Skip to main content
13. janúar 2022

Hlaðvarpið – persónulegur og vandmeðfarinn miðill

Anna MarsibilViðtal við Önnu Marsibil Clausen

Hlaðvarpsþættir hafa notið síaukinna vinsælda undanfarin ár. Þetta sætir verulegum tíðindum því áður en hlaðvarpið fór að ryðja sér til rúms höfðu sjónrænir afþreyingarmiðlar verið í mikilli sókn í langan tíma: Sjónvarp, tölvuleikir og internet. En nú erum við aftur farin að hlusta í auknum mæli, og ekki bara á tónlist. Til þess að fræðast nánar um þennan tiltölulega nýja miðil, tóku Tölvumál útvarpskonuna Önnu Marsibil Clausen tali, en hún hefur bæði víðtæka reynslu af gerð hlaðvarpa og er þar að auki með MA-gráðu í fjölmiðlun frá Berkeley-háskóla í Kalifornía.

Eru hlaðvörp eðlisólík útvarpsþáttum og hvað hafa þau helst fram yfir línulega útvarpsdagskrá?

Það er náttúrulega ekki jafn strangur rammi í kringum hlaðvörp. Þegar við gerum útvarpsþætti hér á RÚV, setur lengd þáttanna ákveðnar skorður. Við þurfum ekki aðeins að vita hversu langur þátturinn vera, heldur líka hversu langur hann þarf að vera.

Mörgum þykir helsti kostur hlaðvarpa vera sá að þau geta verið endalaus, þar er hægt að halda áfram að gjamma tímunum saman. Mér finnst helsti kosturinn hins vegar vera sá að hlaðvörp geta bara verið nákvæmlega eins löng og þau þurfa að vera. Sjaldnast þurfa þau að vera lengri en 25 mínútur.

Annað sem skilur að hlaðvörp og útvarpsþætti, sérstaklega þætti á Rás 1, er að hlaðvarpið er afslappaðri og persónulegri miðill, bæði þegar kemur að framsetningu og neyslu efnisins. Flestir hlusta á hlaðvörp í heyrnartólum og fylgjast þannig náið með efninu, frekar en að láta það ganga í bakgrunni. Ég held að þessi nánd hafi áhrif á hvernig við skynjum hlaðvarpið sem miðil. Aftur á móti er útvarp í línulegri dagskrá gjarnan haft í bakgrunni og oft hlusta fleiri en einn í einu. Fólk hlustar sjaldnast á útvarp í línulegri dagskrá í heyrnatólum. Ég fæ fleiri tölvupósta út af hlaðvörpunum mínum heldur en útvarpsþáttunum og ég held að það sé vegna þess hvað þau eru persónuleg.

Mynd 1

Mynd 1. Anna ásamt Kristjáni Guðjónssyni, umsjónarmanni Lestarinnar á Rás 1, í stúdíói nr. 6.

Heldurðu að útvarpsfólk nálgist þáttagerð öðruvísi þegar það veit að þættirnir fara inn á hlaðvarp?

Ég held að það hafi ekki áhrif á dagskrárgerðarfólk sem er að gera útvarpsþætti hér hjá RÚV, það hugsar efnið sitt almennt sem útvarpsefni. Mjög lítið af útvarpsefninu hér nýtur mikilla vinsælda í hlaðvarpi.

Vera Illuga hugsaði þættina Í ljósi sögunnar í upphafi ekki sem hlaðvarpsefni. Hún var bara að gera útvarpsþætti, sem síðan vildi svo til að urðu rosa vinsælir í hlaðvarpi. Hún aðlagaði sig ekki sérstaklega að hlaðvarpinu, þættirnir smellpössuðu bara fyrir þennan miðil.

Aftur á móti vinnum við auðvitað efni sem er sérstaklega ætlað fyrir hlaðvarpið öðruvísi. Nú erum við að gera kosningahlaðvarpið X21, sem er samstarfsverkefni milli Rásar 1, Rásar 2 og Fréttastofunnar. Og það er svolítið áhugavert að sá talandi sem tíðkast í hlaðvarpi reynist vera næst Rás 2. Tónninn er afslappaður og hlaðvarpið snýst frekar um samtal en spurningar og svör. Þetta lá mjög vel fyrir Guðmundi Páls af Rás 2, meðan að hin tvö þurftu að færa sig í átt að honum.

Við sáum þetta líka í frábæru hlaðvarpi sem íþróttadeildin gerði, þar sem þau spjölluðu sín á milli meðan á Ólympíuleikunum stóð. Þarna fengu hlustendur að kynnast fréttafólkinu meira sem einstaklingum en formlegum fréttamönnum. Hlustendum leið eins og þeir væru að hanga með þeim. Þetta er ákveðin tegund af hlaðvarpi.

Heldurðu að hlaðvarpið hafi fækkað eða fjölgað útvarpshlustendum?

Ég held að þessi tengsl hafi ekki verið rannsökuð sérstaklega, en hlustun á Rás 1 hefur aukist síðustu ár og ég held að það sé óhætt að tengja það við hlaðvarpið. Fólk er að venjast því að hlusta aftur, frekar en að horfa. Hlaðvarpið sem miðill verður sífellt vinsælli og Rás 1 er eina útvarpsstöðin sem býður upp á mikið af strúktúreruðum þáttum um ákveðið efni. Það er sérstaða Rásar 1.

Svo er annað. Áður fyrr tókst þú ekki útvarpið með þér út í göngutúr, heldur frekar tónlist í vasadiskói. Þá vandist þú því kannski að hlusta á tónlist og leitaðir líka í hana í útvarpinu. En nú er fólk að venjast því að taka skrafið með sér á röltið.

Nú er hlaðvarpið frekar opinn miðill, í þeim skilningi að í raun getur hver sem er búið til hlaðvarp og gefið út. Hvaða sérstöðu hefur RÚV sem framleiðandi hlaðvarpa?

Ég vil að í efni RÚV sé hugað betur að framsetningu en í meðal hlaðvarpi. Það er æðislegt að allir geti verið með hlaðvörp og hvað gróskan er mikil, en fæstir leikmenn hafa tíma til að vinna mikið úr efninu. Það gera fyrst og fremst þeir sem hafa þáttagerð að atvinnu. Ég vil að hlaðvörp Ríkisútvarpsins skeri sig úr að þessu leyti, að við framleiðum vandað efni, vandlega framsett og vel skrifað.

Að einhverju leyti er rétt að hver sem er geti búið til hlaðvarp, en að sumu leyti er þetta ofboðslega sértækur vöðvi. Það er allt annað að skrifa fyrir eyrað en fyrir augað. Þú notar einfaldara mál og þú þarft að hugsa um aðra hluti í skynjuninni. Svo er mikilvægt að velja rétt tónlist, hafa tilfinningu fyrir þögnum og hversu langar þær eiga að vera.

Flestir þeir sem búa til hlaðvörp á Íslandi eru kannski að læra með því að gera og taka löng, ítarleg viðtöl. En það eru færri sem hafa uppgötvað alla möguleikana sem felast í tölvuvinnunni, þ.á.m. klippingunni, og sú vinna tekur langmestan tíma. En hún er líka langskemmtilegust!

Hvernig setjið þið þættina ykkar inn á efnisveitur? Er mikilvægur greinamunur á ólíkum veitum?

Við vinnum öðruvísi með hlaðvarpsveitunum en flestir aðrir, af því að við erum að nota okkar eigin RSS-straum, og nú er ég ekki besta manneskjan til að tala um þessi tæknimál, en við erum með okkar eigið kerfi sem miðlar efninu áfram inn á hlaðvarpsveiturnar. Þannig að við förum ekki í gegnum þriðja aðila á borð við Podtail. Þannig lendir efnið allt að því sjálfkrafa inn á Apple Podcasts og Spotify.

Ég spái því að Apple Podcasts fari sömu leið og iTunes á endanum. Mér finnst metnaðurinn hjá þeim fara minnkandi og framsetningin á hlaðvörpum hefur versnað. Þar fyrir utan virðist Spotify staðráðið í að eigna sér þennan markað. Tölurnar hjá okkur sýna að mun fleiri eru að nota Spotify. Upphaflega sáum við greinilega að tilteknir hópar voru líklegri til að nota Spotify en aðrir. Það var yngra fólk og frekar karlmenn. En núna er kynjamunurinn farinn að jafnast út, þó ég geti ekki fullyrt um að hann sé orðinn alveg jafn. Allir eru að færa sig í átt að Spotify.

Þar að auki er Spotify mikið betra með það að ný hlaðvörp detta strax inn, meðan að hjá Apple Podcasts gat það á tímabili tekið allt að tvær vikur.

Og svo eru auðvitað til aðrar efnisveitur. Við veitum þeim ekki mikla athygli því það eru svo fáir að nota þær, þó að við birtumst á flestum veitum.

Eru einhverjir sérstakir eiginleikar sem vantar í hlaðvarpsveitur og þú vildir óska að þær byggju yfir?

Það sem ég myndi helst vilja breyta er að geta leitað eftir framleiðanda á Spotify og öllum þessum veitum. Ef þú slærð inn „RÚV“ kemur alls ekki upp allt það sem RÚV gerir. Ef þú heyrir hlaðvarp frá einhverjum framleiðanda og vilt heyra meira, verður þú að gúggla framleiðandann og leita síðan að því sem þú finnur á Google í spilaranum.

Eru einhver vandamál sem felast í því að útvarpið „gefi“ efnið sitt inn á efnisveitur?

Í þessu samhengi er mjög áhugavert að skoða hvað nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum eru að gera. Ríksstöðvarnar þeirra eru inni á hlaðvarpsveitunum, en þær eru þar í rauninni nauðugar viljugar. Í Svíþjóð er umsjónarmönnum útvarpsþátta t.d. bannað að tala um að efnið sé á hlaðvarpi í lok dagskrárliða, eins og við gerum alltaf hér á RÚV. Þeir mega bara benda á spilarann á sínum eigin vef. Allar þessar stöðvar eru að vinna í því að búa til sín eigin forrit/spilara/app, svo þau geti hætt að veita þessu efni inn á kerfi eins og Spotify. Og það er heilmikil pólitík í þessu, vegna þess Spotify er að fá frítt efni frá okkur, sem drífur fólk þangað. Ég veit ekki hvort við hjá Ríkisútvarpinu komumst einhvern tímann á þann stað að geta fylgt hinum Norðurlöndunum og haldið öllu efni á okkar eigin forriti.

Á erlendum ríkisfjölmiðlum eins og BBC er stundum hægt að hlaða niður efni. Hafið þið eitthvað skoðað þessi mál?

Við höfum skoðað þetta mikið. Í augnablikinu er nánast allt efni frá RÚV inni á hlaðvarpi. Stundum dettur eitthvað út, þegar upp kemur réttindamál, t.d. út af tilteknu lagi. Við erum kannski búin að borga fyrir að spila lagið í útvarpi, en hlaðvörp eru tæknilega séð í alþjóðlegri dreifingu sem flækir málið lagalega. Þess vegna eru tónlistarþættir á leiðinni út af hlaðvarpinu og við gætum sömuleiðis þurft að klippa niður tónlist í öðrum þáttum. Helsti höfuðverkurinn þegar kemur að hlaðvörpum er tónlist. Þess vegna geta ekki allir útvarpsþættir orðið hlaðvarpsþættir. En allir þættir mega lifa í spilara.

Við sjáum fyrir okkar að fækka þáttum í hlaðvarpi og gera efnið þar hnitmiðaðra. Þá getum við líka kynnt það betur.

Nú situr þú í stýrihópi um hlaðvörp hér hjá Ríkisútvarpinu. Hvað er helst til umræðu í stýrihópnum?

Við vinnum að því að marka stefnu RÚV í þessum málaflokki. Það snýr að gæðum efnisins, hvers kyns efni við viljum sjá og hvað ekki, og framtíðinni almennt. Og það er von um að hlaðvörp fái sérstakan sess innan RÚV, af því að þau eru jú sérstakur fjölmiðill.

Hugmyndin er sú að við framleiðum ekki eingöngu útvarpsþætti sem verða að hlaðvarpsþáttum, heldur líka þætti sem eru fyrst og fremst hugsaðir fyrir hlaðvarp og síðan mögulega aðlagaðir að útvarpi.

Heldur þú að línuleg dagskrá eigi sér framtíð?

Þetta er flókin spurning. Einn mikilvægur þáttur í þessu sambandi er útbúnaður bíla. Bílaframleiðendur eru byrjaðir að fjarlægja útvörpin úr bílunum sínum, en bílar eru náttúrulega ein helsta leið fólks til að nálgast línulega dagskrá. Mér skilst að samtök útvarpsstöðva í Evrópu eigi í miklum samræðum við bílaframleiðendur um það hvernig megi gera línulega dagskrá aðgengilega þrátt fyrir útvarpsleysið í bílunum. Í framtíðinni þarftu mögulega að hlusta á útvarpið gegnum Bluetooth í bílnum þínum. Þetta er eitt af því helsta sem ógnar línulegri dagskrá.

En línuleg dagskrá hefur verið að sækja í sig veðrið bæði í sjónvarpi og í útvarpi, a.m.k. hér á RÚV. Rás 2 hefur sérstaklega verið í sókn, en Rás 1 hefur líka fengið fleiri hlustendur.

Ég held allavega í vonina. Þú manst eftir „Video killed the radio star“? Það gekk ekki eftir. Ég held að á næstu árum muni hlaðvarpið styðja mjög mikið við útvarp. Ég held að með hlaðvarpinu hafi útvarpinu borist rosalegur stuðningur, og hlaðvarpið heldur því vonandi á lífi, verður til þess að fleiri uppgötvi útvarpið. Og kannski kemur einhver retro fílingur í okkur og við nennum bara ekkert að velja alltaf sjálf tónlistina og efnið sem við erum að hlusta á!

Skoðað: 599 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála