Skip to main content
5. maí 2022

WebRICE veflesarinn

Smári Freyr GuðmundssonVeflesarinn WebRICE er þróaður á Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík undir merkjum máltækniáætlunar fyrir íslensku en það er metnaðarfull áætlun sem er með það að markmiði að tryggja að við getum og munum nota íslensku í samskiptum við og í gegnum stafræn tæki og tölvur. Áætlunin er fjármögnuð af fjárlögum. Allar lausnir verða gefnar út undir opnum leyfum (e. open-source) til að tryggja að einstaklingar, frumkvöðlar og fyrirtæki geti nýtt þær í þágu íslensku þjóðarinnar. Rannsóknar- og þróunarhópurinn SÍM (Samstarf um íslenska máltækni) sér um framkvæmd máltækniáætlunar í samræmi við samning við Almannaróm, miðstöð máltækni. Mál- og raddtæknistofa Háskólans í Reykjavík er aðili að SÍM.

Á Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík starfar öflugur hópur sérfræðinga í máltækni, gagnaöflun og hugbúnaðarþróun. Á meðal afurða stofunnar má nefna talgervla, gagnasöfnunarvefinn Samróm, leikinn Spurningar.is og veflesarann WebRICE.

Hér verður fjallað um veflesarann WebRICE. Farið verður yfir núverandi útfærslu WebRICE ásamt því hver framtíðaráformin eru um áframhaldandi þróun hans en það stendur til að auka aðgengi að honum með því að bjóða líka upp á hann sem vafraviðbót (e. browser add-on). 

Einfalt og þægilegt viðmót

Webrice logoFyrsta útgáfa WebRICE kom út á vormánuðum þessa árs. Viðmót veflesarans er lítil stika með hnöppum til þess að hefja afspilun, stöðva hana og stilla hraða lestrar. Notandinn þarf einungis að smella á afspilunarhnappinn og hefst þá upplestur á texta vefsíðunnar. Viðmótið býður einnig upp á að vera stjórnað með flýtilyklum (e. shortcuts). Þannig uppfyllir það aðgengiskröfur sem gerðar eru í WCAG 2.0 Level AA: Acceptable compliance.

Útfærsla og tækni

WebRICE styðst við talgervilsþjónustu sem er þróuð og haldið við af Tiro ehf., sem einnig er þátttakandi í SÍM. Tiro heldur úti vefþjónustu á meðan máltækniáætlun stendur yfir, eða u.þ.b. eitt ár í viðbót. Tilgangur þessarar vefþjónustu er að sýna dæmi um það hvernig WebRICE mun verka í heild sinni og leyfa tilraunir með uppsetningu á lausninni. 

Talgervilsröddin sjálf heitir Álfur og er hún þróuð á Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík. Fleiri raddir eru í þróun og verður þeim bætt við veflesarann jafnóðum til að auka fjölbreytni og valkosti fyrir notendur og vefstjóra.

Notkun

WebRICE er einfalt og þægilegt tól sem vefstjórar og aðrir sem halda úti vefsíðum geta bætt við þær til þess að auka aðgengi ýmissa hópa að efni þeirra. WebRICE getur gagnast hverjum sem er en er mikilvægt tól fyrir ýmsa hópa eins og blinda, sjóndaufa og lesblinda.

Sá sem heldur úti vefsíðu getur á einfaldan og þægilegan máta bætt WebRICE við hana. Einungis þarf að tilgreina staðsetningu spilarans á síðunni, vísa í skriftur og tilgreina hvaða HTML tög vefsíðunnar innihalda texta sem á að vera lesinn. Þessu er nánar lýst á GitHub síðunni sem gefin er slóð á í lok þessarar greinar.

WebRICE sem vafraviðbót

Til stendur að útfæra nýja útgáfu af WebRICE sem mun standa til boða samhliða þeirri sem lýst er hér að ofan. Nýja útgáfan verður í formi vafraviðbótar en að öðru leyti munu notendaupplifun, útlit og notkun á veflesaranum vera samskonar og þegar er í boði í WebRICE.

logoStærstu kostirnir við hafa WebRICE í boði sem vafraviðbót eru tveir. Annars vegar geta allir nálgast hugbúnaðinn á einfaldan hátt og notað hann án þess að hafa tæknilegan bakgrunn. Hins vegar eru engin takmörk á því á hvaða vefsíðu hægt er að nota hugbúnaðinn, svo lengi sem texti er á íslensku þá verður hægt að láta WebRICE vafraviðbótina lesa hann upp. Ekki þarf því að reiða sig á að þeir sem halda úti vefsíðum byggi þetta inn í þær. Þessir kostir auka verulega aðgengi þeirra sem styðja sig við veflesara að upplýsingum og fréttum. 

Ein áskorun við þróun WebRICE sem vafraviðbótar verður að finna leið til þess að notandinn þurfi ekki að velja sjálfur texta til upplestrar. Ákjósanlegast væri að vafraviðbótin fyndi á sjálfvirkan hátt hvaða texti skiptir máli á hverri síðu. Vegna mismunandi útfærslna vefsíðna er það nokkur áskorun, en skiptir þá notendur miklu máli, sem búa við svo skerta sjón að þeir geta ekki valið texta.

Undanfarið hefur farið fram hönnun á þessari vafraviðbót, bæði á viðmóti sem og á tæknilegum atriðum. Fulltrúar frá Blindrafélaginu og Félagi lesblindra á Íslandi veittu endurgjöf, enda er hugbúnaðurinn mikilvægur fyrir félagsmenn þessara félaga. Hönnun á vafraviðbótinni er nú lokið og næsta skref er að hefja þróun á hugbúnaðinum.

Vafraviðbótin verður þróuð og gefin út fyrir vinsælustu vafrana. Það eru Google Chrome, Microsoft Edge og Mozilla Firefox. Einnig er til skoðunar að þróa hana fyrir Safari. Til að viðhalda eðlilegu samræmi verða eiginleikar, notendaupplifun og útlit vafraviðbótanna samræmd á öllum vöfrum.

Samantekt

WebRICE er veflesari og ein af mörgum afurðum Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík. Þörfin er til staðar fyrir íslenskan veflesara sem íslenskir aðilar þróa og halda við, enda hefur reynslan sýnt að erlend stórfyrirtæki eru ekki endilega reiðubúin að leggjast í þá innviðavinnu sem þarf til að styðja við íslensku í slíkum kerfum.

Hugbúnaðurinn er nú þegar aðgengilegur og er góður kostur fyrir vefstjóra sem vilja auka aðgengi að efni vefsíða sinna. Marmiðið er að halda áfram að auka aðgengi notenda að veflesaranum og er sú vinna þegar hafin með þróun vafraviðbótarinnar. Mun hún gera hverjum sem er kleift að láta lesa upp íslenskan texta, óháð vefsíðu.

Aðgengi og nánari upplýsingar

WebRICE er opinn hugbúnaður (e. open-source) og er því öllum aðgengilegur. Hið sama á við um allar aðrar hugbúnaðarafurðir sem unnar eru undir máltækniáætlun fyrir íslensku.

Áhugasamir geta kynnt sér nánar starfsemi Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík og þróun á WebRICE á eftirfarandi vefslóðum:

Vefur Samstarfs um íslenska máltækni: https://icelandic-lt.gitlab.io

Vefur Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík: https://lvl.ru.is

Vefur WebRICE: http://www.webrice.is

GitHub vefur WebRICE: https://github.com/cadia-lvl/WebRICE

Vefur Tiro: https://tiro.is, fyrir upplýsingar um vefþjónustu fyrir talgervla tiro@tiro.is 

Öllum er líka velkomið að senda tölvupóst á webrice@ru.is til að spyrjast fyrir um veflesarann eða að koma með ábendingar.

Höfundur: Smári Freyr Guðmundsson, rannsóknarmaður við Háskólann í Reykjavík

Skoðað: 529 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála