Skip to main content
15. mars 2018

Fallinn með 0-10000001-00111001100110011001100

mynd nemiHver man ekki eftir hljómsveitinni Tívolí með lagið „Fallinn með 4.9“ (Ólafur Þór Ólafsson, 2010)? Það er erfitt að geta ekki staðist kröfur samfélagsins og lagið gerir þeirri tilfinningu góð skil. Ég fylltist kvíða í hvert skipti sem ég þurfti að fara í lestrarpróf af ótta við að vera látinn sitja eftir í skólastofunni á meðan skólafélagarnir sem náðu lestrarprófinu fengu áhyggjulausir að leika sér úti. Þegar meira en þrír áratugir eru liðnir fær læsi ungmenna falleinkunn samkvæmt könnunum og er bent á tölvurnar sem sökudólg. En hæfni til að beita grunn-stafrænni tækni virðist einnig fara þverrandi.

Upplýsingatækni í skólum

Í tímaritinu Skíma er fjallað um læsi ungmenna. Þar er fjallað um að á undanförnum árum hafi fjölmiðlar birt greinar, niðurstöður og kannanir sem sýna að lestur sé á undanhaldi. Lesskilningur barna og ungmenna fer dvínandi, ásamt auknu óþoli fyrir löngum prentuðum textum og að þau geti ekki lengur lesið sér til gagns. Þá eru drengir sérstaklega nefndir og að við sem bókaþjóðin mikla, stöndum uppi með þá staðreynd að fimmti hver fimmtán ára unglingspiltur sé ekki fær um að lesa sér til gagns og gamans. Er hægt að kenna tölvunum um þetta allt saman (Ragnheiður Gestsdóttir, 2012)?

Mér leiddist að lesa sem krakki. Ég gat vel lesið stuttar setningar sem komu fyrir á stöku stað í myndabókum eða lesið fyrirsagnir í blöðum. En ef ég þurfti að lesa langar málsgreinar, leit þetta út eins og veggur af orðum sem erfitt var að klífa. En mér gekk vel að læra á tölvur og allt sem tengdist þeim. Í þeim gat ég eytt tímunum saman í að fikta og prófa nýja hluti.

Niðurstöður gagna frá ANDS, Ástralskri gagnaþjónustu benda til að hæfni og skilningur ungs fólks, á þeirri upplýsingatækni sem skólarnir nota, fari versnandi. Árið 2014 voru 10.500 nemendur metnir í skilningi þeirra og færni í upplýsingatækni. Þar af voru 55% af 11-12 ára krökkum sem gátu mætt þeim kröfum sem gerðar voru til þeirra í upplýsingatækni í námi. Þessi tala hefur lækkað um 6% á síðustu þremur árum. Aðeins 52% af 15-16 ára krökkum gátu leyst verkefni eins og að búa til töflur, gröf og flokkað gögn í reiknivangi eða breytt myndum og texta. Þessi hópur af krökkum kemur verr út úr rannsókninni og hefur hann lækkað um 13% frá því fyrir þremur árum (Michael Phillips, 2015). En til hvers er ætlast af krökkunum?

Nemendur í sjötta bekk í Ástralíu eiga að geta:

  • Fundið viðeigandi upplýsingar á netinu
  • Breytt útliti á skjali
  • Vistað og límt upplýsingar frá einum dálk yfir í annan í reiknivangi
  • Bætt vefsíðu í bókamerki viðeigandi vafra
  • Þekkt endingar á algengum vefslóðum, eins og „.gov“.
  • Uppfært vírusvarnir
  • Haldið réttri líkamsstöðu þegar setið er við tölvu

Nemendur í tíunda bekk í Ástralíu eiga að geta

  • • Breytt leturgerð, lit og hreyfimyndum
  • Búið til töflur og gröf
  • Farið yfir söguna sem vafrinn geymir og nýtt sér han
  • Flokkað gögn í tflureikni

Þegar ég var í sjötta bekk þá lærðum við kristinfræði og í tíunda bekk bættist við vélritun. Miðað við lýsingar á þessum kröfum, þá er ég býsna sáttur við að hafa ekki þurft að standast þær á sínum tíma. En í dag er öldin önnur og auknar kröfur eru gerðar til barnanna en áður.

Michael Philips hefur rannsakað notkun upplýsingatækni í menntaskólum í Ástralíu. Hann nefnir nokkrar ástæður sem gætu gefið vísbendingar fyrir þessari slæmu niðurstöðu um notkun á upplýsingatækni í skólum. Fyrst nefnir hann að það taki of langan tíma að innleiða námskrár í skólum. Kennarar hafa fullt í fangi með að eiga við breyttar námskrár og fá ekki þann stuðning sem þeir þurfa til að skilja hvernig nota megi upplýsingatækni á skilvirkan hátt í kennslustofunni. Þá getur verið erfitt að velja á milli þess hvaða upplýsingatækni nýtist best hverju sinni. Áherslan ætti því að vera á hvernig nota megi upplýsingatækni á nýja og skapandi vegu, frekar en að draga úr börnum lífsviljann með drepleiðinlegum Excel æfingum (Michael Phillips, 2015).

Í skýrslu frá árinu 2014 gerði starfshópur um upplýsingatækni í skólastarfi á Íslandi tillögur til úrbóta á notkun upplýsingatækni í skólakerfinu. Þar eru nefndir ákveðnir lykilþættir eins og menntun kennara og skapandi nám og lagt til að stuðlað verði að umbreytingu kennaranáms til að búa kennaranema undir framtíðina og að upplýsingatækni verði ein af kjarnagreinum kennaranámsins. Reynt verður þróa kennsluhætti sem geta bætt upplýsingalæsi nemenda, ásamt því að ýta undir skapandi og gagnrýna hugsun (Stjórnarráð Íslands, 2015).

Lokaorð

Það er mikilvægt að halda í við þá hröðu þróun sem á sér stað í upplýsingatækni. Ef ekki er haldið vel á spöðunum í menntamálum, er hætta á að við sjáum kynslóð sem ásamt því að geta ekki lesið, er heldur ekki fær um að nota tölvur sér til gagns... bara gamans.

Höfundur: Kolbeinn Páll Erlingsson, nemandi við Háskólann í Reykjavík 

Heimildaskrá:

Michael Phillips. (2015). ICT is failing in schools – here‘s why. Sótt 27. febrúar 2018 af http://theconversation.com/ict-is-failing-in-schools-heres-why-50890
Ólafur Þór Ólafsson. (2010, 22. október). Tívolí Fallinn [myndskeið]. Sótt 27. febrúar 2018 af https://www.youtube.com/watch?v=XOLam7JaTZs
Ragnheiður Gestsdóttir. (2012). Geta þau ekki bara lesið almennilegar bækur? Skíma, málgagn móðurmálskennara, 35(2), 24-27. Sótt 27. febrúar 2018 af https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/11843/skima2012-2.pdf?sequence=1
Stjórnarráð Íslands. (2015). Skýrsla starfshóps um upplýsingatækni í skólastarfi – tillögur til úrbóta, september 2014. Sótt 27. febrúar 2018 af https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/frettir2015/Skyrsla-starfshops-um-upplysingataekni-i-skolastarfi.pdf

 

 

Skoðað: 504 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála