Skip to main content
21. júní 2018

Verkfæri þarfagreiningar

my4Þarfagreining er notendarannsókn þar sem notaðar eru mismunandi aðferðir til þess að kynnast notendum, skoða notendahegðun og greina þarfir. Vegna þess hve ólíkar aðferðir eru notaðar, sem allar gegna mismunandi hlutverki, eru þetta oft kölluð þarfagreiningartól og líkt við verkfærakistu.

Notandi er sá sem notar netið til samskipta og til að sækja sér þjónustu. Til að geta mætt þörfum hins raunverulega notanda er mikilvægt að hugsa og hanna út frá honum. Takist það er hægt að bjóða upp á góða notendaupplifun.

my1

Við getum giskað á hverjar þessar þarfir eru en við vitum það ekki með vissu fyrr en við erum búin að tala við notendur og skoða þeirra notendahegðun. Við þurfum að kynnast þeim og hlusta á sögu þeirra og reynslu. Þannig greinum við þarfir þeirra og getum hannað út frá því.

Þarfagreining felur í sér margvíslegar rannsóknaraðferðir úr ýmsum áttum sem notaðar eru til að öðlast samhengi og innsýn í hönnunarferlið. Eitt tengir þær þó saman og það er að rannsakandinn þarf að vera athugull, skilningsríkur og fær í að greina niðurstöður.

my2

Þarfagreiningartólin eru heilmörg og í raun er alltaf að bætast í verkfærakistuna en hér verður farið yfir þau helstu.

Hugarflugsfundur er leið til að meta hvað þarf að gera til að bæta reynslu notenda, hvað þykir forgangsverkefni frá sjónarhorni fyrirtækis og hvað mun hafa mest áhrif frá sjónarhorni notandans. Mælt er með að boða saman fulltrúa bæði frá fyrirtæki og notendum. Rannsakandi stjórnar fundinum en lætur þátttakendur um að ræða saman um markhópa og markmið. Einnig eru kallaðir fram styrkleikar og veikleikar. Í lokin er gott að forgangsraða verkefnum í sameiningu.

Viðtöl eru mjög góð leið til þess að komast inn í hugarheim notandans og sjá heiminn með þeirra augum. Lykillinn að árangursríku viðtali er góður undirbúningur. Spyrja þarf réttu spurninganna og nota réttu viðtalstæknina. Þetta er eitthvað sem kemur með þjálfun en það hjálpar að geta sett sig í spor viðmælenda og hlustað án allra fyrirfram gefinna hugmynda.

Notendaprófun er einfaldlega bein athugun á aðferðum og líðan notanda þegar hann notar ákveðna þjónustu. Markmiðið er að mæla að hve miklu leyti þjónustan er notendavæn, hvort hún auðveldi notandanum að leysa þau verkefni sem ætlast er til. Notendaprófun getur afhjúpað galla sem auðveldlega á að vera hægt að leysa áður en vefurinn er þróaður áfram. Notendaprófun er gagnlegust ef hún er gerð snemma og oft í þróunarferlinu.

Samkeppnisgreining er aðferð sem gott er að nota til að skoða hvar vefsvæði stendur í samanburði við vefsvæði samkeppnisaðila.
Bæði er hægt að bera saman og meta eftir ákveðnum stöðlum eða leggja áherslu á að bera saman eiginleika, efni og hönnunarþætti sambærilegra vefsvæða. Markmiðið með samkeppnisgreiningu er fyrst og fremst að einblína á hvað sambærilegir vefir eru að gera vel og læra af því.

Netkönnun er auðveld leið til að safna mikið af upplýsingum um ákveðinn hóp án þess að þurfa að eyða í það miklum tíma. Rannsakandi getur búið til könnun á netinu, sent hana út og mögulega fengið mikla svörun á aðeins nokkrum mínútum. Kannanir hafa þó þann ókost að rannsakandinn getur ekki átt bein samskipti við svarandann.

Flokkunaræfing (e. card sorting) er gerð til þess að kanna tengsl milli efnis á vefnum og skilja betur hvaða áherslur og stigveldi notandinn skynjar. Notandanum eru gefnir ákveðnir skilmálar sem hann er síðan beðinn um að flokka. Misjafnt er hvort flokkaheiti eru gefin upp eða notandinn beðinn að búa þau til sjálfur eftir því hvað hann telur að eigi eigi best við.

Persónur eru skapaðar til þess að vekja upp samkennd og skilning á notendunum. Niðurstöður notendarannsókna eru oft notaðar til þess að skapa þessar persónur sem gefin eru andlit, persónueinkenni og þarfir og eru þessar persónur fulltrúar fyrir ákveðinn markhóp.

Notendaferill (e. customer journey mapping) er verkfæri sem að gott er að nota til að setja fram upplifun notenda á myndrænan hátt. Spurningar notenda, tilfinningar og markmið geta verið mismunandi eftir því hvar hann er staddur í notendaferlinu og því getur verið hjálplegt að kortleggja reynslu hans sem ferðlag.

Skissa er nákvæmlega það sem orðið gefur til kynna, þ.e. skissa að hugmynd eða hönnun, gerð með blaði og penna. Í þarfagreiningunni hefur hún þó mikla þýðingu því að á þessum stað í ferlinu er byrjað að kanna og setja niður hugmyndir að mismunandi uppbyggingu og hönnun. Rétta skissan er síðan valin og sett upp á svokallað „wireframe" sem er í raun tölvuteiknuð beinagrind af hönnun síðunnar.

Þarfagreiningin er ferli þar sem valin eru ákveðin þarfagreiningartól og þau síðan notuð í ákveðinni röð. Niðurstöður úr hverjum þætti fyrir sig eru notaðar til þess að fá sem mest úr næsta þætti. Leiðandi þráður í gegnum allt ferlið er sá að notandinn er alltaf miðpunkturinn og niðurstöður eru notaðar við hönnun og þróun vefsins og þeirrar þjónustu sem boðið er upp á.

my3

Niðurstöður þarfagreiningar hjálpa okkur að bera kennsl á, staðfesta eða hrekja fyrirframmótaðar forsendur okkar. Þær koma okkur í samband við markhópa og skilgreina þarfir þeirra, markmið og einkenni. Þekking á notendum og þeirra þörfum bætir almennt skilning og gerir okkur kleift að taka upplýstar ákvarðanir.

Höfundur: Heiðrún Ásta Guðmundsdóttir er viðskiptafræðingur með MA próf í hagnýtri menningarmiðlun og diplómagráðu í vefmiðlun frá Háskóla Íslands. Hún er annar eiganda vefjarins www.huxa.is - vefs um stafræn mál.

Heimildir
Myndir sóttar af www.shutterstock.com   
Amy Schade. (15. Desember 2013 ). Competitive Usability Evaluations: Learning from Your Competition. Sótt af https://www.nngroup.com/articles/competitive-usability-evaluations/ 
Erika Hall. (2013). Just enough research. New York: A book apart.
Leah Buley. (2013). The user experience team of one: A research and design survival guide. New York: Rosenfeld media.
Paul Boag. (2017). User experience revolution. Freiburg: Smashing media AG.
Paul Boag. (27 febrúar 2018) What Is Customer Journey Mapping and How to Start. Sótt af https://boagworld.com/usability/customer-journey-mapping/ 
Ux booth editorial team. (10. maí 2016). Complete Beginner’s Guide to UX Research. Sótt af https://www.uxbooth.com/articles/complete-beginners-guide-to-design-research/ 

Skoðað: 2146 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála