Nýtt norrænt aðgengis manifestó?
Þessi misseri er mikil gróska í aðgengismálum á vefnum. Hluti skýringarinnar er þróun löggjafar á Evrópska efnahagssvæðinu sem gerir kröfu um að vefsvæði í framtíðinni fylgi aðgengisstöðlum. Hluti skýringarinnar er líka að internetið er að einhverju leyti að verða fullorðið. Almennt er verið að leita eftir stöðlum og viðmiðum sem tryggja örugga þjónustu og jafnari samkeppni.
Nú þegar hafa verið sett lög innan ESB um að öll stafræn þjónusta á vegum hins opinbera fylgi WCAG staðli. Sú löggjöf verður með tímanum innleidd á EES svæðinu og í kjölfarið er von á samskonar löggjöf varðandi einkageirann. Þessi löggjöf mun því ná til Íslands og mun hafa áhrif á alla sem vilja starfa innan evrópska efnahagssvæðisins. Sambærileg löggjöf hefur verið til staðar frá 1990 í Bandaríkjunum og gildir um alla sem vilja starfa á markaði þar.
Þannig ganga stjórnvöld og hagsmunasamtök fatlaðra hönd í hönd og afleiðingin er nýr markaður fyrir góðar aðgengislausnir sem fer ört vaxandi. Þau fyrirtæki sem geta sinnt þessum kröfum eða hafa hannað sértæk tól á borð við Siteimprove eru því í lykilstöðu.
Ég tala fyrir hönd blindra og sjónskertra, sem er fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir. Í heiminum er talið að um 1.3 milljarðar manna glími við einhverskonar sjónskerðingu. Þessi hópur á svo ýmislegt sameiginlegt með hópi lesblinda sem hér á landi telur um 20.000 manns en blindir og sjónskertir eru um 1700. Við lifum lengur og eru því fleiri og fleiri sem takast á við þá sjónskerðingu sem fylgir öldrun. Við það bætist hröð tækniþróun í átt að raddstýringu og snertilausum samskiptum sem aftur kallar á sömu aðgengiskröfur og gilda fyrir til að mynda skjálestur eða annan stoðbúnað. Það er því mögulega mjög stór hópur fólks sem nýtur góðs af góðu aðgengi að vefnum.
Það er mikilvægt að taka fram að aðgengi fyrir blinda og sjónskerta af veflausnum er sjálfsögð og réttmæt krafa. Blindir og sjónskertir eiga rétt á því að njóta mannréttinda til jafns við aðra og þar með talið að geta notað þær þjónustur sem bjóðast á vefnum. Þetta er forsendan fyrir öðrum réttindum, líkt og réttinum til aðgengis að vinnumarkaði, ferðafrelsi og lífshamingju.
Stafrænt umhverfi hefur þann kost fram yfir raunheima að þar er hægt að mæta þörfum hvers og eins notenda og þar með yfirstíga þá fötlun sem hamlar fólki dags daglega. Ef farið er rétt að þá geta blindir og sjónskertir notað stafrænar lausnir til jafns við ófatlaða einstaklinga. Og þar með átt jöfn tækifæri á að taka virkan þátt í samfélaginu. Þetta tækifæri til jöfnunar hefur hins vegar hingað til farið forgörðum, í hraðri þróun vefsins gleymdist þessi hópur einfaldlega. Afleiðingin er markaðstækifæri fyrir þá sem kunna á aðgengi til þess að bjóða fram aðstoð við að lagfæra óaðgengileg vefsvæði, þjónusta sem er oft tíma og kostnaðarsöm og nær aldrei alveg þeim árangri sem næst ef aðgengið er hluti að grunnhugsun frá upphafi.
Við þurfum að bregðast við til þess að snúa þessari þróun og til þess að gera aðgengismál að sjálfsögðum hluta af hönnunarferlinu. Í því samhengi er mikilvægt að skilja að aðgengiskröfur líkt og flestar aðrar slíkar kröfur hafa ritstjórnarlegt gildi þ.e.a.s. það að nota ströng viðmið við hönnun takmarki ekki sköpun eða fagurfræði heldur veitir þeim þvert á móti vængi. Þetta sjáum við skýrt í norrænu Dogme stefnunni þar sem menn settu sér strangar reglur í kvikmyndagerð og úr varð mesta gróskuskeið danskra kvikmynda frá upphafi. Þessi hugmynd um að setja sér skýr tæknileg viðmið hefur svo smitast inn í aðrar listgreinar og upp hefur sprottið nýr norrænn arkitektúr, ný norræn hönnun og ný norræn matargerð. Allt hefur þetta svo aftur haft áhrif á vöxt og umsvif í þeim löndum sem átt hafa í hlut. Forsendan var að menn settu sér einfaldar, skýrar og tæknilegar kröfur.
Aðgengisstaðlar í vefhönnun geta verið hluti af slíkri hönnunarbyltingu, en það krefst þess að framsæknir hönnuðir setji sér slíka stefnu og vinni miskunnarlaust á grundvelli hennar. Þessi pistill er því í raun ákall til vefhönnuða um að þeir búi til slíka stefnuyfirlýsingu.
Viðmiðin verða að koma frá hönnuðum, ekki frá stjórnvöldum eða notendum, því það eru hönnuðir sem búa yfir þeirri þekkingu og listrænu sýn sem getur gert það að verkum að allar þær mismunandi kröfur sem gerðar eru til veflausna verði að heilsteyptri hugmynd öllum til gagns og yndisauka.
Höfundur: Rósa María Hjörvar, aðgengisfulltrúi, Blindrafélagið
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.