Skip to main content
10. maí 2018

Hvað er Slack?

mynd2Slack er öflugt spjallforrit, þar sem notendur mynda svo kölluð teymi með eins mörgum vinum, samnemendum og/eða vinnufélögum og þeir vilja. Forritið er frítt, en það er þó aðeins hægt að sjá síðustu tíu þúsund skilaboð án þess að borga fyrir það, og því gætu stórir hópar þurft að borga á einhverjum tímapunkti. Slack býður einnig upp á frítt smáforrit sem auðveldar samskipti, þar sem hægt er að fá tilkynningu í símann þegar teymismeðlimur sendir skilaboð.

Forritið virkar líkt og Messenger á Facebook sem svo margir notfæra sér, en notendur fá tilkynningu um leið og þeir fá send skilaboð og sjá hver var að senda þau. Útlitsval á Slack býður upp á endalausa möguleika þar sem hægt er að velja um fjölmörg útlit og þemu, en einnig getur notandi búið til sitt eigið þema með þeim litum sem hann vill.

Það sem gerir Slack svo frábært í notkun, og er okkar aðal áhersla í þessari grein, er að hægt er að senda “kóðabúta” á milli notenda. Eftir að kóði er sendur á milli er enn hægt að laga hann til, skilja eftir athugasemd við hann (t.d. “Hér vantar slaufusviga!” eða “Flottur kóði!”), og hlaða honum niður í eigin tölvu, allt inni í spjallglugganum sjálfum. Þetta hefur Slack fram yfir önnur spjallforrit eins og Messenger, en þar þarf að breyta kóða annars staðar og senda hann aftur.

Notendur geta hringt í hvern annan, og einnig stillt stöðu sína á “Away”, “Out sick” og margt fleira til þess að verða ekki fyrir truflun. Myndir af þessum helstu aðgerðum má sjá að neðan. Til gamans má geta að Slack er opinberlega notað af nokkrum stærstu stofnunum heims eins og Harvard University og AirBnb!

mynd3

Notkun í skólum

Slack er frábært fyrir nemendur í háskóla (eins og yfirvöld Harvard University hafa nú þegar áttað sig á), framhaldsskóla og efstu bekkjum grunnskóla, sér í lagi nemendur sem eru að læra forritun eða eitthvað í þá áttina. Nemendur geta þá stofnað teymi með samnemendum og unnið saman í verkefnum með því að senda alls kyns kóðabúta á milli, og spjallað saman um verkefnin til þess að fá hugmyndir hver af öðrum.

Þegar kóði er sendur er valið á hvaða máli hann er (Java, C++ og svo framvegis), en þá fær notandi alla stíla á kóðann sem fylgja málinu, það er að segja rétta liti, inndrátt og fleira. Slack býður upp á að búa til eins margar rásir innan hópsins eins og hópmeðlimir vilja, þar sem hver rás getur til dæmis táknað hvern og einn áfanga í skólanum.

Höfundar eru bæði nemendur í Tölvunarfræði við Háskóla Reykjavíkur og við notfærum okkur Slack daglega. Við notum forritið mikið í verkefnavinnu, en líka til þess að spjalla við hvert annað sem og aðra teymismeðlimi. Forritið tengist skólanum ekki neitt, þ.e.a.s. okkur var ekki bent á að nota það af kennurum heldur af vini okkar sem vinnur við hugbúnaðarþróun. Kennarar ættu að kynna sér Slack og benda nemendum á að nota það við verkefnavinnu.

Í dag er mikið um fjarnemendur og nemendur sem vinna fulla vinnu með skóla, og því mæta þeir nemendur oft lítið sem ekkert í skólann. Slack myndi auðvelda verkefnavinnu heilmikið fyrir þessa nemendur og auðvitað alla aðra, þar sem Slack gerir alla hópavinnu skemmtilegri!

Hér má sjá mynd af samskiptum milli höfunda greinarinnar á hinni frábæru síðu Slack!

Viðtöl

Til gamans tókum við viðtöl við tvo teymismeðlimi okkar sem nota slack daglega í skóla og vinnu, en við spurðum þá um helstu kosti Slack að þeirra mati.

Teymismeðlimur 1:
“Það sem ég nota Slack í er auðvitað hópavinna, þetta auðveldar mikið að senda kóðabúta og í rauninni allt tengt Tölvunarfræði, það eru minni takmarkanir á stórum skrám heldur en á Facebook Messenger t.d. sem að getur komið sér vel þegar þarf að senda stærri skrár en myndir og slíkt. Þægilegt er að hafa alla lærdómsfélagana á einum stað og geta sent skilaboð á alla, með þeim möguleika að geta sent einkaskilaboð.” (Samnemandi, munnleg heimild, viðtal, 27. febrúar 2018).

Teymismeðlimur 2:
“Helsti kostur Slack er að geta sent kóða í fallegum litum og með réttum inndrætti. Á Facebook er kóðabútur allur í svörtu letri og inndráttur kemur ekki réttur inn, sem gerir það nánast ómögulegt að senda kóða á milli. Einnig þykir mér gott að geta breytt kóðanum eftir að ég sendi hann til annarra, ef ég tek til dæmis eftir klaufavillu eftir á sem ég vil ekki að teymismeðlimir sjái. Mér finnst líka gott að geta stillt mig á “away”, en þá er ég ekki trufluð. Að lokum finnst mér æðislegt að geta stillt þemað sjálf, en ég er með bleikan bakgrunn og grænt letur!” (Samnemandi, munnleg heimild, viðtal, 27. febrúar 2018).

Höfundar: Hreiðar Kristinn Hreiðarsson og Unnur Lára Halldórsdóttir

Heimild:
Metal, Alli og Scheving, Annetta. (2009). Reykjavik University
Logo. RU. Sótt 27. febrúar 2018 af https://en.ru.is/the-university/logo/ 5

Skoðað: 1604 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála