Dygðir og mannkostir í hinni stafrænu hliðarvídd
Rannsóknarmiðstöðin Jubilee Centre for Character and Virtues[1] við Háskólann í Birmingham á Englandi hefur um langt skeið rannsakað hlutverk og möguleika mannkostamenntunar (e. character education) í skólastarfi, innan fagstétta og nú síðast á vettvangi samfélagsmiðla og internetsins. Rannsóknir fræðafólksins við Jubilee rannsóknarmiðstöðina eru reistar á samtímakenningum sem byggja á dygðasiðfræði gríska heimspekingsins Aristótelesar. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði er farsældin eða hamingjan sjálfstætt markmið mannlegs lífs. Farsældin er, eðli málsins samkvæmt, ævilangt verkefni manneskjunnar en til þess að geta höndlað hamingjuna þarf einstaklingurinn að leitast við að lifa dygðugu lífi.
Dygðum er jafnan skipt í fjóra meginflokka: Siðrænar dygðir á borð við heiðarleika, hugrekki, þakklæti og hógværð; framkvæmdadygðir eins og samviskusemi, seiglu og úthald; vitrænar dygðir á borð við víðsýni, sannsögli og forvitni og loks borgaralegar dygðir líkt og borgaravitund og samfélagsþjónustu. Yfir þessum dygðum ríkir svo dómgreindin eða siðvitið sem hjálpar okkur að vega og meta heildrænt hvað rétt sé að gera á hverjum tíma með hliðsjón af aðstæðum (Arthur o.fl., 2017, bls. 10–11).
Samkvæmt Aristótelesi sýnir hinn hyggni maður siðvit sem gerir honum kleift að öðlast farsæld eða lifa góðu lífi (Aristóteles, 2011, 95a7 o.áfr.). Dygðasiðfræði Aristótelesar er um margt frábrugðin öðrum kenningum í siðfræði vegna áherslunnar á þroska einstaklingsins og sjálfsábyrgð. Manneskjan þarf að leita innra með sér eftir svörum um rétta breytni í ljósi aðstæðna og þessi breytni getur endurspeglað hvaða mann viðkomandi hefur að geyma. Slík innri rökræða krefst þess að viðkomandi sé í góðum tengslum við tilfinningar sínar og sé fær um að hugsa röklega um eigin athafnir og viðhorf. Aristóteles áleit að með æfingunni myndi manneskjan koma sér upp góðum venjum og þyrfti ekki að ígrunda hverja athöfn, heldur myndi breyta sjálfkrafa rétt. Slíkan þroska mætti öðlast í uppeldinu en ekki síður í gegnum menntun sem hefði slík markmið í öndvegi. Af þessu má ráða að það fari best á því að mannkostamenntun verði fléttuð inn í hefðbundið nám, enda er það ekki formlegur námsárangur sem ríður baggamuninn á lífsgöngunni heldur karakter (eða mannkostir) og þokkalega heilbrigð sjálfsmynd (sjá t.d. Kristján Kristjánsson, 2015).
Í daglegu lífi eru næg tækifæri til að þroska hæfnina til að glíma við siðferðilegar spurningar, einkum og sér í lagi þegar viðfangsefnin heyra undir okkar sýnilega og áþreifanlega veruleika þar sem fólkið sem við eigum í samskiptum við er innan seilingar sem manneskjur af holdi og blóði. Eftir að hraðar nettengingar, samfélagsmiðlar og öflugur tækjabúnaður urðu að sjálfsögðum hluta daglegs lífs fólks á öllum aldri kom fljótt í ljós að víða reyndist vera pottur brotinn hvað varðar samskipti á netinu, mat á upplýsingum og innsýn í fjölmargar siðferðilegar spurningar.
Færa má fyrir því rök að stafræni veruleikinn sé nokkurs konar hliðarveröld þar sem hvorki ríkja hefðbundin náttúrulögmál né siðferðileg gildi. Fyrirbæri eins og tími, rúm og stærðir eru öll afstæð, allt gerist á augnabliki í veröld sem gerir engan greinarmun á umfangi eða fjarlægð og manneskjur hafa verið smættaðar niður í notendanöfn og lykilorð. Stafræni veruleikinn tilheyrir þannig í einhverjum skilningi veröld guðanna, en henni lýsti gríski heimspekingurinn Platón í meginriti sínu, Ríkinu. Til hinnar guðlegu víddar áttu venjulegir dauðlegir menn ekkert erindi og það er því ekki furða að mörgum verði hált á svellinu þegar stigið er inn undraveröld ótæmandi möguleika.
Á mismunandi vettvangi, í tölvuleikjum, á spjallrásum og víðar, koma ýmsir sér upp eða stofna nokkurs konar hliðarsjálf. Er þá um að ræða ímyndaða veru í stafrænum líkama (e. avatar) sem „eigandinn“ blæs lífi í.[2] Í samskiptum við aðrar manneskjur í gegnum netið er sumum tamt að koma fram líkt og ekki sé um raunveruleg samskipti að ræða og þeir sem verða á vegi manns séu eitthvað annað en verur af holdi og blóði. Við slíkar aðstæður er hætt við að sjálfið hreinlega leysist upp og tapi tengslum við veruleikann sem það er sprottið úr. Þá fara samskipti í gegnum netið að einkennast af nokkurs konar afstæðishyggju, þar sem allt er leyfilegt og enginn mætir öðrum né heldur sjálfum sér. En hvað er þá til ráða úr því sem komið er og við höfum frjálsan aðgang að þessari dásamlegu hliðarveröld endalausra tækifæra? Hvernig eigum við að haga okkur meðal guðanna?
Til að svara spurningum af þessu tagi framkvæmdi Jubilee miðstöðin viðamikla rannsókn á notkun ungmenna á samfélagsmiðlum og netinu með það fyrir augum að efla netlæsi ungmenna í gegnum mannkostamenntun og stuðla þannig að aukinni stafrænni borgaravitund (e. citizenship). Efling borgaravitundar miðar m.a. að því að virkja börn og ungmenni (ásamt kennurum og öðrum fullorðnum) í að fjalla um og hafa áhrif á málefni samtímans, gefa ungu fólki rödd og veita því tækifæri til að koma breytingum til leiðar og taka þátt í samfélagslegum verkefnum (Brett, Mompoint-Gaillard og Salema, 2009, bls. 15).
Þótt ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar á möguleikum mannkostamenntunar til að hjálpa börnum að nýta sér tækifæri internetsins til fullnustu og draga úr hættum samfara aukinni netnotkun þá er rannsókn Jubilee sú fyrsta sem horfir til jafns á viðhorf barna og forráðamanna til dygða í tengslum við stafræn samskipti. Í þessu samhengi varð til hugtakið stafrænt siðvit (e. cyber-wisdom) sem segja má að sé stafræn útgáfa af dómgreind eða siðviti (Polizzi og Harrison, 2021, bls. 3). Rannsakendur beindu sjónum sínum annars vegar að börnum á aldrinum 13–16 ára og hins vegar að forráðamönnum barna á aldrinum 13–17 ára og var gagna aflað með rafrænum spurningalistum. Sá fyrri var lagður fyrir börn og ungmenni og náði til tvö þúsund þátttakenda. Í honum var leitað svara við því hvernig ungmenni á Bretlandseyjum taki siðferðilegar ákvarðanir og hvaða áherslu þau leggi á dygðir og hyggindi þegar þau eiga í samskiptum við aðra á samfélagsmiðlum. Seinni spurningalistinn var lagður fyrir fimmtán hundruð forráðamenn barna á svipuðu reki. Í því tilviki var sjónum beint að því hvaða augum forráðamennirnir líta dygðir og hyggindi í tengslum við það hvernig þau reyna að hafa áhrif á netnotkun barna sinna (Harrison og Polizzi, 2021). Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ungmenni eru læs á dygðir eins og þær birtast í netheimum og þeim finnst eftirsóknarvert að sýna af sér skynsemi í ákvarðanatöku, góða siði, heiðarleika, öryggi, stuðning við góð málefni, sjálfstæða hugsun og getu til að „rísa aftur á fætur“ (þ.e. sýna seiglu) (Harrison og Polizzi, 2021, bls. 17–18). Sýnt var fram á að ungmenni læra fyrst og fremst að nota samskiptamiðla á skynsaman hátt af foreldrum sínum en einnig af kennurum og systkinum (Harrison og Polizzi, 2021, bls. 19). Á hinn bóginn ætlast forráðamenn til að börnin þeirra læri um stafrænt siðvit í skólanum (Harrison og Polizzi, 2021, bls. 26).
Því er ljóst að fyrirmyndir gegna mikilvægu hlutverki með tilliti til stafræns siðvits en ekki allar fyrirmyndir kannast við eigið mikilvægi í því tilliti. Athygli vekur að í niðurstöðum á athugunum á viðhorfum bæði foreldra og ungmenna kemur fram að báðir hópar álíta stafrænt siðvit mikilvægara en aðrar dygðir (Harrison og Polizzi, 2021, bls. 26). Eins kom fram að báðum hópum finnst mikilvægt að stafræn tækni sé notuð á dygðugan hátt (Harrison og Polizzi, 2021, bls. 25–26). Hér á landi hafa íhlutanir verið framkvæmdar í skólum undir formerkjum mannkostamenntunar sem gefa vísbendingar um að í skólasamfélaginu sé áhugi fyrir áherslum mannkostamenntunar. Því er ástæða að rannsaka stöðu stafrænnar borgaravitundar í gegnum mannkostamenntun og möguleikana á að þróa verkfæri forráðamanna og kennara til að iðka hana og taka þátt í henni.
Skjótt skipast veður í lofti þegar kemur að umræðu og atferli manna á netinu. Hinn stafræni veruleiki hefur raunveruleg áhrif á hinn hversdagslega veruleika. Ef við getum skapað jarðveg fyrir heiðarleg og gagnvirk samskipti manna á milli á samskiptamiðlum sem og annars staðar, er brýnt að gefa möguleikum stafrænnar borgaravitundar í gegnum mannkostamenntun gaum. Reynsla ungmenna er frábrugðin reynslu fullorðinna (Dockett og Perry, 2007, bls. 48). Því er full ástæða til að gera frekari rannsóknir og leita leiða til að brúa bilið milli þessa hópa og stuðla þannig að uppbyggilegri stafrænum veruleika bæði innan og utan skólans.
Höfundar:
Ingimar Ólafsson Waage, lektor í listkennsludeild Listaháskóla Íslands og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Kristian Guttesen, sérfræðingur í framhaldsskólamálum hjá Menntamálastofnun og doktorsnemi við Háskólann í Birmingham
Heimildaskrá
Aristóteles. (2011). Siðfræði Níkomakkosar. Hið íslenska bókmenntafélag.
Arthur, J., Kristjánsson, K., Harrison, T., Sanderse, W. og Wright, D. (2017). Teaching character and virtue in schools. Routledge.
Brett, P., Mompoint-Gaillard, P. og Salema, M. H. (2009). How all teachers can support citizenship and human rights education: a framework for the development of competences. Council of Europe Publishing.
Dockett, S. og Perry, B. (2007). Transitions to school: Perceptions, Experiences. University of New South Wales.
Harrison, T. og Polizzi, G. (2021). A cyber-wisdom approach to digital citizenship education. Research report. Sótt af: https://www.jubileecentre.ac.uk/userfiles/jubileecentre/Final%20PDF%20Cyber%20Wisdom%20Report%20v2.pdf
Kristján Kristjánsson. (2015). Aristotelian Character Education. Routledge.
Platón. (2009). Ríkið. Hið íslenska bókmenntafélag.
Polizzi, G. og Harrison, T. (2021). Integrating cyber-wisdom education into the school curriculum. Sótt af: https://www.jubileecentre.ac.uk/userfiles/jubileecentre/pdf/insight-series/GP_TH_IntegratingCyber-WisdomEducationintotheSchoolCurriculumFinal.pdf
[1] Jubilee Centre for Character and Virtues, sjá: https://www.jubileecentre.ac.uk
[2] Orðið avatar merkir í grunninn „guðleg vera“. Sjá t.d.: https://timarit.is/page/5208999
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.