Gervigreind í skólastarfi: Tækifæri og áskoranir
Gervigreind hefur verið skilgreind sem „hugbúnaður í tölvum eða vélum forritaður til að gera hluti sem venjulega þarf greind manneskjunnar til, eins og nám og rökhugsun“ (Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, 2022, bls. 10). Gervigreind hefur verið hluti af daglegu lífi okkar síðastliðin ár, yfirleitt án þess að við gerum okkur grein fyrir því.
Til dæmis treystum við á gervigreind til að sía burt ruslpóst í tölvupóstinum okkar og til að Netflix stingi upp á hvað við ættum að horfa á næst. Síðastliðið ár hefur spunagreind (e. generative artificial intelligence) fengið sérstaka athygli þar sem spunagreindartólið ChatGPT var opnað almenningi. Eins og lesendur vafalaust vita þá er hægt að spyrja tólið ýmissa spurninga, fá hana til að setja saman texta, biðja hana um að velta upp ýmsum hugmyndum og meira að segja skapa listaverk eins og myndir og tónlist. Þetta nýja fyrirbæri setur fram áhugaverða möguleika en á sama tíma er erfitt að spá fyrir um hvernig tæknin mun þróast og hvernig hún getur nýst í framtíðinni.
Áhrif tækni eins og ChatGPT á skólastarf geta verið umtalsverð, þar sem spunagreindin er fær um að skrifa samfelldan og sannfærandi texta sem lítur út eins og hann hafi verið saminn af manneskju (Elkins & Chun, 2020). Þetta getur falið í sér ný tækifæri, til dæmis er fyrirtækið Khan Academy farið að nota spjallmenni til að leiða nemandann áfram í gegnum námsefni og spyrja hann spurninga, svipað og kennari myndi gera. Tæknin getur líka nýst í störfum kennara, til að hjálpa þeim að búa til kennsluefni, s.s. kennsluáætlanir og ýmis verkefni (Hazzan, 2023).
Á sama tíma og gervigreindin opnar nýja möguleika þá getur hún líka skapað ákveðnar áskoranir í skólastarfi. Í fyrsta lagi þá felur námsmat í núverandi mynd oft í sér að nemandinn setur fram texta sem sýnir hversu vel honum hefur tekist að tileinka sér efnið. Spunagreindina má nýta til að styðja við þekkingaröflun og skilning nemandans, en hættan er ef hún er notuð til að búa til verkefni frá grunni með það markmið að nemandinn komist hjá því að læra efnið. Tiltölulega einfalt er að láta gervigreindina skrifa ritgerðir og annan texta um hvaða efni sem er, af tiltekinni lengd og jafnvel í ákveðnum tón. Slík notkun stuðlar augljóslega ekki að því að nemendur læri efnið vel. Þetta er sérstaklega slæmt þegar námsleiðir byggja smám saman upp þekkingu, þar sem nýtt efni grundvallast á góðum skilningi á því sem á undan hefur farið. Ef nemendur komast í gegnum verkefni, námskeið eða jafnvel heilar námsleiðir án þess að raunverulega læra efnið þá getur reynst erfitt fyrir vinnumarkaðinn að treysta því að fólk útskrifað með tiltekna prófgráðu búi yfir ákveðinni hæfni.
Í öðru lagi þá er ekki hægt að treysta í blindni staðhæfingum sem gervigreindin setur fram. Fjölmörg dæmi eru um að hún vitni í heimildir sem eru ekki til og setji fram grundvallar staðreyndarvillur í bland við réttar upplýsingar, svo fróðan lesanda þarf til að greina þarna á milli. Fjölmörg dæmi má finna um þetta á netinu. Til dæmis hafa einhverjir notendur fengið þau svör frá gervigreindinni að ekkert land í heimi byrji á stafnum V, sem kæmi væntanlega íbúum í Víetnam og Venezúela á óvart (Reddit, 2023).
Notkun gervigreindar í skólastarfi getur einnig falið í sér brot á siðferðislegum viðmiðum. Í skólastarfi hefur það alltaf þótt ósiðlegt að setja vinnu annarra fram sem sína eigin (sama hvort um manneskju eða tækni sé að ræða). Gervigreindin getur líka sett fram texta sem er tekinn beint annars staðar frá, til dæmis af vefsíðum, fræðigreinum, o.fl., án þess að geta heimilda. Notkun á þessum texta mun því fela í sér ritstuld, án þess að nemandi hafi beinlínis ætlað sér slíkt.
Hvað er hægt gera?
Til að takast á við þessar áskoranir eru nokkrar leiðir færar: Að banna spunagreind, að forðast hana eða aðlaga skólastarfið að henni (Sharples, 2023). Almennt bann á spunagreind er ekki líklegt til árangurs, þar sem nemendur myndu líklega nota hana samt og erfitt væri fyrir kennara að framfylgja slíku banni. Að forðast spunagreindina getur falið í sér að taka upp gamlar kennsluaðferðir, eins og að láta nemendur taka próf á pappír eða taka nemendur af handahófi í munnleg próf til að tryggja að þeir kunni skil á efninu. Þessi leið getur virkað í einhverjum tilvikum en líka falið í sér umtalsverðan kostnað. Þriðja leiðin, að aðlaga skólastarfið að gervigreindinni er líklega best en einnig umfangsmest því hún felur í sér að kenna umgengni við gervigreind. Til dæmis mætti nota gervigreindina til að fá hugmyndir og aðstoð við stafsetningu, en að hugmyndavinna og heimildavinna sé á ábyrgð nemandans. Ef gervigreind er leyfð á einhvern hátt þyrftu nemendur að skrásetja nákvæmlega hvernig unnið var með hana, þ.e. hvað var slegið inn í tólið og hvað kom út úr því. Þessi nálgun hefur til dæmis verið notuð af University College London í Bretlandi, þar sem lögð er áhersla á að þegar gervigreind hefur verið notuð, þá þarf að viðurkenna það, lýsa notkuninni og vísa í spunatólið (University College London, engin dagsetning).
Einnig má endurhanna námsmat svo það verði fjölbreyttara, miði að því að takast á við vandamál í raunheimi og styðji betur við nám (sjá Sambell og Brown, 2023). Til dæmis getur umræða um verkefni við kennara eða aðra nemendur meðan á vinnunni stendur verið gagnlegt til að sýna að nemendur séu að takast á við efnið. Kennarar geta líka látið nemendur skrifa verkefni í vafra og skila þeim þannig (eins og Microsoft 365), þar sem hægt er að fara til baka og skoða allar útgáfur skjals og þannig sjá verkefnið mótast yfir tíma. Sum forrit bjóða upp á að leggja mat á hvort texti var skrifaður af manneskju, en líkt og gervigreindin þá eru þau ógagnsæ og erfitt er að segja til um hvort niðurstaðan sé rétt eða ekki.
Á næstu árum verður áhugavert að sjá breytingar og þróun, bæði þegar kemur að gervigreindinni sjálfri og getu hennar, en einnig í viðbrögðum okkar og umgengni við hana. Ýmsar stofnanir eru nú að setja sér viðmið um siðferðislega rétta notkun gervigreindar í skólastarfi, til dæmis Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (2022) og Menningarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO; 2023). Nemendur, kennarar og skólastjórnendur þurfa að læra umgengni við gervigreindina til að nýta sér hana á skilvirkan og réttmætan hátt, og setja sér stefnu sem hentar þeirra samhengi og þörfum
Höfundar:
Rannveig Sigurvinsdóttir, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík
John David Baird, kennsluráðgjafi við kennslusvið Háskólans í Reykjavík
Heimildir:
- Elkins, K. and Chun, J. (2020). “Can GPT-3 Pass a Writer’s Turing Test?” Journal of Cultural Analytics 5 (2). https://doi.org/10.22148/001c.17212.
- European Commission, Directorate-General for Education, Youth, Sport and Culture. (2022). Ethical guidelines on the use of artificial intelligence (AI) and data in teaching and learning for educators. Sótt 31. ágúst 2023 af https://data.europa.eu/doi/10.2766/153756
- Hazzan, O. (2023). ChatGPT in Computer Science Education. Communications of the ACM. Sótt 4. september 2023 af https://cacm.acm.org/blogs/blog-cacm/269050-chatgpt-in-computer-science-education/fulltext
- Khan Academy. (2023). Harnessing GPT-4 so that all students benefit. A nonprofit approach for equal access. Sótt 1. september 2023 af https://blog.khanacademy.org/harnessing-ai-so-that-all-students-benefit-a-nonprofit-approach-for-equal-access/
- Sambell, K. and Brown, S. (2023), Choosing and Using fit-for-purpose assessment methods. Herriot Watt University, Learning and Teaching Academy. Sótt 31. ágúst 2023 af https://lta.hw.ac.uk/wp-content/uploads/Choosing-and-using-fit-for-purpose-assessment-methods.pdf
- Sharples, M. (2023). Generative AI for Academic Writing and Assessment: Issues and Opportunities. SEDAintheUK. [Youtube] https://www.youtube.com/watch?v=SKYGZWii3cY
- UCL (engin dagsetning) Engaging with AI in your education and assessment. Sótt 31. ágúst 2023 af https://www.ucl.ac.uk/students/exams-and-assessments/assessment-success-guide/engaging-ai-your-education-and-assessment#how%20to%20acknowledge
- UNESCO (2023) ChatGPT and Artifical Intelligence in higher education – A quick start guide. Sótt 28. ágúst 2023 af https://www.iesalc.unesco.org/wp-content/uploads/2023/04/ChatGPT-and-Artificial-Intelligence-in-higher-education-Quick-Start-guide_EN_FINAL.pdf
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.