Streymisveitur og lagalistar breyta leiknum
Aðgengi að tónlist hefur stóraukist síðustu tvo áratugi með tilkomu internetsins. En líkt og í öðrum greinum afþreyingariðnaðarins hefur það tekið tíma fyrir tónlistariðnaðinn að aðlagast þeim breytingum og sömuleiðis að sjá sóknarfærin. Margir muna eflaust eftir auglýsingunum á DVD myndum með dramatískri tónlist og upptalningu: „Þú myndir ekki stela bíl, þú myndir ekki stela veski, þú myndir ekki stela sjónvarpi…“ Svipaðar herferðir voru í gangi á fyrsta áratug 21. aldarinnar til að vernda tónlistariðnaðinn og báru sennilega jafn lítinn árangur og þessi eftirminnilega auglýsing.
Í dag erum við komin töluvert lengra með að skilja þessa nýju tækni sem er augljóslega komin til að vera. Við höfum lært að vinna með henni í stað þess að streitast á móti. Það sýnir sig alltaf betur og betur að fólk er tilbúið að borga fyrir efni sem það fær á netinu. En það þarf að vera álíka einfalt í notkun og það er að hlaða því niður ólöglega.
Streymi eykst frá ári til árs
Nú þegar við erum komin til ársins 2021 er landslagið gjörbreytt. Tónlistarmenn hafa meiri möguleika á að ná til breiðari hóps á heimsvísu en fyrir tíma hnattvæðingarinnar. Streymi eykst frá ári til árs sem eykur heildartekjur þeirra sem koma að sköpun og útgáfu tónlistar, þótt það mætti að sjálfsögðu vera töluvert hærri upphæð sem endar í vasa tónlistarmannanna sjálfra. Tölur yfir fjölda spilana á lögum eru farnar að gegna sambærilegu hlutverki og til dæmis geisladiskasala hér áður fyrr og staða á vinsældalistum útvarpsstöðva. Það er áhugavert að fylgjast með því að þó nokkrir íslenskir tónlistarmenn hafa náð miklum árangri á streymisveitum, en aldrei komist inn á vinsældalista íslenskra útvarpsstöðva og eru jafnvel óþekktir hér á landi. Telja má líklegt að þessi þróun haldi áfram og streymi á tónlist verði ein helsta leið til að neyta tónlistar, allavega í nánustu framtíð.
Spotify ein stærsta tónlistarveitan
Sænska streymisveitan Spotify var stofnuð árið 2006 og er í dag vinsælasta streymisveitan með yfir 286 milljón hlustendur um allan heim og um 30% allra keyptra áskrifta af tónlistarveitum. Bandaríska Apple Music streymisveitan er næst í röðinni á sama tíma og franska veitan Deezer hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu misserin. Það verður áhugavert að sjá þróunin næstu árin hvort einhver önnur tónlistarveita taki forystu.
Markaðshlutdeild Spotify er samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra hljómplötuútgefanda öllu hærri hér á landi en gengur og gerist en um 100.000 Íslendingar eru með mánaðarlega áskrift sem er ekki ólíklegt að sé heimsmet miðað við höfðatölu.
En hvað veldur því að ein tónlistarveita nær svona mikilli forystu? Ef við byrjum á því að skoða það frá sjónarhorni hlustenda er ýmislegt sem gerir þessa veitu að ákjósanlegum kosti. Notendaviðmótið er fallega hannað, einfaldara og þægilegra en hjá mörgum öðrum tónlistarveitum. Verðið er svipað og á flestum öðrum veitum en áskriftarmöguleikarnir eru fjölbreyttir og henta mörgum. Það hafa án efa margir byrjað á því að vera í ókeypis áskrift gegn því að hlusta á auglýsingar og eins eru góðir pakkar fyrir fjölskyldur og námsmenn. Þökk sé samkeppni hefur tónlistarveitan sent frá sér tilkynningu um von á úrbótum mjög fljótlega þegar kemur að hljóðgæðum. Það er einmitt á því sviði sem Spotify hefur sætt hvað mestu gagnrýninni. En staðreyndin er samt sú að hljóðgæðin eru nógu góð fyrir meginþorra hlustenda. Það þarf yfirleitt að fjárfesta í dýrum hljómflutningsgræjum til að geta heyrt muninn. Þeir sem fara í þann pakka myndu í flestum tilvikum kjósa Tidal. Spotify hefur jafnframt aukið við þjónustuna síðustu ár með því að bjóða uppá hlaðvörp (e.podcasts) en tónlistarveitan hefur fjárfest heilmikið í þeim parti og tekist að taka frammúr öðrum veitum sem eru að bjóða uppá hlaðvörp. Það eykur sannarlega fjölbreytnina fyrir áskrifendur veitunnar að hafa bæði aðgang að tónlist og hlaðvörpum.
Fyrir listamennina sem skapa efnið, tónlistina og hlaðvörpin er sömuleiðis þægilegt viðmót sem mætir manni inná heimasvæði listamannsins (e. artist profile). Þar má nálgast ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar um hvar og hvenær, af hvaða hópum og inná hvaða lagalistum tónlistin hefur verið spiluð. Þannig væri til dæmis auðveldlega hægt að fletta upp spilunum og sjá að eitthvað tiltekið lag hafi fengið tvær spilanir í Hrísey síðasta mánuðinn! Sömuleiðis er mikið af fræðsluefni um hvernig best er að koma tónlistinni á framfæri. Þetta eru mikilvægar upplýsingar fyrir listamenn sem vilja vita hvaða lög eru vinsælust og hvar þeirra aðdáendur eru búsettir. Á Soundcloud og fleiri vefsíðum þarf að borga mánaðargjald fyrir sömu upplýsingar en í dag fá allir tónlistarmenn með lög á Spotify aðgang að upplýsingunum sér að kostnaðarlausu.
Sérstakir lagalistar tónlistarveitunnar
En aðaleinkenni Spotify, og það áhugaverða, sem er farið að hafa mótandi áhrif á það hvernig við nálgumst tónlist og neytum hennar, eru lagalistarnir (e. playlists). Það er engin önnur tónlistarveita með eins öflugt lagalistakerfi, þegar kemur að því að búa til sérhannaða lagalista fyrir hlustendur með aðstoð algóritma (e. algorithm). Sæmi dæmi um lagalista eru „Discover Weekly”, “Release Radar” og “Your top songs” sem er birtur í lok ársins þar sem hlustandinn getur séð nákvæmlega hvaða 100 lög hann spilaði mest síðasta árið. Svo eru aðrir lagalistar eins og “New Music Friday Iceland” sem eru uppfærðir í hverri viku til að fylgjast með nýjustu tónlistaruppgötvunum. Þetta lagalistakerfi virkar vel fyrir hlustendur sem kjósa að fá uppástungur af tónlist sem þeim gæti líkað við og hjálpar einnig listamönnum að ná til rétta hópsins.
Á heimasvæðinu geta listamenn tilkynnt Spotify um útgáfu á nýju lagi og óskað eftir því að það verði tekið til greina að bæta því á sérstaka lagalista fyrirtækisins (e. editorial playlists). Það eru lagalistar sem eru búnir til fyrir ákveðna stemningu. Sem gerir að verkum að það er orðið töluvert algengara að nútíma hlustandinn slái inn ákveðin leitarorð, eins og myllumerki (e. hashtag) til að finna stemninguna sem hann er að leita að, í stað þess að leita að nöfnum vissra listamanna. Vegna þess getur það verið risastórt tækifæri fyrir tónlistamenn að komast inná stóra lagalista tónlistarveitunnar eins og „Peaceful piano”, „Chill hits”, „Rock Classics” og „Songs to sing in the shower”. Það gerir að verkum að þetta er jafnframt eitt af öflugust markaðstólum sem listamenn hafa í dag. Að finna út hvaða lagalista, hvaða stemningu lögin þeirra passa inní og sækjast eftir því að komast inná þá. Þannig til dæmis gæti tónlistarmaður með akústískar poppábreiður fundið tækifæri inná kósý akústískum lagalistum ætluðum fyrir kaffihús, jazzhljóðfæraleikarar geta sett fókusinn á „dinner” lagalista og raftónlistarmenn og rapparar geta beint sjónum að lagalistum sem búa til réttu stemninguna fyrir djammið.
Það er ljóst að hvernig við nálgumst list og afþreyingu getur breyst hratt með nýrri tækni. Margir sakna gömlu góðu tímanna þegar tónlist var eingöngu að finna á geisladiskum og vínylplötum. En með nýjum tímum koma alltaf ný tækifæri og það jákvæða er að það hafa aldrei fleiri í heiminum verið að hlusta á tónlist. Að sjálfsögðu hefur það áhrif að það hafa aldrei fleiri í heiminum haft aðgang að snjallsíma. En því má ekki síst þakka tekjumódeli tónlistarveita, sem hefur að markmiði að gera aðgang að tónlist eins ódýran og hægt er. Markmiðið er að hafa frekar marga hlustendur sem borga lítið heldur en fáa sem borga mikið. Svo breytast hlustendurnir sem voru með fría áskrift í byrjun í stórneytendur sem skilar sér margfalt til allra aðila sem koma að framleiðslu á tónlist.
Tilkoma streymisveita og sérstaklega lagalista er líka stór breyting í átt að því að skapa jafnari tækifæri fyrir alla. Það hversu vinsæll þú ert orðin/nn, af hvaða kyni eða kynþætti þú ert, eða hvort þú hafir útlitið skiptir ekki máli. Það eru einungis gæði tónlistarinnar og hversu vel hún passar við hin lögin á listanum sem skiptir sköpum. En fjölbreytni lagalistanna er mikil svo þetta er í raun allt saman spurning um að finna sinn vettvang. Það má með sanni segja að þetta sé skref í rétta átt. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi heimur heldur áfram að þróast í framtíðinni.
Höfundur: Unnur Sara Eldjárn, tónlistarkona og frumkvöðull
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.