Lof mér að Googla það fyrir þig
Við könnumst flest við einhvern sem veit ótrúlega margt um ótrúlegustu hluti. Hvort sem það tengist nýjustu símunum eða hvaða vefsíðum sé treystandi þá virðast þessar manneskjur vera ótæmandi viskubrunnar. Þetta eru aðilarnir sem kunningjar og fjölskylda leita oft til þegar kemur að hinum ýmsu vandamálum því sama hver spurningin er, þá virðist manneskjan hafa svar á reiðum höndum. Það sem stór hluti af þessum einstaklingum virðast eiga sameiginlegt er þó ekki að hafa fæðst með alfræðiorðabækur í höndunum heldur að hafa þróað með sér hæfileikann til að nýta sér leitarvélar á mjög skilvirkan hátt.
Að nýta sér leitarvélar er ákveðinn hæfileiki sem hægt er að tileinka sér og það sést á hinum ýmsu leiðbeiningum og leiðarvísum sem eru í boði á veraldarvefnum að þetta er hæfileiki sem margir sækjast í að æfa (Tech Republic, 2011; GFC Global, án dags).
Það er áberandi að fólk leiti frekar á samfélagsmiðla eins og Facebook eða Twitter til að fá svör við spurningum sem einföld leit myndi svara á innan við 10 sekúndum. Þessi hegðun ól af sér hið kaldhæðna svar „Let me Google that for you“ með tilheyrandi vefsíðu (http://letmegooglethat.com). Notandi slær þar inn leitarstreng og sendir hlekk á upphaflega spyrjandann þar sem vefsíðan sýnir nákvæmlega hvað notandinn sló inn til þess að leita, og flytur spyrjandann síðan yfir á leitarniðurstöðurnar. Þessi vefsíða er aðallega notuð í góðu gríni milli vina eða fjölskyldu þegar spurt er að hlutum sem auðvelt er að finna svör við á veraldarvefnum en margir virðast frekar hallast í þá átt að leita sér upplýsinga hjá kunningjum en hjá sérhæfðum vefsvæðum sem gætu gefið nákvæmari svör.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu fyrirbæri þar sem niðurstöðurnar virðast benda til þess að notendur telji almennt að þeir fái betri og fljótlegri niðurstöður í gegnum leitarvélar en á samfélagsmiðlum, en að þeir myndu frekar treysta niðurstöðunum frá sínu eigin vinaneti á samfélagsmiðlum en nafnlausum niðurstöðum hjá leitarvélum (Meredith Ringel Morris, 2010). Hvort sem það tengist því að kunnáttan til að nýta leitarvélar almennilega sé ekki til staðar eða hvort að hlutdrægni leitarvélarinnar valdi því að niðurstöður séu ekki frá áreiðanlegum heimildum (Tech Republic, 2013) er persónubundið. Hvort heldur sem er, þá er niðurstaðan sú sama; margir treysta leitarvélum ekki nógu vel til að nýta sér þær. Þá treysta margir heldur á samfélagsmiðla eða gömlu góðu „hringja í vin“ aðferðina.
Hér er þá ekki átt við að það sé ekki gott og gilt að nýta sér þekkingu annarra sér til aðstoðar. Það er þó óneitanlega mjög gagnlegur hæfileiki að tileinka sér; að nýta sér auðlindir internetsins til að bjarga sér sjálfur. Þetta er hæfileiki sem mikil áhersla er lögð á í háskólanámi nú til dags. Nemendur þurfa að læra að leita sér upplýsinga sjálfir og notast við gagnrýna hugsun til að ákvarða hvort niðurstöðum sé treystandi eða ekki. Hér er þá átt við að vefsíður og leitarvélar geta verið að skila notanda niðurstöðum sem samræmast mjög svo fótsporum viðkomandi á internetinu (notendamiðaðar niðurstöður).
Netrisinn Google er gott dæmi um hugbúnaðarfyrirtæki sem safnar upplýsingum um internethegðun notenda sinna og skilar þanning sérsniðnum niðurstöðum fyrir hvern og einn (Cnet, 2020). Þetta þýðir að notandi getur endað í einskonar bergmálshelli (e. echo chamber) þar sem niðurstöður endurspegla álit hvers og eins en ekki staðreyndir (Cnet, 2004). Fyrir fólk sem gerir sér grein fyrir vanköntum Google þá eru leitarvélar á borð við Duck Duck Go sem geyma ekki upplýsingar notenda heldur vanda sig við að sýna öllum notendum sömu leitarniðurstöðurnar (Digital Citizen, 2017).
Það að geta nýtt sér leitarvélar á skilvirkan hátt er því kannski ekki jafn einfalt og það hljómar. Kunnáttan snýst ekki bara um það að strengja orð saman til að mynda almennilegan leitarstreng, heldur einnig að geta vaðið í gegnum ógrynni af upplýsingum og valið áreiðanlegar niðurstöður. Einnig þarf notandi að gera sér grein fyrir sínum eigin notendamynstrum og hlutdrægni þegar niðurstöður eru skoðaðar.
Eðlilegast væri að leggja mikla áherslu á þennan hæfileika strax í grunnskólum, þar sem tækninni fleytir fram á hverju ári og yngri kynslóðirnar munu verða enn meira samvafnari tækninni en eldri kynslóðirnar hafa verið hingað til. Hinsvegar ætti líka að leggja meira upp úr því að kenna eldri kynslóðum á þessa tækni, þá sérstaklega þeim sem ólust upp áður en internetið var jafn útbreitt og það er í dag. Góð þekking á leitarvélar getur breytt mjög miklu hvað varðar sjálfbjargarviðleitni og frumkvæði einstaklinga sem annars væru háðir öðrum sér til aðstoðar.
Höfundur: Eva Ösp Björnsdóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimildir
Cnet. (2004). Sótt frá https://www.cnet.com/news/google-takes-searching-personally/
Cnet. (2020). Sótt frá https://www.cnet.com/how-to/google-collects-a-frightening-amount-of-data-about-you-you-can-find-and-delete-it-now/
Digital Citizen. (2017). Sótt frá https://www.digitalcitizen.life/what-is-duckduckgo GFC Global. (án dags.). Sótt frá https://edu.gcfglobal.org/en/internetbasics/using-search-engines/1/
Meredith Ringel Morris, J. T. (2010). A Comparison of Information Seeking Using Search Engines and Social Networks.
Tech Republic. (2011). Sótt frá https://www.techrepublic.com/blog/10-things/10-tips-for-smarter-more-efficient-internet-searching/
Tech Republic. (2013). Sótt frá https://www.techrepublic.com/blog/it-security/search-engine-bias-what-search-results-are-telling-you-and-what-theyre-not/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.