Skip to main content
9. júní 2022

Frankenstein veraldarvefsins

Johanna VigdisHvernig sem á það er litið hafa samfélagsmiðlar breytt daglegu lífi mannkynsins – til góðs og ills. Þannig blasir við að stærsti bergmálshellir okkar Íslendinga er ekki Surtshellir í Hallmundarhrauni heldur Facebook, þar sem við öskrum skoðanir okkar út í loftið, til þess eins að fá þær margfaldar til baka. Enda eru vinir okkar á samfélagsmiðlum meira og minna sömu skoðunar. Þetta fær okkur til að trúa því að við höfum rétt fyrir okkur, að skoðanir okkar séu réttastar.

Nú kann fólk að spyrja hvað sé svona slæmt við þetta? Því líður ágætlega í eigin bergmálshelli, hann er hlýr og notalegur, lækin hlaðast upp og staðfesta vinsældirnar.

Mark Zuckerberg, þessi Frankenstein veraldarvefsins, sá ekki fyrir að sköpun hans væri hægt að nota hvoru tveggja til góðs og ills. Eins og öll mannanna verk. Þannig hafa lýðskrumarar stjórnmálanna nýtt Facebook á afar skilvirkan hátt við útbreiðslu skoðana sinna. Lýðskrum (e.populism) vísar í þessu samhengi til þeirrar tilhneigingar að skipta íbúum þjóðar í tvo einsleita hópa, annars vegar spillta valdaklíku (eða elítu, eins og heyrst hefur talað um í nýliðinni kosningabaráttu) og hins vegar saklausan almenning. Andstæðar fylkingar. Markmiðið er síðan að telja almenningi trú um að hann þurfi að rísa gegn valdaklíkunni. Valdaklíkuna skilgreina lýðskrumarar oftast sem samansafn menntamanna, blaðamanna og fjármálafólks. Þessi skilaboð eru látin dynja á notendum Facebook og það er nú einu sinni þannig að ef við heyrum eitthvað nógu oft þá förum við að trúa því. Öskrin hækka, fleiri deila og læka. Bergmálshellirinn stækkar en skoðanirnar eru enn þær sömu.

Lýðskrumarar stjórnmálanna stilla sér síðan upp sem andstæðingi valdaklíkunnar, þeir eru leiðtoginn sem muni leiða almenning til frelsis – rödd fólksins. Þetta er aðferð sem fjöldi einræðisherra hafa notað í gegnum tíðina, með afar góðum árangri, löngu fyrir daga Facebook. Þar má nefna Hugo Cháves, Hitler og Mussolini. Samfélagsmiðillinn hefur hins vegar stytt tímann sem það tekur að vinna lýðskruminu hylli, hann er svo skilvirkur að meira að segja Donald Trump gat nýtt hann.

Lýðskrum stjórnmálamanna birtist oftar en ekki sem einfaldar lausnir á flóknum samfélagslegum áskorunum. Oftast eru það menntamenn og blaðamenn sem færa okkur fréttir af þessum áskorunum. Einfaldasta lausnin er hreinlega að útmála þessa „valdaklíku“, boðbera válegra tíðinda, sem lygara og afneita tilvist vandans. Afneitun loftslagsbreytinga af mannavöldum er dæmi um vinsæla skoðun lýðskrumara, sem er deilt óhikað og af mikilli færni í gegnum samfélagsmiðla. Þar er talað inn í hjarta áheyrenda, enda munu nauðsynlegar breytingar til að stöðva þær hamfarir sem hlýnun jarðar hefur í för með sér kosta almenning minni hagvöxt og lakari lífsgæði. Að sama skapi eru miklir fjárhagslegir hagsmunir af því að haldið verði áfram með óbreyttum hætti.

Skoðanamótun samfélagsmiðla snýst um annað og meira en skroll og læk. Líkt og loftslagsbreytingar snúast ekki eingöngu um veðurfar og hafstrauma, snýst skoðanamótunin um þróun lýðræðis og mannréttinda. Við þurfum ekki að líta lengra en til Evrópu til að sjá hversu hratt lýðræðið lætur á sjá. Slæmir hlutir gerast þegar gott fólk tekur ekki afstöðu, gerir ekkert annað en að horfa í forundran á vitleysuna. 

Við getum ekki mætt flóknum áskorunum með einföldum lausnum sem eru öskraðar út í tómið í bergmálshellinum. Flóknar áskoranir krefjast þess af okkur að við höfum áhyggjur, söfnum upplýsingum, köfum dýpra, hugsum gagnrýnið, leitum lausna, tökum ábyrga afstöðu. Gerum eitthvað annað og meira en að læka og deila, deila og læka, skrolla og skrolla. Annars höfum við bara, eins og Victor Frankenstein, búið til skrímsli.

Höfundur: Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar máltækni

Skoðað: 504 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála