Skip to main content
8. mars 2018

Vindhögg, vísindi og gervigreind á sterum

kristinn minniEftir að gervigreind komst í tísku fyrir svona u.þ.b. fjórum árum, þegar fólk hleypur ekki lengur í burtu þegar ég segi þeim að ég stundi rannsóknir í gervigreind, hef ég oft þurft að svara spurningunni „Hvað er gervigreind?"

Ég svara því stundum með annarri spurningu: „Hvað er greind?" Sem er auðvitað dálítið óréttlátt, því eftir rúmlega 120 ár af rannsóknum í sálfræði og 60 ár af gervigreindarrannsóknum hefur enn ekki tekist að finna hina einu sönnu skilgreiningu eða grundvallarútskýringu á fyrirbærinu.

Eins og svo margt annað sem ber fyrir augu í okkar nánasta sem og fjarlægasta umhverfi, hvort sem heldur er skammtafræði nú á tímum eða stjörnur og himintungl fyrr á öldum, er erfitt að smætta niður flókin náttúrufyrirbæri sem við skiljum ekki. Það hindrar þó marga ekki í að reyna að skella fram skilgreiningu þegar ég skora á þá. Oftast eru tilraunirnar míglekar þegar betur er að gáð, enda um margslungið fyrirbæri að ræða. Skemmtilegt er þó frá því að segja að oft eru það leikmenn, frekar en gervigreindarsérfræðingarnir, sem hitta naglann á höfuðið í slíkum tilraunum, eða a.m.k. aðeins nær honum. Því oftar en ekki tala leikmenn um að eitt lykileinkenni greindar sé hversu fjölbreytt verkefni hún geti tekið sér fyrir hendur, hversu nytsamleg hún sé til að framleiða nýjar hugmyndir, og hvernig hún geri okkur kleift að dýpka skilning okkar á öllu milli himins og jarðar. Með öðrum orðum, hve ósérhæfð og alhliða mannleg greind sé.

Upphaf gervigreindarsviðsins er oft rakið til ráðstefnu sem haldin var í Darthmouth-háskóla í Bandaríkjunum 1957, þar sem saman voru komnir margir þeirra sem áttu eftir að marka stefnu sviðsins á komandi áratugum. Í upphafi voru gervigreindarmenn vongóðir um framfarir og árangur rannsókna sinna og spáðu reglulega að innan áratugar myndi tölva sigra heimsmeistara í skák. Það tók 40 ár þangað til sú spá rættist þegar tölva þróuð af IBM vann Gary Kasparov, sem þá var talinn meðal bestu skákmanna heims.

Það var engin tilviljun að IBM valdi að einbeita sér að þróun véla sem spiluðu skák. Upphafsmenn gervigreindarsviðsins höfðu fært sannfærandi rök fyrir því að greind væri upplýsingavinnsla og höfðu sett fram þá tilgátu að hugsun væri í raun táknavinnsla (e. symbol manipulation). Eins og landið lá fyrir gervigreindarvísindamönnum þess tíma var skák eitt skýrasta dæmið um slíka vinnslu með tákn: Tegundir leikmanna, staða þeirra á taflborðinu, og áhrif og afleiðingar ákvarðanna spilaranna á gang leiksins, voru tilvalin til að færa inn í hugbúnaðarheim -- það eina sem vantaði þá var greindin: greindin til að vinna með þessi tákn á þann hátt að úr hlytist heimsmeistari.

Tilgátan sem lá þar að baki var ekki aðeins sú að greind væri nauðsynleg til að spila skák, heldur hafði hún metnaðarfyllra inntak: Að skák á heimsmælikvarða krefðist alhliða (e. general) greindar; að hver sú vera -- maður, dýr, vél -- sem spilaði skák á við heimsmeistara yrði að hafa alhliða greind.

Nokkrir upphafsmanna gervigreindar höfðu á áratugunum tveimur fyrir sigur Deep Blue smíðað vélar sem telja má einlægar tilraunir til að „kenna vélum að hugsa" -- að færa hugsun á tölvutækt form. Og þótt engin alhliða greind hafi reyndar komið útúr því voru menn þó sammála að þetta væri skynsamlegasta kenningin sem fram hafði komið um mannlega greind, enda var (og er) mannleg greind talin besta dæmið um alhliða greind.

Tilgátan sem vísindamenn IBM voru að sannreyna þegar Deep Blue og Kasparov settust niður til að tefla var því ekki bara sú hvort þeir gætu smíðað vél sem ynni heimsmeistara, heldur sú hvort þeir yrðu hugsanlega þeir fyrstu til að smíða raunverulega vitveru; vitveru sem gæti skákað manninum ekki bara í tafli, heldur í öllu.
Líklega verður að telja þessa tilgátu meðal þeirra alröngustu vísindalegu tilgátna 20. aldar, því Deep Blue var ekki aðeins algjörlega laus við alhliða greind, heldur tókst IBM á næstu árum, þrátt fyrir mikinn tilkostnað, ekki að nýta kerfið í neitt annað. Vissir hlutar þess, t.d. vélbúnaðurinn, höfðu þó eflaust áhrif á örgjörvahönnun IBM á næstu árum og áratugum, en Deep Blue sem kerfi var ekki nýtanleg í nein önnur verk -- niðurstaðan var sú að hér væri á ferðinni sérhannað kerfi með enga aðra nýtingarmöguleika en það sem það var smíðað fyrir.

Nýlegar rannsóknir sýna að það er lítil sem engin fylgni milli skákgetu og greindar hjá ungum börnum -- a.m.k. eins og hún mælist með greindarvísitölumælingum sálfræðinnar. Hins vegar segir það okkur ekkert sérlega mikið þar sem engar djúpar kenningar um greind liggja að baki þeim mæliaðferðum.

Á síðustu tveimur áratugum hefur ekki mikið breyst í gervigreindarrannsóknum hvað þetta varðar. Vissulega hafa orðið framfarir, og einhver skref tekin í átt að alhliða gervigreind, en þau skref eru hænuskref í átt að Everest -- á meðan flestir sækjast eftir að betrumbæta þær gervigreindaraðferðir sem til eru með smávægilegum viðbótum eru fáir sem engir að rannsaka fyrir alvöru hvernig við skapa má „alvöru gervigreind" í vél. Sumir telja að það sé hvort sem er ekki hægt, aðrir að sú aðferðafræði sem beitt sé í dag sé sú besta og því tilgangslaust að reyna aðrar nálganir. Á meðan þetta er staðreyndin eru litlar ástæður til að hafa áhyggjur af því að vélarnar verði brátt svo klárar að þær geri mannskepnuna að þræl sínum.

Hvenær getum við þá átt von á því skilningur okkar á greind dýpki verulega? Það er erfitt að segja, en eitt er víst: ótímabærar skilgreiningar ber að forðast; þær laða fram falska öryggistilfinningu, leiða til rangra áherslna og afvegleiða frekar en afhjúpa.

Við getum átt von stórtækum framförum þegar við skiljum betur hvernig manshugurinn framkvæmir margt af sínum undraverðu aðgerðum svo sem fjölþætt nám, þekkingaryfirfærslu, afleiðslu, aðleiðslu, fráleiðslu, og hvernig hann fer að því að framleiða af sjálfsdáðum ný undirmarkmið eftir þörfum. Þegar við skiljum hugann sem heild. Upphafsmenn gervigreindarsviðsins reyndu þetta, en slógu töluvert af vindhöggum. Hversu stór þau munu reynast -- hversu langt er upp á tindinn -- getum við ekki mælt fyrr en við komumst þangað; fyrr en við höfum smíðað eitthvað sem líkist meira alhliða greind mannvera.
Gervigreindarrannsóknir síðustu 60 ára benda til að aðferðafræðin sem verið er að beita sé ef til vill ekki sú rétta. Hvaða aðrar leiðir eru vænlegri til árangurs er erfitt að segja til um, en til þess eru rannsóknir. Á meðan meginþorri gervigreindarrannsókna hverfist um hönnun sérhæfðra kerfa, og litlir sem engir fjármunir eru lagðir í róttækari nálganir, verður ofurgreindar vitvélar einungis að finna á hvíta tjaldinu. Þangað til er gervigreind bara sjálfvirkni á sterum.

Höfundur: Kristinn R. Þórisson, prófessor við Háskólann í Reykjavík

Skoðað: 1559 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála