Skip to main content
14. september 2023

Tæknin í skólasamfélaginu

Þórný Edda Aðalsteinsdóttir

Þórný Edda AðalsteinsdóttirÁ síðastliðnum árum hafa tæknimál verið mikið rædd í tengslum við menntun og almennt skólastarf. Nám hefur tekið miklum breytingum í gegnum árin og get ég því ímyndað mér að aðferðirnar sem mér voru kenndar í grunnskóla séu ekki alveg þær sömu og verið er að vinna með í dag. Ég get einnig ímyndað mér að kennarar séu oft á mismunandi máli þegar kemur að því að þróa og breyta kennslunni og hvernig á að breyta henni í takt við tæknina.

Í minni tíð var ekkert zoom, engin podcöst, mjög lítið um spjaldtölvur og meira um gömlu góðu samlokusímana. Síðan þá hefur tæknin að sjálfsögðu breyst gríðarlega og í dag þekkja börn lítið annað en að læra í spjaldtölvunni, helst með airpods í eyrunum og með endalausa afþreyingu fyrir framan sig.

Ég hef rætt þessi mál nokkuð mikið við mömmu mína þar sem hún er kennari í grunnskóla og kennir þá aðallega í 8-10.bekk. Hún er ekki beint tæknilegasta manneskja sem ég þekki en hún á samt sem áður mjög auðvelt með að aðlagast nýjum breytingum og er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt þegar kemur að kennslunni.

Ég átti gott samtal við hana fyrir þessi greinarskrif en hún sagði mér frá því að í Laugalækjaskóla væru þau mikið að vinna með chromebook en tveir árgangar eru með ipad og tveir árgangar eru með chromebook (Guðrún Kristín Þórisdóttir, munnleg heimild, 15.mars 2023).

Chromebook tölvur eru fartölvur sem keyra ákveðið Chrome OS kerfi sem er lýst sem hraðvirku, einföldu og öruggu stýrikerfið sem Google hefur búið til (Sahin o.fl., 2016). Hver einasta Chromebook er með innbyggða vírusvörn, hún ræsir sig á nokkrum sekúndum, uppfærist sjálfkrafa og er mjög auðveld í notkun. Chromebook tölvur hjálpa nemendum að koma hlutum í verk, auðvelda nemendum skólavinnu á skemmtilegan hátt þökk sé fjölmörgum forritum sem eru fáanleg í Google Play Store. Í þessum tilteknu tölvum geta nemendur sótt allt efni sem þeir þurfa fyrir skólann, unnið verkefni og skilað inn öllu og eiga ekki í hættu á að glata verkefnunum sínum (Seyala o.fl., 2020). Með þessu koma kennarar í veg fyrir afsökun nemenda um að hafa gleymt bókinni heima eða í skólanum svo nemandinn gat ekki unnið heimavinnuna, þar sem allar bækur og efni er aðgengilegt í tölvunni. Þetta er eitthvað sem kennarar halda mikið upp á samkvæmt kennaranum henni móður minni og finnst henni þetta vera góð þróun í tæknimálum skólans en hún heldur alltaf líka í gömlu góðu bækurnar svo hún segir þetta vera góða viðbót.

Þessi þróun er eitthvað sem ég hefði alveg geta séð fyrir mér en ég hugsa að það sé mun þægilegra að læra á svona Chromebook heldur en Ipad til dæmis þar sem það fyrr nefnda er með lyklaborð og stærri skjá til að vinna með. Ég er samt sem áður mjög þakklát að hafa lært með því að lesa bækur og þegar ég fékk svo að læra í gömlu góðu borðtölvunum var það skemmtilegt og öðruvísi og mætti horfa á það sem ákveðin verðlaun. Í dag þekkja krakkar ekkert annað en að læra í spjaldtölvum og annars konar tölvum en mér finnst það svo sem vera nokkuð eðlileg þróun og eitthvað sem við þurfum bara að venja okkur á.

Þegar horft er til framtíðar varðandi tæknimál kom móðir mín með áhugaverðar hugmyndir en sú sem stóð upp úr hjá mér var umræðan um að fá nemendur til þess að gera hlaðvörp (e. podcast). Verkefnunum yrði háttað þannig að nemendur væru fengin til þess að hópa sig saman og svo úthlutað efni á hvern hóp sem þau kafa djúpt í. Áður en hlaðvarpið yrði tekið upp þurfa nemendur að gera hálfgert handrit þar sem koma fram allar helstu upplýsingar um efnið og svona beinagrind sem þau fylgja í gegnum þáttinn til að passa upp á að allt komi fram. Nemendur taka svo loks upp hlaðvarpsþátt þar sem efnið er rætt fram og tilbaka og þau þurfa að svara ákveðnum spurningum og passa upp á að allir tali og taki þátt.

Þegar ég átti þessar samræður við móður mína sagði hún að það væri nokkurn veginn búið að skipuleggja þetta verkefni og næst á dagskrá væri að leggja þetta fyrir og sjá hvernig nemendur bregðast við en þau kannast öll við þetta hlaðvarps fyrirkomulag þar sem nánast allir á Íslandi og amma þeirra eru með þátt á spotify.

Eftir þetta ágæta samtal var mér ljóst að tæknimálin í grunnskólunum eru allt öðruvísi en þau voru á mínum tímum. Á sama tíma og mér finnst jákvætt hvað við erum öll fljót að þróa nýjar hugmyndir og færast í takt við tæknina þá hugsa ég samt alltaf til gömlu góðu tímanna þegar ég átti samlokusíma, lék mér úti öll kvöld og hafði engan áhuga á nýjasta iphone símanum eða macbook tölvunni. Ég held að það sé bara jákvætt að eiga þessar gömlu, góðu og áhyggjulausu minningar og kunna að þykja vænt um þær á sama tíma og tæknin heldur áfram á ógnarhraða því við viljum ekki staðna. Ég er spennt fyrir framtíðinni og að sjá hvernig skólakerfið mun koma til með að tækla allar þessar breytingar á sviði tækninnar.

Höfundur: Þórný Edda Aðalsteinsdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
Sahin, A., Top, N., & Delen, E. (2016). Teachers' first-year experience with chromebook laptops and their attitudes towards technology integration. Technology, Knowledge and Learning, 21(3), 361-378. doi:https://doi.org/10.1007/s10758-016-9277-9
Seyala, B., Burns, E., Richie, S., Deuink, A. L., & Lynn, V. (2020). Lightweight alternative tech: A study of chromebooks in the academic library classroom.
Library Hi Tech, 38(3), 554-562. doi:https://doi.org/10.1108/LHT-05-2019-0097

 

Skoðað: 531 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála