Skip to main content
6. október 2022

Fílinn í hendinni þér: Skjáfíkn og hvernig við tökumst á við hana

Arnar þSeinasta sumar var ég í brúðkaupi þar sem Stefán Hilmarsson kom og flutti nokkur af sínum bestu lögum. Meðan verið var að kynna atriðið á svið tek ég eftir því að maður á milli sextugs og sjötugs situr fyrir framan mig að pikka á símann sinn meðan á kynningunni stendur, ég pældi nú ekki mikið í því enda orðið nokkuð eðlilegt að fólk sé í símanum öllum stundum í nútímasamfélagi. Þegar búið var að flytja 3 lög veitti ég því hins vegar athygli að þessi sami maður hafði ekki enn litið upp úr tækinu og virtist hreinlega ekki vera meðvitaður um tónlistar atriðið sem væri í gangi fyrir framan sig.

Þá ákvað ég að hnýsast aðeins til að komast að því hvað væri svo merkilegt að viðkomandi vildi frekar horfa á skjáinn heldur en að hlusta á Stebba spila og sé þá að viðkomandi var að skrolla í gegnum Instagram. Á þessum tímapunkti fór ég að horfa í kringum mig til að  sjá hvað aðrir í salnum væru að gera og tók þá eftir því að um það bil þriðjungur fólks var ýmist að horfa á atriðið í gegnum myndavélina á símanum sínum, labbandi um salinn að taka video af atriðinu, skrolla á samfélagsmiðlum eða sendandi skilaboð á einhvern sem ekki var viðstaddur brúðkaupið.

Þessar aðstæður finnst mér vera mjög lýsandi fyrir það samfélag sem við búum í. Fólk er sífellt meira með athyglina í snjalltækjunum og missir því af því sem er að gerast hér og nú.

Skjáfíkn eða tölvufíkn er sífellt vaxandi vandamál sem erfitt er að greina því að snjalltækin eru búin að ná sér fótfestu í öllum hlutum lífsins svo sem með tölvuleikjum, samfélagsmiðlum, tölvupósti og öllu mögulegu tengdu vinnu fólks. Þetta gerir það að verkum að það getur verið erfitt að greina á milli hvað er "nauðsynleg" snjalltækja notkun, eins og að taka þátt í vinnusamtölum eða jafnvel vinna verkefni fyrir vinnuna á símanum, og hvað er fíknihegðun.

Að sama skapi er þetta vandamál sem er orðið svo dreift um samfélagið að erfitt getur verið að átta sig á hvenær er notkunin orðin óhófleg þegar stór hluti fólks glímir við sama vandamál jafnvel án þess að átta sig á því.

Tækjanotkun hefur aukist jafnt og þétt seinustu árin og væri hægt að líkja þessu við dæmisöguna um að sjóða frosk lifandi. Ef notkun eykst jafnt og þétt, en engu að síður nógu hægt til að sjá teljandi mun dag frá degi þá getur reynst erfiðara að átta sig á því hvenær notkun tækisins er farin að hafa neikvæð áhrif á aðra hluti lífsins vegna þess að breytingarnar gerast á löngum tíma.

Einkenni skjáfíknar hjá börnum eru oft þau sömu og sjást í annarri fíkn eins og t.d. eiturlyfja fíkn. Einkenni eins og lygar, fráhvörf, einangrun og svefnleysi eru öll hluti af skjáfíkn (Jellies, 2018). Þessi einkenni geta líka komið hjá fullorðnum, en auk þess getur skjáfíkn haft áhrif á frammistöðu fólks í vinnu, samskipti við sína nánustu og lundarfar.

Úrræði fyrir fólk með tölvu eða skjáfíkn eru af skornum skammti hér á landi og sérfræðingar úti í heimi virðast ekki allir sammála um hvað sé besta leiðin til árangurs. Lyfjagjöf virðist sjaldnast virka ein og sér, þó hún geti hjálpað til meðfram öðrum úrræðum. Hugræn atferlismeðferð hefur sýnt fram á góðan árangur ásamt jákvæðri styrkingu félagstengsla skjólstæðinga (Ingólfsson, 2019).

Eitt er víst að þetta er vandamál sem þarf að taka föstum tökum á næstu árum og einhvers staðar þurfum við að byrja að láta reyna á mismunandi úrræði. Suður Kórea, Kína og önnur asíulönd hafa tekið þetta vandamál föstum tökum með því t.d. að opna sérstakar deildir ætlaðar til innlagna sjúklinga sem glíma við skjá-, net-, tölvu- og tölvuleikja fíkn. Það væri góð byrjun að horfa til þess hvað hefur reynst vel í þessum löndum og sjá hvort hægt væri að nýta slíkt í okkar samfélagi (Ingólfsson, 2019).

Mér finnst dapurt að sjá að Geðhjálp er með undirsíðu tileinkaða Tölvu- og netfíkn sem gerir ekkert annað en að benda á vefinn tolvufikn.is, en sá vefur er ekki lengur starfræktur. Þetta finnst mér lýsandi fyrir hversu litla athygli þetta vandamál er að fá á Íslandi í dag (Geðhjálp, n.d.). Eftir mikla leit finn ég engin augljós meðferðarúrræði fyrir fullorðna einstaklinga á Íslandi í dag, en eitthvað er til af úrræðum fyrir börn og unglinga hjá BUGL sem er frábært fyrsta skref.

Ég held við séum öll meðvituð um það að möguleikar snjalltækja munu aukast á næstu árum og skjátími mun að öllum líkindum aukast samhliða þessum nýju tæknilegu möguleikum. Snjalltækin hafa veitt okkur frábær tækifæri í persónulegu lífi og vinnu, nú er undir okkur komið sem samfélag að tryggja að þróunin haldi áfram á þeirri leið í stað þess að afvegaleiða okkur í átt að félagslegri einangrun stórra hópa vegna fíknivanda í tengslum við jafn hversdagsleg tæki og snjalltækin eru orðin.

Höfundur: Arnar Þór Sveinsson nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá:

Geðhjálp. (n.d.). Tölvu- og netfíkn. Geðhjálp. Retrieved September 28, 2022, from https://gedhjalp.is/urraedi/tolvu-og-netfikn/

Ingólfsson, D. G. Ö. (2019, February 27). Meðferðir við ofnotkun skjátækja og tölvufíkn. SÍBS.is. Retrieved September 28, 2022, from https://sibs.is/fraedsla/greinar/medferdir-vid-ofnotkun-skjataekja-og-tolvufikn/

Jellies. (2018). 10 Signs It's Time To Change Your Child's Screen Time and Habits. Retrieved September 28, 2022, from https://jelliesapp.com/blog/change-child-screen-time

Skoðað: 511 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála