Skip to main content
24. mars 2016

Arduino - hvað er nú það?

grimurogflArduino er vettvangur sem samanstendur af nokkrum hlutum. Einföldu forritunartungumáli, litlum ódýrum tölvukubb og fjölda aukahluta sem hægt er að tengja við tölvukubbinn. Tölvukubburinn kemur í mörgum stærðum og getur verið eins lítill og tyggjópakki og allt að litlum snjallsíma, allt eftir því hvað nota á kubbinn í. Stærri kubbarnir bjóða upp á fleiri möguleika en þeir litlu, en litlu kubbarnir eru ódýrari og einfaldir. Allir kubbarnir innihalda svokallaða “I/O pins”, eða pinna sem taka við eða senda út merki. Þessi merki er svo hægt að nýta á ýmsa vegu.

Nytsemi Arduino í námi

Fullt af verkefnum hafa verið gerð með Arduino og mikið til af leiðbeiningum á netinu hvernig framkvæma eigi verkefnin. Auðvelt væri að leiðbeina nemendum á bæði grunn- og framhaldskóla stigi til að læra grunninn og láta svo hugmyndarflugið leiða þau áfram til að skapa ýmis konar tæki og tól sem nýtir sér Arduino. Til að gera spennandi hluti með Arduino þarf að forrita og tengja saman mismunandi hluta vélbúnaðar. Arduino er því tilvalið til að kenna undirstöðuatriði í forritun og rafmagsfræði. Arduino hentar vel til forritunarkennslu fyrir þá sem læra betur á því að gera og sjá afurðina. Á þessari síðu hérna er hægt að sjá tíu spennandi verkefni sem hægt að gera á auðveldan hátt og fylgir með hverju verkefni bæði uppskrift og myndband hvernig á að framkvæma.

Hvað er hægt að læra með hjálp Arduino

Arduino notar sitt eigið forritunartungumál sem allir geta lært. Því er hægt að gera ýmsa hluti með tölvukubbnum hvort sem þeir eru einfaldir eða flóknir. Eins og áður kom fram hentar Arduino sérstaklega vel til að kenna fólki einfalda forritun. Aðalmálið er hins vegar möguleikar tenginganna sem tækin bjóða upp á. Því hentar Arduino öllum sem vilja læra undirstöðuatriði rafmagnsfræði á uppbyggilegan og nytsamlegan hátt.

Internet of Things

Internet of Things er hugtak sem nær yfir áþreifanlega hluti sem tengjast netinu. Arduino getur leyft fólki að tengja hina ýmsu hluti við netið, svo sem ísskáp, þvottavél, ljós, kaffivélar og lengi mætti telja. Arduino gæti til dæmis tekið við úttaki frá vél eins og þvottavél til að sjá hvort hún sé búin eða ekki, og kóðinn gæti þá leyft notandanum að fá áminningu í símann sinn um að taka þurfi úr vélinni. Litlu kubbarnir gætu verið tengdir hvor tveggja við ljósin og netið, þá væri hægt að kveikja og slökkva ljósin á heimilinu í gegnum síma eða tölvu.

Svipaðir hlutir

Raspberry Pi er svipað og Arduino á margan hátt en líkist þó meira tölvu. Arduino er ætlað þeim sem vilja vinna í vélbúnaðinum og stilla hvaða straumur fer á hvern vír. Raspberry Pi er hins vegar ætlað þeim sem vilja vinna í hugbúnaðinum og er því búið að hjúpa vélbúnaðinn til að einfalda þann hluta.

Okkar reynsla

Í tölvunarfræðinni í HR er verkefni í einum áfanga þar sem Arduino er nýtt. Þar eiga nemendur að kynnast því að nota Arduino til að gera einfalda hluti auk þess að búa til eitthvað nýtt sjálfir. Við höfðum virkilega gaman af þessu verkefni og lögðum mikinn metnað í að búa til flotta hluti með Arduino. Eftir reynslu af Arduino héldu sumir okkar áfram og keyptu sér Raspberry Pi til að prófa sig áfram í mismunandi verkefnum.
Hægt er að gera mikið með þessi tæki og við mælum með að áhugasamir kaupi sér svona búnað og byrji að prófa sig áfram.

Höfundar: Benjamín Björn Hinriksson, Grímur Kristinsson og Matthías Skjöldur Sigurðsson, nemendur í Háskólanum í Reykjavík

Heimildir:

[1] S. Seow, "Arduino for beginners," í http://arduino-for-beginners.blogspot.is/2010/11/so-many-types-of-arduino-which-one.html , 2010. [Vefsíða]. Af: http://2.bp.blogspot.com/_PAclycV2tbY/TNgYtgrpchI/AAAAAAAAAUY/UXNcwy3VOOI/s1600/All+Arduino+2.jpg  Sótt: Feb. 22, 2016.

[2] B. Clark and E. Mallon, "10 great Arduino projects for beginners," in Makeuseof, Ed Mallon, 2015. [Vefsíða]. Af: http://www.makeuseof.com/tag/10-great-arduino-projects-for-beginners/  Sótt: Feb. 22, 2016.

Skoðað: 3190 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála