Skip to main content
12. september 2024

Tilurð Mainframe Industries Oy

Reynir Harðarson

Reynir HarðarsonTölvuleikir á Íslandi og Finnlandi
Það er mikil gróska í tölvuleikjaiðnaði á Íslandi. Fyrstu tölvuleikjafyrirtækin hér á landi voru stofnuð í lok tíunda áratugar síðustu aldar. CCP var stofnað árið 1997 og var fyrsta fyrirtækið sem ætlaði sér að keppa við risana í svokölluðum AAA fjölþátttökuleikjum og kom EVE Online út í maí 2001 og má með sanni segja að það hafi markað stór þáttaskil í sögu tölvuleikja á Íslandi.

Á þessum árum var nánast öll fjármögnun innlend þar sem engin tengslanet höfðu verið byggð við erlenda fjárfesta. Þess fyrir utan var ekki mikið um fjárfestingar í tölvuleikjum yfir höfuð á alþjóðavísu heldur voru leikir að langmestu leyti fjármagnaðir af útgáfufyrirtækjum. Í raun var tölvuleikjaiðnaðurinn á þessum árum mjög svipað uppbyggður og kvikmyndaiðnaðurinn eða tónlistarútgáfa. Allt snerist um dreifingu og þeir sem áttu dreifinguna fjármögnuðu útgáfuna.

Þetta breyttist síðan upp úr aldamótum með tilkomu dreifiveitna eins og Steam og seinna með snjallsímabyltingunni með útgáfu iPhone og svo Android stýrikerfisins þar sem leikjum var þá dreift beint til notenda án milligöngu útgáfufyrirtækja. Þetta galopnaði fyrir dreifingu á leikjum inn á öll markaðssvæði fyrir stóra sem smáa og í kjölfarið varð til flóðbylgja af nýjum fyrirtækjum sem dreifðu sjálf sínum eigin leikjum. Á sama tíma voru leikjavélar að þróast hratt og Unity varð algerlega ráðandi í leikjum fyrir farsíma og spjaldtölvur og gerði mögulegt að vera með mjög lítil teymi að framleiða leiki miklu hraðar og í mun meiri gæðum en áður.

Í Finnlandi hafði alltaf verið mjög öflug demó sena og voru Finnar alltaf mjög framarlega í tölvugrafík og voru með nokkur fyrirtæki í AAA leikjum eins og Remedy Entertainment sem gerði m.a. Max Payne og Alan Wake. Það verður síðan í kjölfar þess að Nokia tapar farsímastríðinu og lokar sínum helstu þróunardeildum í grafík tækni og farsímahugbúnaði, að alger sprenging verður í stofnun tölvuleikjafyrirtækja í Finnlandi. Flest stefndu beint á farsímamarkaðinn og upp úr þessu verða til fyrirtæki eins og Rovio (Angry Birds) og SuperCell (Clash of Clans). Þarna verður Helsinki ein af allra öflugustu borgum heims í tölvuleikjaþróun og með flest fólk í leikjaiðnaði miðað við höfðatölu og er SuperCell ennþá eitt allra stærsta farsímaleikjafyrirtæki heims.

Á Íslandi voru það hins vegar tilkoma leikjavélanna fyrir PC tölvur sem kemur boltanum af stað fyrir alvöru. Í kjölfar útgáfu Unreal Engine 4 árið 2014 verður ákveðin sprenging í stofnun leikjafyrirtækja á Íslandi. Á sama tíma eykst áhugi erlendra fjárfesta á leikjasenunni hér og eru þar margir þættir sem spila saman, meðal annars hlutfallsleg endurgreiðsla þróunarkostnaðar, aukin áhersla Rannís á tölvuleiki, tilkoma nýrra íslenskra sjóða með þekkingu á greininni og tengsl við erlenda tölvuleikjafjárfesta (t.d. Crowberry Capital) ásamt auknu tengslaneti Íslendinga yfir höfuð í leikjaiðnaðinum. Í dag eru yfir 20 starfandi tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi og eru margir mjög spennandi leikir í þróun og ætla ég að nefna nokkra hér: 1939 Games (Kards: The WWIII Card Game), Myrkur Games (Echoes of the End), Parity (Island of Winds), Solid Clouds (Starborne: Frontiers), Directive Games (Civitas), Mainframe (Pax Dei), og svo er CCP með tvö gríðarlega spennandi verkefni í þróun sem ég hef fengið að sjá en get ekki talað um hér.

Loftbrú milli Helsinki og Reykjavíkur
Íslendingar og Finnar hafa ávallt átt gott skap saman og hanga oftar en ekki saman í stórum hópum á tölvuleikjaráðstefnum. Í Helsinki er síðan árlega haldin ein stærsta tækniráðstefna í heimi, Slush, og hafa tölvuleikir alltaf skipað þar stóran sess. Á hverju ári fara tugir Íslendinga úr hinum ýmsu tæknigeirum þangað til að byggja upp tengsl og kynna hugmyndir sínar fyrir mögulegum fjárfestum. Þannig hafði verið að byggjast upp í gegnum árin ákveðið tengslanet milli Íslands og Finnlands.

Árið 2014 stofnar undirritaður ásamt Þorsteini Högna Gunnarssyni og Dr. Kjartani Pierre Emilssyni sýndarveruleika tölvuleikjafyrirtækið Sólfar og koma þá til liðs við okkur nokkrir fjárfestar frá Finnlandi með Sisu Game Ventures fremsta í flokki. Í kjölfar þess hefst mjög náin samvinna og mikill samgangur milli Helsinki og Reykjavíkur sem smitar svo út frá sér í önnur fyrirtæki í Reykjavík og hefur Sisu fjárfest í fjölda tölvuleikafyrirtækja á Íslandi og dregið aðra fjárfesta til liðs við sig. Sólfar gefur út Everest VR og tölvuleikinn In Death við góðan orðstír en árið 2018 ákveðum við að skipta um gír þar sem sýndarveruleikamarkaðurinn er ekki að vaxa nógu hratt samkvæmt okkar væntingum.

Mainframe Industries Oy
Árið 2019 kemur saman hópur fólks frá Reykjavík og Helsinki og ákveður að kominn sé tími til að raungera loftbrúna. Í samvinnu við Samuli Syvähuoko hjá Sisu er farið af stað og Mainframe verður til. Stofnendur eru 13 og koma úr hinum ýmsu fyrirtækjum, en höfðu þó flestir unnið einhvern tímann fyrir annaðhvort CCP eða Remedy. Mainframe er í raun stofnað bæði í Reykjavík og Helsinki sem er nokkuð óvenjulegt en er líka tímanna tákn. Höfuðstöðvar Mainframe eru í Helsinki en starfsstöðvar eru jafn stórar í báðum borgum eða u.þ.b. 35 starfsmenn á hvorum stað. Fyrirtækið telur rétt tæplega 80 manns í dag og erum við einnig með fjögurra manna skrifstofu í París sem sér um útgáfu og markaðsmál. Helstu fjárfestar Mainframe eru a16z (USA), Crowberry Capital (IS), Maki.vc (FIN), Play Ventures (FIN), Sisu Game Ventures (FIN) og Riot Games (USA) ásamt stórum hópi af englum sem koma með gríðarlega öflug tengslanet.

Pax Dei
A Place to call HomeFyrsti leikur Mainframe ber nafnið Pax Dei og er fjölþátttökuleikur innblásinn af heimsmynd miðalda, þjóðsögum þess tíma og hjátrú. Munurinn er að í Pax Dei eru þjóðsögurnar sannar. Draugar eru til, galdur er til og hið illa er sífellt að eyðileggja sköpunarverkið. Pax Dei er þróaður á Unreal 5 leikjavélinni sem að okkar mati er sú fullkomnasta í heiminum í dag.

Í Pax Dei byggir þú þitt heimili og í sameiningu byggja leikmenn sína eigin siðmenningu ásamt því að fara í ævintýri og berjast við hina ýmsu drýsla og finngálkn. Leikurinn er ólínulegur og sver sig í ættir sandkassaleikja á borð við EVE Online og Ultima Online. Í raun má frekar tala um lifandi heim heldur en tölvuleik með upphaf og endi.

Pax Dei er nú þegar í lokuðum prófunum og gera áætlanir ráð fyrir að hann komi út í fyrstu almennu útgáfu á næsta ári. Mikill áhugi hefur nú þegar skapast fyrir leiknum og er Pax Dei einn af þeim leikjum sem mest er fylgst með á Steam í sinni deild. Fyrir mig persónulega er gríðarlega spennandi að fá að taka þátt í þróun á svona metnaðarfullu verkefni með jafn framúrskarandi teymi. Það eru bjartir tímar fram undan í tölvuleikjum á Íslandi og Finnlandi.

Höfundur: Reynir Harðarson, Leikjastjóri (Game Director) og meðstofnandi Mainframe, fyrrverandi Sköpunarstjóri (Creative Director) og meðstofnandi CCP

Mynd frá https://themainframe.com/en/media/

Skoðað: 112 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála