Skip to main content
15. apríl 2021

Á hraðri leið inn í framtíðina

AndriHeidarKristinsson 806A3822Við þekkjum það líklega öll á eigin skinni að hafa beðið alltof lengi í biðröð eftir afgreiðslu hjá opinberri stofnun, eða þurft að prenta út einfalda pappírsumsókn og keyra þvert yfir bæinn til að koma umsókninni til skila á réttan stað í kerfinu. Það er ótrúlega pirrandi hversu mörg dæmi eru um óskilvirka og tímafreka opinbera þjónustu, sem manni virðist oft á tíðum frekar snúast um kerfið sjálft heldur en að bjóða góða þjónustu við almenning. Í stað þess að senda fólk í erindisleysu með pappír á milli stofnana liggur í augum uppi að betra væri að senda gögn með stafrænum hætti á milli stofnana.

Fyrsta skrefið í því að bæta þjónustu hins opinbera, og þar með tiltrú almennings á kerfinu, er að geta talað um þessi mál á mannamáli og segja hlutina eins og þeir eru – þjónusta allt of margra stofnana er í dag hreinlega ekki boðleg. Næsta skref er að taka til hendinni og stórauka stafræna þjónustu hins opinbera.

Ísland hefur alla burði til að komast í hóp fremstu þjóða í heiminum þegar kemur að stafrænni þjónustu ríkisins og hafa stjórnvöld nú sett verulega aukinn skriðþunga í verkefni Stafræns Íslands, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Stafrænt Ísland vinnur þvert á ráðuneyti og stofnanir ríkisins í að innleiða stafræna ferla og lausnir til að einfalda líf allra sem hér búa.

Samnýtanlegar lausnir og stafrænir innviðir

Þegar horft er yfir sviðið á hugbúnaðarþróun og innkaup hins opinbera undanfarin ár má bersýnilega sjá að hægt er að nýta opinbert fé mun betur.  Alltof lítil samnýting hefur verið á hugbúnaði hjá hinu opinbera og eru stofnanir oft á tíðum hver um sig að þróa eða kaupa sambærilegan hugbúnað hver í sínu horni. Lykilþáttur í að breyta þessu og fara betur með skattpeninga okkar allra er að samnýta hugbúnað þar sem slíkt er mögulegt. Þannig er það eitt mikilvægasta verkefni Stafræns Íslands að þróa sameiginlegar lausnir á borð við sameiginlegt innskráningar- og umboðskerfi, öruggt gagnaflutningslag á milli stofnanna og ýmsar fleiri sameiginlegar þjónustur.

Kóði Ísland.is öllum opinn

Stórt skref í stefnu stjórnvalda um opinn og frjálsan hugbúnað var tekið nýlega þegar kóði Ísland.is var gefinn út með MIT leyfi (Open Source License). Þessi þróun er í takti við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur t.a.m. Eistlandi, Finnlandi og Bretlandi. Þetta er mikilvægt skref í því að gera öllum kleift að nýta sér lausnir hins opinbera og byggja virðisaukandi lausnir ofan á þann hugbúnað sem ríkið hefur þróað og að hann nýtist sem flestum. Markmiðið er að auka aðgengi almennings og fyrirtækja að opnum gögnum, kóða og vefþjónustum, auka gagnsæi og örva nýsköpun. Heilt yfir mun þessi þróun auka gagnsæi, öryggi og tryggja betri meðferð á almannafé, en notendur opins hugbúnaðar hafa frelsi til þess að nota, kynna sér, aðlaga, dreifa og bæta hugbúnaðinn.

Nánar skilgreint þá telst hugbúnaður vera frjáls ef notendur hans hafa eftirfarandi fjórar tegundir frelsis:

  1. Frelsi til að nota hugbúnaðinn á þann hátt sem notandinn sjálfur kýs.
  2. Frelsi til að kynna sér hugbúnaðinn og aðlaga hann að sínum þörfum.
  3. Frelsi til að dreifa hugbúnaðinum til þess að hjálpa náunganum.
  4. Frelsi til að bæta hugbúnaðinn og dreifa breytingunum svo að samfélagið njóti góðs af þeim.

Straumurinn (e. X-Road) er ný hraðbraut upplýsinga
Eistland er af mörgum talin sú þjóð sem hefur á skemmstum tíma náð lengst í stafrænni þjónustu hins opinbera. Sem dæmi má nefna að fólki utan Eistlands býðst að sækja um „stafrænt dvalarleyfi“ (e-residency) til að mynda til að stofna fyrirtæki í Eistlandi og nýta sér alla stafræna þjónustu sem þar er í boði. Í samvinnu við Finna þróuðu Eistar einnig öruggt upplýsinganet til að stofnanir hins opinbera gætu sent gögn sín á milli á öruggan og staðlaðan hátt með persónuvernd í fyrirrúmi. Hugbúnaðurinn nefnist Straumurinn eða X-Road og er þróaður sem opinn og frjáls hugbúnaður (https://www.niis.org/). Ísland hefur nú einnig tekið að innleiða Strauminn og eru fyrstu stofnanir hins opinbera nú þegar byrjaðar að tengjast. Má gera ráð fyrir að strax á næsta ári munum við byrja að sjá umtalsverðan ávinning af þessari uppbyggingu.

Rafrænar þinglýsingar, fæðingarorlof og vegabréf
Það má með sanni segja að af mörgu sé að taka í verkefnum framundan hjá Stafrænu Íslandi í góðu samstarfi við fjölmargar stofnanir. Sem dæmi má nefna að nú er vinna í fullum gangi við innleiðingu á rafrænum þinglýsingum sem mun fela í sér gríðarlegt hagræði fyrir þjóðfélagið allt. Þá má nefna stafrænar umsóknir um fæðingarorlof, vegabréf og aragrúa af öðrum umsóknum og leyfisveitingum hjá hinu opinbera. Smám saman munum við í sameiningu komast nær því að útrýma pappír og biðröðum í samskiptum við hið opinbera – við munum komast beint að efninu á vefnum Ísland.is

Höfundur: Andri Heiðar Kristinsson, Stafrænt Ísland

 

Skoðað: 534 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála