegt? Eru einhverjar sérstakar STEM greinar vinsælli en aðrar?
Ein af nálgunum okkar er að nota gagnreyndar bestu starfsvenjur. Á síðasta ári buðum við til dæmis upp á röð vinnustofa fyrir kennara sem lögðu leitarnám fyrir sem kennslufræðilega nálgun, auk þess að leggja áherslu á vísindalega aðferð, reiknihugsun og ferli verkfræðihugsunar sem grunnaðferðir. Að kennurum snýr þetta sem virkt nám þar sem þeir leiðbeina nemendum sínum í gegnum ferli uppgötvana. Það er ótrúlega magnað að sjá muninn þegar kennarar venda kennslunni á þennan hátt og stíga inn í þetta hlutverk sem leiðbeinandi eða leiðbeinandi náms.
Þegar við gerðum kannanir meðal kennara um hvað þeir vildu stuðning með var það m.a. færni í forritun og vélfærafræði (robotics), umhverfisvísindum og efnafræði. tengt þessu komum við upp fjölbreyttu tækjasafni með stuðningi Bandaríska sendiráðsins sem spannar allt frá litlum stækkunarglerjum fyrir leikskólabörn yfir í lítil vélmenni/þjarka og smásjár, en langflestir kennaranna óskuðu eftir efnivið/tækjum/tólum til að gera stærðfræði skemmtilega. Þannig býr safnið vel að stærðfræðispilum og leikjum, en nýjasta viðbótin eru sýndarveruleikagleraugu sem nýtast við umhverfis- og sjálfbærnikennslu.
Með þessu erum við markvisst að byggja upp sterkan grunn meðal kennaranna hér á svæðinu með leitarnámi og vísindalegum kennsluaðferðum sem hægt er að nota til að kenna hvaða STEM-fag sem er. Þegar nemendur öðlast færni til að spyrja réttu spurninganna og beita vísindalegri aðferð, verkfræðihugsun eða reiknihugsun, þá er í raun hvaða svið sem er opið fyrir þeim til að kanna, læra og vaxa inn í. Og þannig verður námið skemmtilegt!
Hvernig hefur samstarfi við skóla, fyrirtæki og stofnanir verið háttað?
Eitt dæmi um þversamfélagslega nálgun til STEM kennslu er náttúruvísindaklúbburinn okkar, Náttúruvísindakrakkar, sem starfræktur var nú í sumar í annað skiptið. Námskeiðið í sumar var hluti af verkefni STEM Húsavík; Færni fyrir farsæla framtíð sem styrkt var af Mennta- og barnamálaráðuneytinu sem hluti af styrkjum í þágu farsældar barna.
Námskeiðið nýtti styrkleika námsvistkerfis til hins ítrasta, sem felur í sér samfélagslega nálgun til að efla vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði með það að markmiði að gera námið áhugavert, lifandi og skemmtilegt og umfram allt að setja námsefnið í samhengi við líf og umhverfi nemenda.
Með sumarnámskeiðinu er markmiðið að skapa vettvang fyrir börn til að setja upp vísindagleraugu og kynnast nærumhverfi sínu á nýjan hátt, læra grunn vísindalegrar aðferðar, t.a.m. að setja fram tilgátu og að safna gögnum, en umfram allt var markmiðið að vekja og viðhalda forvitni og áhuga barnanna um hafið og nærumhverfið. Í viðleitni okkar til að leita svara fengum við m.a. vísindafólk í heimsókn, verkfræðinema, starfmann Orkuveitu Húsavíkur, vísindakonu sem rannsakar hitastig vatns, við heimsóttum skjalavörð hjá Menningarmiðstöð Þingeyinga sem minnti okkur á hve mikilvægt það er að þekkja og varðveita söguna og hittum skipstjóra sem sagði m.a. frá því hversu mikilvæg stærðfræðin er í starfinu, allt frá því að reikna út hve mikla olíu þarf í langferð yfir í að draga upp seglin. Alls komu nú ólíkar stofnanir í samfélaginu að kennslu í námskeiðinu, sem gerði það lifandi og skemmtilegt fyrir nemendurna.
Hvaðan kemur helsti fjárhagslegi stuðningurinn við starfsemina?
Stór hluti okkar starfs felst í að tryggja starfseminni fjármagn og þeim verkefnum sem STEM samfélagið hefur sett í forgang og höfum við fengið mikinn meðbyr allt frá upphafi. Við höfum m.a. hlotið styrki frá Bandaríska sendiráðinu á Íslandi, Lóu Nýsköpunarsjóði, Barnamenningarsjóði, Æskulýðssjóði, Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, Samfélagssjóði Landsvirkjunar, Samfélagssjóði Eflu, Interreg NPA og fleirum og erum við ofangreindum aðilum afar þakklátar, en án stuðnings þeirra hefði ekkert af þessu orðið að veruleika. Hins vegar er það áskorun að viðhalda slíkum fjárstuðningi og leitum við nú styrktaraðila og ríkisfjármögnunar, eins og tíðkast víða erlendis, m.a. í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Hafið þið orðið varar við árangur af starfinu í samfélaginu? Er hann mælanlegur?
Við mælum árangur fyrir hvert verkefni fyrir sig. Þannig mælum við áhrif beint með endurgjöf frá kennurum, í for- og eftirkönnunum, en við mælum einnig árangur m.a. með styrk námsvistkerfisins og aukinni þátttöku meðlima. Samstarf milli aðila og stofnana hefur styrkst og við höfum m.a. unnið náið með leikskólanum hér á Húsavík sem hyggst nú innleiða STEAM sem sérstaka námsstefnu. Þá settum við á fót Skólaráð STEM Húsavík sem vinnur þvert á skólastig og kennarar og stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskólans funda mánaðarlega til að kortleggja stöðu STEM menntunar og vinna að aukinni tengingu milli skólastiga. T.d. hefur leikskólinn þegar byrjað að vinna með grunnatriði reiknihugsunar og einfalda forritun, sem síðan er hægt að byggja ofan á strax í fyrsta bekk grunnskóla. Slíkt samstarf í kringum bætt STEM nám hefði líklega ekki átt sér stað án námsvistkerfisins.
Hverjar eru helstu áskoranir sem þið hafið staðið frammi fyrir í starfinu og hvernig hafið þið unnið að því að yfirstíga þær?
Helstu áskoranir hafa verið að tryggja starfseminni fjármagn og vinnum við stöðugt að því, auk þess sem vaxtaverkjunum frá STEM Húsavík yfir í regnhlífarstofnunina STEM Ísland fylgja áskoranir, þar sem við höfum að mestu verið bara tvær í þessari starfsemi. Við sinnum báðar fjölbreyttum verkefnum en reynum að halda góðu jafnvægi og koma öllum mikilvægu verkefnunum í framkvæmd.
Hvaða ráð mynduð þið gefa þeim sem hafa áhuga á að stofna sambærilegt framtak í sínum bæjarfélögum eða á öðrum svæðum?
Sem fyrr segir er hlutverk STEM Íslands að styðja við samfélög sem vilja innleiða slík samfélagsmiðuð námsvistkerfi í sínu bæjarfélagi eða samfélagi og höfum við nú þegar haft veður af áhugasömum íbúum og meðlimum annarra samfélaga. Það sem þarf til er sterkur samfélagsleiðtogi, líkt og Huld er á Húsavík, Signý Óskarsdóttir í Borgarbyggð og Bridget var í sínu samfélagi í Cape Cod, einhver sem getur leitt saman ólíka hagaðila að borðinu með framtíð barnanna okkar og færniuppbyggingu að leiðarljósi.
Eru fyrirhugaðar einhverjar nýjungar eða stækkun á verkefnum á næstunni? Hvað vonist þið til að hafa náð að gera eftir 5-10 ár?
Við sjáum fyrir okkur að bæði STEM Húsavík, STEAM Borgarbyggð og STEM Ísland haldi áfram að vaxa og dafna og sinna sínum hlutverkum, auk þess sem við vonumst til að fleiri samfélög hafi bæst í hópinn, helst a.m.k. eitt í hverjum landshluta – að við höfum sett á fót samstarfsnet samfélaga og kennara, þvert á landsvæði, með það að markmiðið að efla færni á Íslandi þegar kemur að færni fyrir framtíðina. Þannig eflum við Ísland í alþjóðlegum samanburði, en fyrir okkur er þetta líka byggðaþróunarmál. Við þurfum að horfa til þess hvaða færni verður að finna á landsbyggðinni eftir 5, 10 og 20 ár, hvaða störfum börnin okkar munu geta og vilja sinna og við þurfum að styðja við börnin okkar til að skapa sína eigin framtíð og sín eigin störf, störf sem við vitum jafnvel ekki hvernig líta út í dag. STEM og STEAM menntun er það sem leggur grunninn að þessari færni og að okkar mati er aðferðafræði STEM námsvistkerfa skjótvirkasta leiðin til þess. Og það kann að hljóma dramatískt, en við megum einfaldlega engan tíma missa.
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.