Skip to main content
18. október 2018

Er skurðlæknirinn þinn vélmenni?

ElisabetTækniþróun í skurðlækningum er eflaust ekki eitthvað sem hinn hefðbundi maður veltir almennt fyrir sér. Það gæti því komið á óvart að helstu tækninýjungar á þessu sviði eru í dag metin á $4 billjón árstekjur á heimsvísu og áætlað er að nái $20 billjón fyrir árið 2025 [1]. Skurðaðgerðavélmenni eða aðgerðarþjarki (e. surgical robot system) hefur verið í þróun í meira en 2 áratugi í þeim tilgangi að betrumbæta kviðsjáraðgerðir (e. laparascopic surgery) [2].

Árið 2017 voru 4.400 aðgerðarþjarkar víðsvegar að í heiminum búnir að framkvæma yfir 5 milljónir skurðaðgerða [3]. Þeirra á meðal er Ísland, en Landspítalinn festi kaup á aðgerðarþjarki árið 2014 og strax í ársbyrjun 2015 höfðu verið gerðar 180 skurðaðgerðir með búnaðinum [4]. Árið 2000 kom á markað fyrsta kynslóð af aðgerðaþjarkinum, da Vinci, frá framleiðandanum Intuitive Surgical, sem hefur yfirgnæft markaðinn hingað til [2]. Da Vinci þjarkinn er hannaður með það að leiðarljósi að hjálpa skurðlæknum að framkvæma kviðsjárskurðaðgerðir með því að beita verkfærum sínum á skilvirkari máta. Da Vinci hefur fjóra arma, þrír af þeim halda á örsmáum skurðáhöldum og einn heldur á myndavél. Þessum verkfærum stýrir skurðlæknirinn sitjandi við stjórnborð með stýristöng og fótstigi við skjá sem sýnir stækkaða raunmynd í þrívídd og háskerpu af aðgerðarsvæði sjúklingsins. Það gerir skurðlækninum kleift að framkvæma skurðaðgerð með aukinni sýn og af mun meiri stjórn og nákvæmni [3].

Búnaðurinn nýtist í fjölmargar aðgerðir en þó helst í þvagfæraskurðlækningum og öðrum aðgerðum á grindarholi.  Með þessu fyrirkomlagi eru einungis gerðir örsmáir skurðir þar sem áhöldin eru stungin inn sem hefur í för með sér mun minni áhættu og styttir bataferlið til muna [3]. Intuitive Surgical hefur verið ríkjandi á markaðnum nú til þessa en í kjölfar þess að einkaleyfi fyrirtækisins eru að renna út ásamt stöðugri þróun í rafbúnaði má búast við miklum breytingum á markaðnum á næstu árum. Þrjú ný sprotafyrirtæki hafa verið að vinna að nýjum og öðruvísi aðgerðarþjörkum og strax á næsti ári mun einn þeirra koma á markað [3].

Árið 2014 hófst þróun á helsta samkeppnisbúnaði Da Vinci, Versius. Versius aðgerðarþjarki er framleiddur af Cambrigde Medical Robots (CMR) í Bretlandi og er hannaður með önnur markmið í huga en da Vinci þjarkinn. Versius er næsta kynslóð skurðaðgerðaþjarka og er mun fjölhæfari, viðráðanlegri og auðveldari í notkun [5]. CMR hefur það að leiðarljósi að gera minniháttar skurðaðgerðir aðgengilegar öllum þeim sem á þurfa að halda með því að yfirstíga núverandi hindranir, þar á meðal stærð, kostnað og margslungni núverandi aðgerðaþjarka [6]. Versius notar fimm sjálfstæða skurðaðgerða arma sem hver er færanleg eining. Hver armur hefur alla vitneskju og skynjun sem þarf til þess að hreyfa sig í samræmi við skipanir skurðlæknisins og bregst einnig við snertingu aðstoðarmanna [3]. Versius er léttur, meðfærilegur og flytjanlegur búnaður enn í samanburði við Da Vinci sem vegur 800 kg. vegur hver armur Versius undir 15 kg. eða um 75 kg allur búnaðurinn í heild sinni [5].

Að hanna Versius í einingum gerir skurðlæknum kleift að raða örmunum hvernig sem hentar best fyrir mismunandi aðgerðir sem og fjarlægja þá arma sem ekki er þörf á. Þar að auki er auðveldlega hægt að færa búnaðinn milli skurðstofa og þannig hámarka nýtingu þess [3]. Armanir á Versius eru byggðir upp eins og handleggur á manninum, þeir hafa þrjá liði samsvarandi öxl, olnboga og úlnið. Þannig getur skurðlæknirinn notað hreyfingar og unnið frá þeim sjónarhornum sem hann er nú þegar vanur að vinna við [3].  Da Vinci búnaðurinn kostar $2 milljónir og þar að auki má reikna með $170.000 í árlegum viðhaldskostnað [3]. Þess má geta að Landspítalinn greiddi 300 milljónir íslenskra króna fyrir búnaðinn árið 2014 [4]. Versius mun hins vegar bjóða fram þeirra búnað sem þjónustu, innifalið í henni er aðgerðarþjarkinn, öll verkfæri og viðhald sem hluti af þjónustusamning með föstum kostnaði á ársgrundvelli [5]. Gera má ráð fyrir því að Versius mun koma inn sem sterkur keppinautur í samkeppni við Da Vinci en hvað eru aðrir samkeppnisaðilar að gera?

CMR ásamt Auris Health og Medical Microinstruments eru öll ný sprotafyrirtæki sem hefja inngöngu á markaðinn öll með mismunandi aðgerðaþjarka [3]. Auris Health er að hanna aðgerðarþjarkinn the Monarch Platform en það notar „endoscope“ búnað sem notar örsmáar myndavélar og áhöld í aðgerðum þar sem farið er inn um munn sjúklingsins. The Monarch Platform er ætlað til greiningu og lækninga á lungna og berkjusjúkdómum [7]. Medical Microinstruments hefur hannað vélfærin úlnliðsáhöld fyrir lýtalækna-smásjáraðgerðir (e.reconstructive microsurgery), þar sem skurðlæknir lagar skemmda slagæð og taugar undir smásjár. En slíkt tæki hefur uppá að bjóða annars konar aðgerðir að auki, til dæmis aðgerðir á smábörnum [3].

Mikil og hröð þróun hefur átt sér stað á sviði læknabúnaðar og forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig áframhaldandi þróun verður nú þegar enn fleiri fyrirtæki koma inn á þennan ört stækkandi og arðbæra markað.

Höfundur: Elísabet Hilmarsdóttir 3. árs nemi í Viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík

Heimildir

[1] „ Verdict Medical Device“, 4. september. 2018. [Rafrænt]. Af: https://www.medicaldevice-network.com/news/surgical-robotic-system-versius/ Sótt: 16. September 2018. [2] „ About Intuitive“, e.d. [Rafrænt]. Af: https://www.intuitive.com/about-us/company Sótt: 16. september 2018. [3] „ New surgical robots are about to enter the operating theatre“, 16. nóvember 2017. [Rafrænt]. Af https://www.economist.com/science-and-technology/2017/11/16/new-surgical-robots-are-about-to-enter-the-operating-theatre Sótt: 17. September 2018. [4] Þröstur Haraldsson, „Þjarkinn ann sér ekki hvíldar“, Læknablaðið, 102. árg. 2016, 09 tbl. [Rafrænt]. Af: http://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/09/nr/6003  Sótt: 17. September 2018. [5] A.Ferng, „Meet Versius, Cambridge Medical Robotics’ Portable and Cost Effective Robot for Minimal Access Surgery“, 28. nóvember. 2018. [Rafrænt]. Af: https://www.medgadget.com/2017/11/cambridge-medical-robotics-minimal-access-surgery-versius.html Sótt: 17. September 2018. [6] „Versius surgical robot system“, e.d. [Rafrænt]. Af: https://cmrsurgical.com/versius/ Sótt: 17. September 2018.

[7] „Monarch Endoscopy Transformed“, e.d. [Rafrænt]. Af: https://www.aurishealth.com/monarch-platform

Skoðað: 1333 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála