Skip to main content
21. apríl 2016

Að afla og fiska í UT

ElinrFyrir rúmlega sjö mánuðum stóð ég á krossgötum á ferli mínum, þar sem lítil viðskiptahugmynd sem ég hafði hlúð að undanfarin ár gekk ekki upp. Ég fann að þessi tímamót voru sérstök fyrir þær sakir að ég hafði áður skilgreint mig í iðnaði, sem mér fannst áhugaverður fyrir margar sakir. En eftir að hafa greint íslenskt hagkerfi út frá hinu alþjóðlega eins og stelpur stundum gera þegar þeim leiðist, sá ég að það var úr ýmsu að moða. Ég gat valið mér að vinna í ferðaiðnaðnum sem var nú orðinn stærsti iðnaður landsins, þar var nóg af nýsköpun og tækifærum. Sjávarútvegi, sem voru að sýna mikla tilburði í átt að nýsköpun og tækni. Báðar þessar greinar eru útflutningsgreinar, sem paraðist ágætlega við löngun mína að fá tækifæri til að starfa að hluta á erlendum mörkuðum.

Staður fyrir fólk eins og mig?

Svo var þarna iðnaður sem sumir vilja kalla UT/IT iðnaður. Illa skilgreindur en umfangsmikill og ekki auðvelt að ná saman gögnum um hann hjá Hagstofunni. Sýndist mér þar vera mikil gróska í gangi, með vöxt í veltu langt umfram meðalvöxt í landinu. Ég skildi þennan iðnað ekki svo vel, og mundi bara eftir nokkrum strákum sem ég þekkti úr UT, frábærir strákar, sem unnu í myrkum herbergjum að kóda með pizza kassa í horninu. Þeir voru varla að leita að manneskju eins og mér!
Með budduna hálftóma og óljósa hugmynd um að þeir fiska sem róa, ákvað ég að vera opin fyrir öllum nýjum tækifærum sem á leið minni lágu. Slík aðferð felur í sér að maður hittir marga en á sama tíma hefur maður ekki tíma til að kafa djúpt ofan í hvert verkefni fyrir sig. Ég ákvað að einhversstaðar væri staður fyrir manneskju eins og mig.

Eftir að hafa sótt um hin og þessi störfin, fann ég mér stöðu hjá stofnun á hugverkasviði. Spennandi stöðu sem ég vissi að þarfnaðist þekkingu minnar, en ég var fljót að átta mig á að kannski ætti vinnan eftir að hafa meiri áhrif á mig en ég á hana.

Þegar sálfræðimenntaður einstaklingur með MBA hefur störf hjá Samtökum iðnaðarins, reynir hann stundum að setja miða á fyrirbæri og flokka í kassa. Það gekk ágætlega fyrst um sinn en mikið var erfitt að ná utan um viðfangsefnið á einfaldan og fljótlegan hátt.

Hin ýmsu andlit UT

Eftir nokkrar vikur fór ég að skilja að það er ekki eitthvað eitt andlit sem hægt er að setja á UT, ég bað strákana með pizza kassana að koma inn í IGI og lærði seinna að þeir væru ein bjartasta von landsins í leikjaiðnaði. Enda eitt öflugasta teymi sérfræðinga sem ég hef á ævinni kynnst. En ég lærði líka að það voru stelpur í leikjaiðnaði og jafnvel konur á besta aldri að bjóða upp á einstakar lausnir til að upplifa umhverfið í gegnum leik. Það voru félagslegir frumkvöðlar í UT sem stýra stórum alþjóðlegum fyrirtækjum frá Íslandi sem bera hag heils iðnaðar fyrir brjósti sér. Sem hringja oft í mánuði og spyrja: Eru fleiri komnir inn í hópinn? Markmiðið er að við höfum alla með. Við stefnum á að verða þéttasti iðnaður landsins.

Það eru konur og menn  í SUT sem vilja fá fleiri konur að borðinu, ungir menn og konur sem vilja koma þeim skilaboðum að í samfélaginu að fjölbreytileiki í stjórnunarteymi fyrirtækja er vænlegast til vinnings. Það eru grænmetisætur, kjötætur, vegans og yoga sérfræðingar í hópunum mínum, sálfræðingar, fjölmiðlafræðingar, hönnuðir og auðvitað forritarar svo fátt eitt sé nefnt.

Ef ég þyrfti í dag að setja eitt andlit á UT væri það andlit úrræðis og nýsköpunar. Andlit sem gefst aldrei upp og sér tækifæri inn í framtíðinni. Andlit sem spilar tónlist, hannar, býr til áður óþekkta heima og lausnir sem auðvelt er að tileinka sér og erfitt að vera án. Andlit sem segir að störf barna okkar séu óþekkt í dag. Andlit sem vill að þú eignist hlutdeild í iðnaðinum og skiljir að með framþróun opnast á tækifæri fyrir almenning þvert á greinar.

Grein unga fólksins

Líkt og álverin hafa verið iðnaður landsbyggðarinnar trúi ég því að UT sé iðnaður unga fólksins. Því í UT í dag lifir fólk í tækniveröld þvert á landamæri. Fólk sem hefur þörf fyrir að ferðast og mennta sig og vinna störf sem byggja m.a. á nýsköpun. Það vill hafa gaman í vinnunni og takast á við hið óvænta. Það vill vel launuð störf sem ganga ekki á auðlindir landsins. Heldur virkja hugarafl fólksins sem greinina byggja. Þeir fiska sem róa, ég var með allar stangir úti og afar heppin með aflann, í staðinn mun ég gera það sem í mínu valdi stendur til að styðja við iðnað í örum vexti. Að reglur í kringum greinina séu skýrar og umhverfið samkeppnishæft. Því hagsmunir greinarinnar eru hagsmunir okkar allra.

Höfundur: Elínrós Líndal Ragnarsdóttir
Viðskiptastjóri Upplýsingatæknifyrirtækja hjá Samtökum iðnaðarins. Elínrós sér um samtökin SUT, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, IGI, Samtök leikjaframleiðenda, DCI, Samtök gagnavera á Íslandi og SÍL, Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja.

Skoðað: 1968 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála