Upplifun kvenna í tölvunarfræði
Tölvunarfræðigeirinn hefur verið ríkjandi fyrir karlmenn í langan tíma en það var ekki alltaf þannig. Þegar tölvunarfræði kom fyrst fram sem starfstétt í seinni heimsstyrjöldinni voru það konur sem voru í meirihluta í starfstéttinni. Frá 1960 fór konum að fækka verulega og í dag eru um 20% af þeim sem vinna í geiranum konur (ComputerScience.org Staff, e.d.). Það er hægt að velta því fyrir sér hvers vegna þessi fækkun átti sér stað.
Af hverju hefur hlutfallið lækkað?
Rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að það er lögð meiri áherslu á tölvukennslu hjá strákum en stelpum í grunnskólum. Sem hefur leitt til þess að konur dragast frekar aftur úr í tækninámi en karlar. Tæknigeiranum fylgir líka ákveðin staðalímynd sem konum finnst þær ekki uppfylla. Þessi klassíska staðalímynd að forritarar og tölvusnillingar séu bara klárir karlar sem eru með þráhyggju fyrir forritun og flokkast oft sem nördar (Plagnol, o.fl., 2022).
Þetta er staðalímynd sem margir hafa og maður sér hana til dæmis í mörgum sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Hægt er að nefna sem dæmi margar vinsælar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaseríur eins og til dæmis Mr. Robot, Scorpion og Silicon Valley sem allar tengjast forritun þar sem karlkyns forritari er í aðalhlutverki (Ashish, 2021). Það er skortur á kvenkyns tæknifyrirmyndum í þáttum og í fyrirtækjum sem er svo mikilvægt að hafa til þess að afsanna þessa staðalímynd að þetta séu einungis karlkyns ofurnördar.
Mín reynsla
Skortur á kvenkyns fyrirmyndum í geiranum er eitthvað sem hefur haft áhrif á mína reynslu í tölvunarfræði. Það hefur ekki verið auðvelt að mæta í fyrirlestra og dæmatíma og vera ein af fáum stelpum þar. Ekki nóg með það að vera í miklum minnihlutahóp meðal samnemenda heldur hafa aðalkennarar mestmegnis verið karlkyns líka. Af þeim 24 áföngum sem ég hef verið skráð í hafa 7 áfangar verið með kvenkyns kennara sem aðalkennara. Í tveimur af þessum 7 áföngum voru fleiri en einn aðalkennari og var þá að minnsta kosti einn karlmaður líka aðalkennari.
Að finna stanslaust fyrir því að vera í minnihlutahóp í náminu og vera í stanslausri baráttu við að sanna að konur eigi líka heima í geiranum getur verið þreytandi. Mér hefur fundist að ég þurfi að leggja á mig meiri vinnu en karlkyns samnemendur til þess að vera tekin alvarlega í hópverkefnum og tímum. Það var sérstaklega erfitt að byrja í námi á covid tímum þar sem maður hitti ekki samnemendur sína og sá þá bara í gegnum zoom.
Ég tók sérstaklega eftir því að það voru eiginlega bara strákar sem voru að skrifa inn athugasemdir eða tala inn á zoom í tímum. Þá leið mér sérstaklega eins og ég væri einangruð því það voru varla neinar stelpur sýnilegar í tímum þá. Þessi upplifun gerir það líka að verkum að maður fer að efast um sjálfa sig og sína þekkingu í náminu. Mér líður oft eins og ég sé ekki jafn klár og strákarnir í þessum námi og leiðir það til þess að ég vanmet sjálfa mig gríðarlega.
Á fyrsta árinu mínu átti ég mjög erfitt með það að spyrja spurningar í fyrirlestrum, biðja um hjálp í dæmatímum og bara vera almennt sýnileg. Ég hugsa að það séu margar konur í tölvunarfræði sem hafa upplifað svipað og ég. Þess vegna er svo mikilvægt að efla og styrkja konur í tölvunarfræði til að sýna öllum að við eigum líka heima í þessum geira.
Hvernig er hægt að laga þetta vandamál?
Þetta er stórt vandamál sem þarf því stóra lausn en hvernig er hægt að fá fleiri konur í geirann og láta þeim líða eins og þær eigi heima þar? Það sem hjálpaði mér var /sys/tur, hagsmunafélag kvenna í tölvunarfræði í HR, því þar var loksins félag og vettvangur sem gefur konum tækifæri til þess að koma saman og styrkja hver aðra.
Allt í einu var ég ekki ein í þessu og það kom í ljós að það var fullt af öðrum stelpum. Það mættu einnig vera fleiri möguleikar á forritunaráföngum í menntaskólum og grunnskólum og sýna þar að þetta er námsefni sem er líka ætlað stelpum.
Stelpur og tækni er líka gríðarlega vel útfært verkefni þar sem stelpum úr 9. bekk er boðið að koma í HR til þess að vekja áhuga þeirra á tækni. Það mætti efla meira þær konur sem er nú þegar í háttsettum störfum í tölvunarfræði og sýna þær fyrirmyndir betur og skýrar. Gera fleiri þætti og kvikmyndir sem tengjast tækni þar sem konur eru í aðalhlutverki. Eyða þeirri alræmdu mýtu að tölvunarfræðingar séu bara karlkyns ofurnördar og sýna í eitt skipti fyrir öll að tölvunarfræði er opin og fyrir alla.
Höfundur: Svanfríður J Steingrímsdóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimildaskrá
Plagnol, A.C og Yates, J. (2022) Female computer science students: A qualitative exploration of women’s experiences studying computer science at university in the UK. Educ Inf Technol, 27, 3079–3105. https://doi.org/10.1007/s10639-021-10743-5
ComputerScience.org Staff. (e.d.). Women in computer science: Getting Involved in STEM. Resources. https://www.computerscience.org/resources/women-in-computer-science/
Ashish. (2021, 9. nóvember). Top 7 Computer Science Movies and Series [bloggfærsla]. Mood Swag. https://moodswag.com/computer-science-movies-and-series/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.