Skip to main content
8. desember 2016

Sum orð eiga meira skilið að vera þýdd en önnur.

myndin1Að hafa aðgang að bæði íslensku og ensku námsefni hefur góð áhrif á ensku kunnáttuna okkar en frekar neikvæð áhrif á íslenskuna. Þegar megnið af námsefninu er á öðru tungumálinu eigum við auðvitað til að hallast að því tungumáli þegar kemur að fræðiheitum og heitum á aðferðum ekki síst ef þau eru alþjóðleg, en stundum kemur þó fyrir að það verði súr blanda af báðum tungumálum. 

Þegar kemur að því að tala við annan einstakling um sama efni getur oft orðið mikill misskilningur þar sem einn kann orðið á íslensku en hinn á ensku en þekkja ekki orðin á báðum tungumálum og eru því frekar áttavilltir í samræðum. Það er stundum ómögulegt að þýða fræðiheiti og því betra að nota þau orð sem allir í faginu skilja.

Í tölvunarfræðinni er mjög mikilvægt að allt sé á ensku. Okkur er snemma kennt að það sé góð hefð að hafa kóðann allan á ensku og forðast íslensku. Ef okkur dytti það í hug að kóða á íslensku, með íslenskum stöfum, lendum við í alls kyns vandamálum þegar kemur að því að þýða kóðann. Þá er líka vandamál að mismunandi kerfi birta íslenska stafi á mismunandi hátt og það getur framkallað höfuðverk. Það að þýða tölvunarfræðihugtök er nánast liðin tíð, því fylgdi sú áhætta að rugla mann meira en það hjálpar.

Burt séð frá allri tölvunarfræði, þá er mjög þægilegt að allt sé á íslensku. Hlutir eru auðskiljanlegri og við þurfum ekki að hugsa jafn mikið um hvað verið er að lesa eða heyra. Svo lengi sem við tjáum okkur við aðra íslendinga og notum ekki of tæknileg orð, þá er miklu þægilegra að nota móðurmálið. Kosturinn við að venja sig við að nota íslenskuna er að hún ætti að vera skiljanleg fyrir aðra íslendinga og fallegri ef engar slettur eru notaðar. Um leið og við förum að nota tæknileg orð, þá vandast málin. Mikið af tæknilegum orðum eru ekki til á íslensku eða í mjög lélegri þýðingu. Oft viljum við miklu frekar nota stutta enskuslettu sem fólk þekkir fremur en að nota langt samsett orð sem á að þýða sama hlutinn. Fólk þekkir ekki íslensku orðin af því þau eru ekki notuð. Þau eru ekki notuð af því þau eru almennt lengri og flóknari en ensku sletturnar.

Ókosturinn að okkar mati við að þýða ýmis fræðiheiti yfir á íslensku felst í því að erfitt verður að leita sér upplýsinga á fagmáli, greinar á íslensku og íslensk fræðirit eru sjaldan það sem að iðnaðurinn notast við og þarft því oftast að lesa erlenda/enska texta til að fylgjast með þróun og þekkingu í fagi.
Íslenskan á sér framtíð sem mælt mál en það að þýða öll fræðiheiti finnst okkur vera óþarfi, heiti geta alveg verið heiti þó þau komi frá öðru tungumáli. Mörg fræðiheiti eru dregin af latneskum stofni og við hvetjum til að fræðilegar nýjungar heiti sínum heitum og hættum að íslenska allt. Mörg önnur tungumál nýta orð úr ensku og enska nýtir mörg orð úr latínu. Við eigum ekki að vera hrædd við að nýta orðin sem aðrir í heiminum nota.

Ef íslensk þýðing fræðiheita er vel gerð og hún auðlærð er mjög hentugt að nota hana, en ef íslenska þýðingin er ekki auðveldari í notkun en erlenda heitið, þá þjónar hún engum tilgangi.

Höfundar: Sveinbjörn Berent B. og Þorvarður Bergmann K.

Mynd fengin af bls. 206 í Colloquial Icelandic

Skoðað: 2249 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála