Skip to main content
25. ágúst 2016

Þátttaka nemenda í tímum - dæmi um forrit sem hjálpa

myndinÍ skólakerfinu í dag er sífellt meiri áhersla lögð á þátttöku nemenda í kennslustundum. Þátttaka nemenda hefur hinsvegar verið mismikil og jafnan reynst erfitt að fá nemendur til að taka þátt í umræðum. Þetta vandamál má til dæmis rekja til þess að margir eru feimnir við að rétta upp hönd og tala í tímum sama hvort það er til  þess að svara spurningum kennarans eða spyrja nánar út í efnið. Til að leysa þetta vandamál eru til ýmis forrit sem gera nemendum kleyft að taka þátt í umræðum í tíma á nafnlausan hátt.

Eitt þekktasta forritið af þessu tagi er líklegast Socrative. Socrative er smáforrit sem nemendur, sem og kennarar hlaða niður í snjalltæki sín og nýta í kennslustundum. Kennarar geta samið spurningar og dæmi um svör, sem þeir síðan varpa upp í tímanum og nemendur svara, hver í sínu tæki.  Kennari getur þá fylgst með, hvort nemendur séu að ná námsefninu eða hvort hann þurfi að fara ýtarlegar í efnið, án þess að þurfa að draga það upp úr feimnum nemendum sem vilja ekki tjá sig fyrir framan allan hópinn. Ekki nóg með að þetta gagnist feimnum nemendum, heldur sparar þetta kennaranum gríðarlegan tíma þar sem allir nemendurnir geta svarað samstundis, í stað þess að kennari bendi á einn og einn sem svara í einu.  Þegar nemendur hafa svarað spurningum, getur kennari séð yfirlit yfir það hvernig þátttaka hvers og eins nemanda er í tíma, þ.e. hvort nemandinn taki þátt með því að svara spurningum o.þ.h. ásamt því hvort nemandi svaraði rétt eða rangt. Með þessu móti sér kennarinn strax hvað þarf að fara betur yfir með nemendum. Síðast en ekki síst getur kennari búið til keppni á milli nemenda, eða svokallað "spacerace". Keppnin getur virkað hvetjandi á nemendur, sérstaklega ef til einhvers er að vinna [1].
 
Annað forrit sem hægt er að nýta sér er Kahoot. Kahoot virkar þannig að hópur eða kennari skráir spurningar inní forritið. Hægt er að velja um hvort gerð er spurningakeppni, skoðanakönnun eða umræðuþráður. Þegar spurningarnar eru tilbúnar fer hópurinn inná síðuna í símanum sínum, spjaldtölvu eða tölvu og skráir inn pin númer ásamt því að velja sér notendanafn. Þegar allir eru tilbúnir setur kennarinn spurninguna upp á skjáinn og nemendur velja svarmöguleika. Nemendur geta ekki séð valmöguleikana við spurningunum á sínum tækjum, heldur birtast þeir aðeins uppá skjánum. Því er nauðsynlegt að vera í tímanum til að taka þátt. Í spurningakeppni fá nemendur stig eftir því hvort þeir hafa svarað rétt og hversu fljótt. Spurningarnar koma ekki upp strax á eftir hvor annarri heldur þarf kennarinn að velja að birta næstu spurningu, hann getur því tekið pásu á milli hverrar spurningar og rætt hana betur. Skoðanakönnunin virkar einfaldlega þannig að kennarinn gerir eina eða fleiri kannanir og hver og einn nemandi svarar hverri könnun fyrir sig.  Þegar allir nemendur eru búnir að svara spurningunni kemur upp súlurit með útkomunni. Þegar allar spurningarnar eru búnar þá getur kennari niðurhalað öllum niðurstöðunum. Umræðuþráður er nokkurn vegin eins og skoðunarkönnun, nema þar getur kennari aðeins sett inn eina spurningu [2].
 
Þó svo að nafnlausar spurningar séu mjög góð hugmynd þá þarf að passa uppá hvernig hún er framkvæmd. Til eru dæmi um börn sem misnotuðu vald sitt þar sem þeim var leyft að svara spurningum nafnlaust sem yrðu svo birt á skjá fyrir framan margmenni [3]. Nokkrir nemendur ákváðu að nýta sér tækifærið og svör þeirra voru mjög óviðeigandi. Svörin voru sum kynferðisleg og ógeðsleg. Þetta atvik sýnir að ef kennarar vilja nýta sér svona kerfi ætti í það minnsta að vera möguleiki fyrir þá að fara yfir svörin áður en þau eru birt heilum bekk. Möguleiki á úrbætum væri að kennari semji spurningar fyrirfram. Hann gæti þá samið svör við þeim spurningum sömuleiðis. Þegar kæmi svo tími til að svara spurningunum gætu nemendur einungis notað þá svarmöguleika sem kennarinn samdi. Þessa leið væri samt einungis hægt að nota fyrir einfaldar spurningar eins og t.d. já/nei eða satt/ósatt spurningar.  

Höfundar: Erla Harðardóttir, Fanney Hrund Jónasdóttir, Skúli Þór Árnason og Svava Dögg Björgvinsdóttir, nemendur í HR
Heimildir
[1]    How it works. (e.d.). Socrative. [Rafrænt] Af: http://socrative.com/ Sótt 22. febrúar 2016.
[2]    How it works. (e.d.). Kahoot. [Rafrænt] Af: https://getkahoot.com/ Sótt 22. febrúar 2016.      
[3]    Rishi Iyengar 10. september 2015. Time. [Rafrænt]. Af: http://time.com/4028878/houston­memorial­high­freshman­assembly­anonymous­questions/  Sótt: 22. febrúar 2016.  

Skoðað: 2712 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála