Framtíðin á árunum 1990-2000
Þegar leið á á tíunda áratug síðustu aldar varð netnotkun sífellt vinsælli meðal almennings og einkatölvur urðu algengari á heimilum. Eins og Halldór Kristjánsson, verkfræðingur kemst svo vel að orði í erindi sínu frá árinu 1991 þá varð tölvuþekking „ ..ekki lengur forréttindi fárra heldur fötlun þeirra sem ekki hafa hana.“ Þegar litið var til framtíðar áttuðu margir sig á möguleikum tölvunnar á ýmsum sviðum í lífi okkar. Til dæmis sáu ýmsir fyrir sér hvernig tölvan gæti nýst sem tól til þess að veita kennurum tækifæri til að þróa nýjar námsaðferðir fyrir nemendur. Fólk fór að velta því fyrir sér hvaða áhrif tækninýjungar gætu haft á kennsluhætti í skólum.
Tæknivæddir skólar
Tölvufyrirtækið Apple gerði myndband í byrjum 10.áratugarins sem fjallaði um framtíð tölvu- og hugbúnaðar og spáði fyrir um hvernig hægt væri að beita tækninni í kennslu. Sem dæmi var sýnt hvernig kennari gæti skipulagt námsefnið með ákveðnu forriti á tölvuskjá. Þar hélt kennarinn á tækinu með einni hendi og notaði einhverskonar penna til þess að smella á skjáinn með hinni. Í þessu sama forriti átti kennarinn að geta náð að eiga samræður við samkennara með myndbandsspjalli. Annað dæmi var um hvernig nemendur gætu farið í göngutúr og notað lítið tæki með myndarvél og skjá. Þetta átti að bjóða upp á að sækja allskonar upplýsingar á meðan verið væri að taka myndir úti í náttúrunni ásamt því að nota forrit í tækinu til þess að skipuleggja myndirnar og önnur gögn. Einnig var sýnt hvernig hægt væri svo að kynna verkefni fyrir samnemendum og kennara í skólastofu. Einn nemandinn sat við tölvu og gat birt það sem var á tölvuskjánum á stóru tjaldi fyrir framan allan bekkinn til að sjá. Á þessu tjaldi líka sýnt fram á möguleika myndbandsspjalls þar sem einhver utanaðkomandi aðili gat fylgst með kynningunni þrátt fyrir að vera ekki á staðnum. (Patterson, 2011).
Tölvunarfræðingurinn Marínó G. Njálsson kom með skemmtilega lýsingu á mögulegri framtíð í kennslu í grunnskólum. Hann spáði því að einu námsgögn sem börnin myndu mögulega þurfa fyrir námið yrði þunn mappa sem myndi innihalda marga flata skjái. Hugbúnaðurinn myndi halda utan um öll verkefnin og leiðsögn fyrir hvert efni. Námsefnið yrði sérsniðið að hverjum nemenda t.d. varðandi tungumál. Þar með þyrfti kennarinn með yfirsetuna yfir bekknum ekki að halda hefðbundna kennslu fyrir framan allan bekkinn. Með þessari spá fór Marínó að velta fyrir sér hvernig störf framtíðar gætu breyst vegna tilkomu nýrrar tækni, í þessu tilfelli hvort tæknin myndi taka yfir hlutverk kennara. Einnig tók hann fram að með nýrri tækni myndu ný störf skapast, meðal annars sá hann fyrir sér mikla framtíð í sýndarveruleika (Marínó G. Njálsson, 199).
Sýndarveruleiki og skemmtun
Í erindinu frá árinu 1991 frá Halldóri Kristjánssyni fjallaði hann um að verið væri að þróa tækni sem bjóða upp á þrívíddarreynslu svo sem í gegnum vídeó eða tölvugleraugu (Halldór Kristjánsson, 1992). Hugtakið sýndarveruleiki (e. Virtual reality) varð ansi vinsælt snemma á tíunda áratuginum. Það virðist hafa verið sérstaklega mikill áhugi á sýndarveruleik í tölvuleikjum. Tölvuleikja framleiðandinn Nintendo gaf t.d. út dýr sýndarveruleika gleraugu árið 1995. Árið 1999 kom kvikmyndin „The Matrix“ út sem fjallaði um framtíðar heim þar sem mannfólk lifði ómeðvitað í sýndarveruleika (Poetker, 2013).
Þegar litið er á skemmtanaiðnaðinn í tengsl við tölvutækni þá vildi Halldór meina að líklegast myndi þetta sameinast í framtíðinni á formi fjölmiðlunar (Halldór Kristjánsson, 1992). Áhugavert er að sjá hvernig hugsuðir fyrir 30 árum gátu verið ansi sannspáir um framtíðina.
Samhliða þróun tölva, er ljóst að þær munu renna saman við síma- og sjónvarpstæknina og tölva framtíðarinnar verður eitthvert samspil allra þessara þátta. Leikir, forrit, sjónvarp, sími, videótæki og geislaspilari verða í einu og sama tækinu. Jafnframt þessu mun hin venjulega tölva minnka og breytast og verða hluti af þeim búnaði sem við höfum með okkur hvar sem við erum í sambandi við umheiminn. (Halldór Kristjánsson, 1992, bls. 26)
Mismunandi skoðanir á Internetinu
Ekki höfðu allir rétt fyrir sér varðandi forspá um framtíðina. Í grein sem skrifuð var árið 1995 dró höfundur í efa nytsemi internetsins og gagnrýndi þá aðila sem trúðu sterklega á mikilvægi þess. Honum fannst meðal annars óraunhæft að nemendur myndu læra vel í gegnum tæknivædda kennslu, þar sem hann taldi að ekkert gæti toppað mannleg samskipti milli kennara og nemenda. Hann tók einnig fram að á internetinu gætu allir tjáð sig um hvaða málefni sem er og að erfitt væri að halda utan um allt þetta upplýsingaflæði þar sem gögn væru flest öll óritskoðuð. Þar með fannst honum tóm vitleysa að halda því fram að internetið yrði staður fyrir fjölmiðla framtíðarinnar og sagði eftirfarandi „ The truth is no online database will replace your daily newspaper“. Það vill svo til að fréttaveitan sem þessi grein var skrifuð fyrir færði sig alfarið yfir á stafrænt form árið 2012.
Það er kannski auðvelt að líta til baka og að hlæja af þeim sem höfðu rangt fyrir sér og jafnvel að dæma þá fyrir að vera yfirlætissamir eða þröngsýnir. En það má ekki gleyma að á árunum 1990-2000 var veraldarvefurinn enn mjög nýtt fyrirbæri og ekki nálægt því að vera komið á sama stað og hann er í dag. Það voru ekki allir sem gátu séð handan síns samtíma og áttað sig virkilega á því að internetið ætti eftir að verða miklu meira en bara tól. Í viðtali frá BBC Newsnight sem tekið var við David Bowie árið 1999 var hann spurður af því hvort honum þætti ekki sumar fullyrðingarnar um internetið vera gífurlega ýktar. Við þessu svaraði Bowie:
I don‘t think we‘ve even seen the tip of the iceberg. I think the potential of what the internet is going to do to society, both good and bad, is unimaginable! I think we’re actually on the cusp of something exhilarating and terrifying. (Bowie, 1999)
Nútíminn – tæknin eins og hún er í dag
Ég fæddist í október árið 1999 eða nánast í blálok tuttugustu aldar. Ég get því persónulega ekki gert mér fullkomlega grein fyrir því hvernig heimurinn hefur breyst frá tíunda áratug seinustu aldar. Hins vegar geri ég mér nú betur grein fyrir því hvernig samband manns og tölvu var á þessum tíma. Tæknin var að þróast á miklum hraða sérstaklega þegar ég var að alast upp.
Ég man eftir því þegar ég var lítil að hafa farið með pabba mínum í vídeóleigu þar sem ég valdi mér spólu til að horfa á heima með nammi bland í poka. Ég man svo þegar geisladiskar tóku gjörsamlega yfir, mér þótti það furðuleg breyting. Heima hjá mér var svo ein sameiginleg heimilistölva sem nánast einungis bræður mínir notuðu. Ég skildi ekkert í þessu tæki, ekki fyrr en um árið 2005 þegar ég var heima hjá besta vini mínum, því fjölskylda hans átti einnig heimilistölvu. Einmitt á þessari tölvu kynntist ég internetinu í fyrsta skiptið. Nokkrum árum síðar uppgötvaði ég snjallsíma og á unglingsárunum mínum voru nánast allir í kringum mig á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Instagram.
Ég hef nú þegar upplifað miklar tæknibreytingar í gegnum lífið mitt. Árið núna er 2021, miklar tækni framfarir hafa átt sér stað síðan á tíunda áratuginum, tölvur eru orðar mun öflugri og internetið er nú rótgróið í samfélaginu þar sem hægt er að sækjast í það nánast hvar sem er, hvenær sem er.
Tæknivæddir skólar í dag
Ég á erfitt með að ímynda mér skólakerfið í dag án internetsins. Apple var með mjög ýtarlega lýsingu á sinum tíma á því hvernig tækni framtíðannar gæti litið út. Tæknin sem sýnd var í myndbandinu minnti mig smá á spjaldtölvur (ipad) og jafnvel snjallsíma. Þó útlitið væri ekki mjög smekklegt miðað við kröfur nútímans og ekki beinlínis minnst á síma, þá var samt hugmyndin um litlar tölvur sem hægt væri að taka með sér hvert sem er. Ásamt því voru tækin líka með snertiskjá að einhverju leyti, þó var penni notaður í stað fingranna (sem er reyndar líka tækni sem er til í dag). Framtíðarspáin um að allir nemendur myndu einungis þurfa að hafa möppu með skjám í skólanum er ekki svo fjarri raunveruleikanum. Í mörgum skólum hafa spjaldtölvur verið innleiddar, t.d. hjá litlu frænku minni sem býr í Noregi þar sem spjaldtölvurnar eru mjög mikið notaðar og sama gildir hér á landi.
Í gegnum heimildarleit mína uppgötvaði ég að tiltölulega mikill spenningur var fyrir því að geta spjallað við einhvern í gegnum myndband í rauntíma. Þetta var hins vegar alls ekki einhver glæný framtíðarsýn. Kvikmyndinni Metropolis, sem er gjarnan talin vera fyrsta „scifi“ myndin, kom út árið 1927 og þar er atriði þar sem tveir menn spjalla saman í gegnum síma sem er einnig tengdur við vídeóskjá (Lang 1927).
Einnig kom fram í Apple myndbandinu (sem nefnt var hér að frman) sú hugmynd að geta deilt skjánum sínum og í dag er hægt að deila skjánum sínum og verkefnum með öðrum sem eru fjarri manni. Þessi eiginleiki tækninnar varð afskaplega nytsamlegur í covid-19 heimsfaraldrinum. Ég skil hreinlega ekki hvernig við hefðum tæklað þetta ástand án tækninnar í dag. Fjöldatakmarkanir og sóttvarnareglur urðu til þess að fólk gat ekki lengur mætt í vinnu né skóla. Myndbandsspjallið kom sér einstaklega vel þá. Hvernig hefði skólastarf geta átt sér stað ef ekki fyrir internetið og bættri tækni? Hvað hefði fólk gert ef þessi faraldur hefði geisað á tíunda áratuginum?
Sýndarveruleiki og skemmtun
Draumar fólks frá tíunda áratuginum um að geta stigið almennilega fæti inn í heim sýndarveruleika hefur að miklu leyti ræst. Þó það hafi verið byrjað að þróa sýndarveruleika gleraugu á þessum tíma þá urðu þau ekki mjög aðgengilegri fyrr en nýlega. Mér finnst mjög flott að sjá hvernig hægt er að nota sýndarveruleika í dag til að þjálfa og undirbúa einstaklinga við að takast á við aðstæður í raunveruleikanum. Eitt mjög áhugavert og nýlegt verkefni var þróað af nemendum í HR og gekk út á að skapa sýndarveruleika af dómsal til þess að veita fórnalömbum kynferðisofbeldis tækifæri á að undirbúa sig fyrir réttarhöld (María Sigrún Hilmarsdóttir, 2021).
Mér þykir mjög skemmtileg framtíðarspá á tíunda áratugnum að eitt tæki eigi eftir að sameina svo margt á borð við sjónvarp, afþreyingu, fréttamiðla og fleira. Þetta þykir sjálfsagt í í nútímanum með tilkomu snjallsíma og samfélagsmiðla. En það er einnig hægt að tengja símann við mörg önnur tæki á heimilinu, ekki bara við tölvuna og sjónvarpið. Allt er að verða snjallara og tengdara í kringum okkur. Ísskápar, bakarofnar, gardínur og ljósaperur eru dæmi um það sem hægt er að tæknivæða á heimilinu. Frá því á byrjun tíunda áratugarins var fólk komið með ýmsar vangaveltur um þetta sem mér þykir merkilegt.
Mismunandi skoðanir á Internetinu
Hér vil ég aðeins koma inn á það sem David Bowie sagði um internetið, hann vildi meina að internetið ætti eftir að hafa miklu stærri áhrif á okkur heldur en hægt væri að ímynda sér. Í viðtalinu kom hann einnig inn á það að með internetinu myndu áhorfendur eða neytendur netsins hafa miklu meira vald en áður í tónlist og öðrum miðlum.
Sennilega einn stærsti eiginleiki internetsins er auðvelt aðgengi að upplýsingum ásamt því að hver sem er getur komið skoðun sinni á framfæri. Mér finnst eins og internetið sé stútfullt af skoðunum og ólíkum sjónarhornum einstaklinga. Internetið er svo stórt og inniheldur mörg samfélög innan þess. Þetta hefur margþætt áhrif sem erfitt er að átta sig á til fulls.
Mér finnst David Bowie hafa náð að fanga mikilfengleika internetsins mjög vel. Ég efast um að margir á þessum tíma hafi geta séð fyrir sér hversu mikil áhrif samfélagsmiðlar ættu eftir að hafa á okkur. Ég er ekki einu sinni alveg viss um að framleiðendur fyrstu samfélagsmiðlanna hafi getað séð langtíma áhrifin fyrir sér.
Mínar eigin framtíðarspár um næstu 10-20 árin
Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá finnst mér mjög krefjandi að spá fyrir um framtíðina. Framfarir í tækni hafa vaxið svo hratt á undanförnum árum og ég velti því fyrir mér hvort þær eigi eftir að hægja eitthvað á sér. Eitt sem ég hef ekki komið mikið inn á hér er gervigreind, en ég tel líklegt að gervigreind eigi eftir að spila stóran þátt í okkar daglega lífi í framtíðinni. Við sjáum nú þegar að öll tæki í kringum okkur eru orðin snjallari og það mun kannski verða staðallin hjá öllum heimilum að tæknivæða allt saman. Kannski á líka eftir að verða hægt að gera hluti án þess að snerta skjá eða að tala, er framtíð kannski falin í augnhreyfingum og heilabylgjum? Eitt er víst að ég efast um að framtíðin bjóði upp á fljúgandi bíla, heldur mun frekar sjálfkeyrandi bíla.
Þegar kemur að samfélagsmiðlum og neyslu okkar á þeim þá held ég að það verði vitundarvakning varðandi skaðleg áhrif þeirra á einstaklinga. Þetta er nú þegar mikið í umræðunni, en þegar litið er á heildarsamhengið þá er ekki langt síðan samfélagsmiðlar komu inn á sjónarsviðið. Ég tilheyri sennilega fyrstu kynslóðinni sem man ekki almennilega eftir heimi án internets og kynslóðirnar á eftir mér eiga líklegast ekki eftir að muna eftir heimi án samfélagsmiðla. Næstu áratugir eiga sennilega eftir að leiða í ljós hvaða áhrif þetta á eftir að hafa á samfélagið sem heild. Ég vona að þegar þessar kynslóðir vaxa úr grasi að meiri áhersla verði lögð á að fræða almenning, þá sérstaklega ungt fólk og börn, um notkun á síma og samfélagsmiðlum. Mér finnst Bo Burnham hafa útskýrt flottan máta í viðtali þar sem hann sagði lýsti þeim afleiðingum sem samfélagsmiðla gætu haft á okkur.
Taking inventory of your life. Being a viewer to your own life. Living an experience but at the same time hovering behind yourself and watching yourself live that experience. Being nostalgic for moments that have not happened yet. Planning your future to look back on it. These are really weird, strange, disassociated things that I think are new because of the specific structure of social media and the way it sort of dissociates ourselves from ourselves. (Burnham, 2018)
Lokaorð
Það kom mér í raun á óvart að sjá hversu margar vangaveltur um framtíðina frá tímabilinu 1990-2000 rættust á einn eða annan hátt. Veraldarvefurinn var enn svo ungur og spennandi og fólk sá mikla möguleika meðal annars í tækni í skólum og sýndarveruleika en fólk var með mismunandi skoðanir á internetinu og ekki gátu allir áttað sig á mikilvægi þess á framtíðina. Það helsta sem ég efaðist um að fólk á þessu tímabili gat séð fyrir voru áhrif samfélagsmiðla á daglegt líf fólks. Það er erfitt að spá fyrir um framtíðina, en ég vona að hún sé björt. Ég velti því fyrir mér hvort kannski bjóði framtíðin upp á eitthvað sem ég get ómögulega séð fyrir mér í dag. Ætli við þurfum ekki bara að bíða og sjá.
Höfundur: Svava Ósk Árnadóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimildaskrá
Andrews, E. (2019). Who Invented the Internet. History. https://www.history.com/news/who-invented-the-internet
Bowie, D. (viðmælandi). (1999). David Bowie speaks to Jeremy Paxman on BBC Newsnight (1999)(Jeremy Paxman tók viðtalið) [myndbandsviðtal]. Netrásinni BBC Newsnight hlóð upp myndbandið, 11. janúar 2018, https://www.youtube.com/watch?v=FiK7s_0tGsg
Burnham, B. (viðmælandi). (2018). Bo Burnham Examines Social Media (Sam Jones tók viðtalið) [mynbandsviðtal]. Netrásinni theoffcamerashow hlóð upp myndbandið, 16.Nóvember 2018, https://www.youtube.com/watch?v=_XHRJJe2Kl0
Halldór Kristjánsson (1992). Gluggað í framtíð í ljósi fortíðar. Tölvumál, 1.tölublað, bls.26-27
Lang F. (1927). Metropolis [kvikmynd]. Þýskaland: Universum Film
María Sigrún Hilmarsdóttir (2021). Sýndarveruleikaréttarsalur prófaður. RÚV. https://www.ruv.is/frett/2021/02/21/syndarveruleikarettarsalur-profadur
Marínó G. Njálsson (1995). Skemmtikennsla/skemmtiþekking. Tölvumál, 1.tölublað, bls. 30-31.
Patterson B. (2011, 13, 03). Apple's Future Computer: The Knowledge Navigator [myndskeið]. https://www.youtube.com/watch?v=9bjve67p33E
Poetker, B. (2013). The Very Real History of Virtual Reality (+A Look Ahead). G2. https://www.g2.com/articles/history-of-virtual-reality
Stoll, C. (1995). Why the Web Won’t Be Nirvana. Newsweek. https://www.newsweek.com/clifford-stoll-why-web-wont-be-nirvana-185306
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.