Skip to main content
3. maí 2018

Forritum nýja framtíð

johannaSú tækniþróun sem við höfum upplifað undanfarna tvo áratugi hefur verið svo hröð að oft er talað um fjórðu iðnbyltinguna, veldisvöxt og að við höfum bara rétt séð toppinn á ísjakanum. Það er ekki að ástæðulausu. Hraði tækninýjunganna veldur því að meirihluti þeirra starfa sem börnin okkar eiga eftir að sinna eru ekki enn orðin til. Áhrifin á atvinnulífið og samfélagið eru þegar umtalsverð, og munu verða meiri.

Öflug tölvutækni og gervigreind munu á næstu tuttugu árum sjálfvirknivæða allt að helming starfanna sem mannkynið vinnur í dag. Tæknimenntað fólk mun því ekki aðeins forrita nýjan hugbúnað heldur ný störf, nýja tegund atvinnulífs, nýtt samfélag og nýja framtíð.

Kynbundið náms- og starfsval er ennþá rótgróið í okkar samfélagi en ýmsar rannsóknir sýna að kynbundinn launamun megi að miklu leyti rekja til kynjaskiptingar starfa, þar sem hefðir og félagsmótun flokki störf hefðbundinna „karlastétta“ skör hærra en störf hefðbundinna „kvennastétta“. Rót kynbundins náms- og starfsvals má að mestu rekja til staðalmynda, hvort sem það er í nærumhverfinu, fjölmiðlum, sjónvarpsþáttum, eða minnisblaði unga mannsins sem starfaði hjá Google.

Í könnun sem Gallup gerði fyrir Google í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum kom fram að talsvert meiri líkur væru á að tölvunarfræðingar í sjónvarpi og kvikmyndum væru með gleraugu heldur en að þeir væru kvenkyns; 55% voru með gleraugu og 15% voru konur. Staðalmyndir af kynjunum móta hugmyndir stelpna og stráka um það hvað þau eigi að læra, hvað þau geti unnið við, hvaða hæfileika þau hafi og hvað þau geti yfirleitt. Þessi samfélagslega félagsmótun segir stelpum að 15% kvenna séu tölvunarfræðingar,

Stærðfræði er grunnur alls tæknináms. Samkvæmt samantekt Adams Grant, prófessors við Wharton háskóla, hafa stelpur og strákar sömu hæfileika til að læra stærðfræði en Adam brást við minnisblaði unga mannsins hjá Google með því að taka saman nokkrar staðreyndir um eðlislægan mun á körlum og konum, sem byggja á samanburði ítarlegra vísindalegra rannsókna. Adam dregur fram því sem næst 4000 rannsóknir, sem sýna að strákar eru ekki betri í stærðfræði en stelpur. Stelpum gengur jafn vel og strákum í stærðfræði í grunnskóla en strákum fer að ganga betur en stelpum í gagnfræðaskóla, en það á við í þeim löndum þar sem sýnileiki kvenna í rannsóknum er lítill og staðalmyndir tengja vísindastörf eingöng við karla. Þá er, aftur samkvæmt samanburði vísindarannsókna, afskaplega lítill munur á konum og körlum þegar litið er til hæfileika, viðhorfa og getunnar til að framkvæma. (sjá grein Adams Grant; Differences between men and women are vastly exaggerated)

Snjóboltaáhrifin eru skýr; það er orðið almennt viðurkennt að við þurfum fleiri konur í tæknigreinar, fyrst til að velja sér nám í tæknigreinum í háskólum og síðan til að sækja um tæknistörf í fyrirtækjum. Þá er ekki síður mikilvægt að okkur hefur tekist að vekja fyrirtæki í tæknigreinum til vitundar um að blönduð teymi skila bestu vinnunni, það á jafnt við um stjórnir fyrirtækja, framkvæmdastjórnir og teymi sem vinna að tæknilausnum.

Við höfum tækifæri til að byggja upp öfluga atvinnugrein sem byggir á hugviti, þekkingariðnað með vel launuðum tæknistörfum, og getum gert þá atvinnugrein að undirstöðuatvinnugrein í íslensku samfélagi. Með því að fjölga konum í tækninámi og tæknigreinum er hægt að mæta alvarlegum skorti á tæknimenntuðu starfsfólki, sem hefur bókstaflega staðið í vegi fyrir vexti tæknifyrirtækja á Íslandi, um leið og við ráðumst að rótum þess hluta kynbundins launamunar sem orsakast af kynbundnu náms- og starfsvali.

Sú kynslóð stelpna og stráka sem nú er að vaxa úr grasi hefur stórkostlega spennandi tækifæri til þess að móta framtíðina, en við getum ekki sætt okkur við að nýtt samfélag og ný framtíð verði eingöngu mótuð á forsendum helmings mannkynsins. Það er nauðsynlegt að konur taki þátt í því að skapa samfélag framtíðarinnar. Þess vegna þurfum við fleiri konur í tölvunarfræði og tæknigreinar, þess vegna þurfum við Stelpur og tækni.

Höfundur: Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Tengsla hjá Háskólanum í Reykjavík

Skoðað: 1721 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála