Upplýsingatækni í skólum
Ég fann það þegar ég byrjaði í háskólanámi eftir langt hlé að það tók mig dálitinn tíma að byrja að tileinka mér notkun á allri þessari upplýsingatækni sem nú er í boði. Ég kom úr umhverfi þar sem mesta tækninýjungin var hálfsjálfvirk ritvél. En ef ekki væri fyrir upplýsingatækni í skólum, þá væri ég ekki í námi við Háskólann í Reykjavík að læra tölvunarfræði. Ég er í 100% vinnu á daginn og get því ekki nýtt mér að mæta í skólann á þeim tíma. Þess vegna kemur upplýsingatækni í skólum sér mjög vel fyrir mig.
Ég get horft á fyrirlestra eftir vinnu á daginn á þeim hraða sem mér hentar og tekið pásur ef ég þarf þess. Og það besta er að ef ég þarf að fara betur í eitthvað efni þá get ég spilað það aftur og aftur. Ég get sótt verkefnalýsingar af kennslukefir skólans Canvas og skilað verkefnum fullunnum inn í gegnum vefinní sama kerfi. Og þá kemur snjallsíminn oft að góðum notum ef ég þarf að skanna verkefnin til að skila þeim. Oftast þarf ég þó ekki að skanna verkefnin inn því það eru til alls kyns forrit til þess að vinna í tölvum það sem var aðeins hægt að vinna í höndum og á blaði þegar ég var í framhaldsskóla. Þar má t.d. nefna Excel sem ég nota mikið, Notapad++, ShareLaTex sem er online LaTeX editor, Creatly þar sem ég get teiknað ýmis skemu og aðrar skýringarmyndir o.fl.
Þegar ég vinn í hóp með öðrum, þá er sama hvar þeir eru staddir. Ég get nálgast þá í gegnum tölvupóst, Facebook, Google Hangout o.s.frv., og við getum unnið verkefnin okkar saman í gegnum margvísleg tól, svo sem Google Docs þar sem við getum deilt t.d. Excel og Wordskjölum og unnið í þeim samtímis, Bitbucket og GitHub og fleiri tól þar sem hægt er að vinna með sömu gögn á sama tíma. Í GitHub og Bitbucket getum við m.a. unnið saman með sama kóða og þar getum við líka tekið greinar af kóða til okkar og sameinað hann svo aftur þegar við erum búin að breyta honum. Pastebin er líka online vefur þar sem við getum deilt kóða og valið útlitið á honum eftir því hvort við erum að nota C++, Java o.s.frv. Gúgul er þó líklega það allra snjallasta, því ef maður kann tungumálið sem þar er notað, þá hefur maður aðgang að öllu.
Ég hef gaman að því að finna tól til að vinna ýmsa handavinnu fyrir mig. Þar má m.a. nefna smáforrit sem ég man ekki lengur hvað heitir, en það var til þess að kroppa texta af skjá svo hægt væri að breyta honum í word. Og einhvern tímann þurfti ég að framkvæma fullmarga músasmelli og þá fann ég Auto Mouse Mover sem er lítið forrit sem sér um smellina fyrir mig á meðan ég fæ mér kaffi. Þetta litla tól hefur svo seinna reynst mér vel í vinnu.
Í fyrra átti ég að gera glærukynningu og þar sem ég var fjarnemi, þá þurfti ég að koma þessu frá mér á glærum og með tali. Ég hef lítið notað Power Point, en þarna sá ég hvað það var frábært. Ég bjó til Power Point glærur og svo bauð forritið mér upp á að tala inn á þær. Ég skilaði þessu Power Point skjali svo inn á skólavefinn og kennarinn sótti það þar og gat spilað glærurnar með tali. Þetta fannst mér ótrúlega flott. Eflaust þekkja þetta margir, en þetta var splunkuný uppgötvun hjá mér. Í þessum sama áfanga áttum við að lesa eina bók. Ég fann þá bók sem hljóðbók og spilaði hana á leið í og úr vinnu. Á þann hátt gat ég fagnað umferðaþunga á morgnana, því þá hafði ég lengri tíma til að læra.
Höfundur: Kristjana Magnea Hilmarsdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.