Skip to main content
13. júní 2024

Nafnaþjónar á einum stað

Valgeir Ólafsson

Valgeir ÓlafssonÞað er algengt að lén flakki á milli nafnaþjóna. Oft biðja þjónustuaðilar um breytingu á skráningu tæknilegs tengiliðar hjá ISNIC. Markmiðið með þessu er að geta tekið yfir lén og aðstoðað notendur við að tengja þau við sína þjónustu. Við ráðleggjum eigendum léna að forðast slíkar aðgerðir og hafa nafnaþjóna á einum stað.

Nafnaþjónar útskýrðir
DNS, eða Domain Name System, er órjúfanlegur hluti af innviðum veraldarvefsins. Hver tölva eða tæki á internetinu hefur sitt einstaka heimilisfang, svokallaða IP-tölu. IP-talan er notuð til að staðsetja tækið á netinu, líkt og götuheiti er nauðsynlegt til að finna ákveðið heimili. Vegna þess hversu erfitt getur reynst að muna IP-tölur, eru lénsnöfn notuð í staðinn, eins og til dæmis sky.is. Þegar notandi slær inn lénsnafn í vafra sinn, sendir vafrinn beiðni til nafnaþjóns og óskar eftir IP-tölu lénsins. Nafnaþjónninn leitar síðan að viðkomandi léni í gagnagrunni sínum til að finna samsvarandi IP-tölu. 3011 mynd1Þetta er áþekkt því þegar leitað er að símanúmeri í símaskrá. Þegar rétt IP-talan hefur fundist og verið sannreynd getur tölvan tengst þeim nafnaþjóni sem geymir vefsíðuna. Þjónninn sér síðan um að senda viðkomandi vefsíðu til baka til notandans, sem birtist svo í vafranum.

Nafnaþjónakerfið er bæði skilvirkt og hraðvirkt, sem gerir það notendum kleift að nálgast vefsíður á örfáum sekúndum eða jafnvel sekúndubrotum. Um allan heim eru starfræktir þúsundir nafnaþjóna og venjulega notar tölvan þann sem er staðsettur næst henni til að hámarka svarhraða. Ef tiltekinn nafnaþjónn hefur ekki upplýsingar um IP-tölu eða lénsnafn getur hann leitað svara hjá öðrum nafnaþjónum þar til rétta svarið finnst.

Ferlið við skráningu íslenskra léna
Skráning íslenskra léna fer fram hjá ISNIC, Internet á Íslandi hf. Hver sá sem óskar eftir að skrá nýtt lén þarf að vera skráður sem tengiliður hjá ISNIC. Þá þarf lénið að uppfylla ákveðnar tæknilegar kröfur auk þess sem viðkomandi þarf að hafa NIC-auðkenni til reiðu. Eitt af þessum NIC-auðkennum kallast tæknilegur tengiliður léns en hann ber ábyrgð á öllum tæknimálum lénsins. ISNIC leggur áherslu á að tæknilegur tengiliður sé hjá viðeigandi forráðamönnum lénsins og hafi tæknilegt vald yfir því. Sé tæknilegur tengiliður ekki tilgreindur sérstaklega, er rétthafi lénsins venjulega sjálfkrafa skráður sem tæknilegur tengiliður.

Af hverju ætti að forðast að skipta um tæknilegan tengilið?
Þegar viðskiptavinir leita til tölvufyrirtækis vegna breytinga á léni, til dæmis vegna hýsingar á vefsíðu, breytinga á póstþjóni eða annarra auðkenninga sem tengjast tilteknu léni, er mikilvægt að nálgast ferlið af varfærni. Margir þjónustuaðilar bjóða upp á að taka yfir stjórnun á léni og færa það yfir á sitt svæði þar sem þeir geta betur stýrt því og veitt viðskiptavininum betri þjónustu.

Því miður er algengt að þjónustufyrirtæki einblíni of mikið á þær færslur sem beinlínis tengjast eigin þjónustu og gleymi þar með flutning nafnaþjónafærslna eða færi jafnvel rangar færslur yfir á nýjan nafnaþjón. Þetta getur leitt til þess að auðkenningar og/eða mikilvægar nafnaþjónafærslur sem styðja við og vísa á mikilvægar þjónustur detti út. Þess vegna mælum við með því að fara varlega í að flytja lén yfir á nýja nafnaþjóna, sérstaklega vegna einfaldra breytinga eins og flutnings vefsíðu til nýs hýsingaraðila.

Við mælum með því að forðast að skipta um tæknilegan tengilið hjá ISNIC, líkt og tíðkast því miður oft þegar breytingar eru gerðar á hýsingaraðila eða póstþjóni. Þess í stað er betra að leita fyrst til þess aðila sem hefur umsjón með nafnaþjónafærslum á léninu. Ef ekki er vitað hver sá aðili er, er skynsamlegt að finna þjónustuaðila sem getur annaðhvort veitt öðrum aðgang að færslum eftir þörfum eða gert breytingar á einfaldan hátt. Þjónustuaðilar geta til dæmis verið með nafnaþjón í sinni umsjá og gefið vefsíðufyrirtækjum aðgang svo að það geti framkvæmt viðeigandi breytingar. Einnig er mikilvægt að velja þjónustufyrirtæki sem er með kerfi sem gerir kleift að bæta við nafnaþjónafærslum í gegnum sitt viðmót án þess að deila aðalnotandanum.

Aðalmálið er að varast að láta nafnaþjóninn flakka milli fyrirtækja, nema til að uppfæra í betra kerfi sem býður upp á hraðari viðbragðstíma og aukna vernd fyrir lénið

Mikilvægi nafnaþjónaöryggis
Eins og með alla tækni er ekkert kerfi 100% öruggt og nafnaþjónar eru þar engin undantekning þar sem þeir eru viðkvæmir fyrir ýmsum öryggisógnum. Tölvuþrjótar geta sem dæmi beitt DNS-skopstælingu þar sem þeir senda falsaðar færslur til að beina notendum á skaðlegar vefsíður í þeim tilgangi að stela persónuupplýsingum eða fremja aðrar ólöglegar aðgerðir. Mikilvægt er því að fyrirtæki innleiði viðeigandi öryggisráðstafanir til að vernda nafnaþjóna og tryggja öryggi netsamskipta. Að vera vakandi fyrir mögulegum ógnum og vita hvernig á að vernda sig er lykillinn að því að nota internetið á öruggan og ábyrgan hátt.

Höfundur: Valgeir Ólafsson, framkvæmdastjóri Tölvuaðstoðar og afrit.is

Skoðað: 165 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála