Áhrif samfélagsmiðla á daglegt líf
Friðhelgi einkalífs hefur verið mikið í umræðunni síðustu ár. Þar til samfélagsmiðlar komu inn á sjónarsviðið hafði friðhelgi einkalífs verið mun meiri. Magn viðkvæmra upplýsinga sem fólk lætur af hendi hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Það hefur breyst mikið hvað fólki finnst eðlilegt að vita um aðra og hvað að aðrir viti um það. Við deilum myndum, upplýsingum um menntun, vinnu, hverjir vinir okkar og kunningjar eru og fleira í þeim dúr.
Við samþykkjum notendaskilmála t.d. Google sem heimila það að fyrirtækið fylgist með því hverju við leitum að og hvað við skoðum, svo gott sem án þess að hugsa okkur tvisvar um. Það getur vissulega verið mjög gagnlegt og þægilegt að hver og einn fái t.d. auglýsingar sem höfða til hans. Einnig er mjög gagnlegt að Google leitarvélin lærir á notandann, ef notandi „googlar“ mikið um ketti þá eru kattatengdar niðurstöður líklegri til að koma upp þegar þú „googlar“ allt annað [1]. Þó svo að upplýsingasöfnun hafi margt jákvætt í för með sér þá er vert að íhuga hvort þessi þægindi séu þess virði. Er friðhelgi einkalífs okkar ekki lengur til staðar? Eða er hún það aðeins í okkar augum? Er hægt að eiga sér einkalíf á upplýsingaöldinni?
Umræðan um friðhelgi einkalífsins vekur upp margar spurningar. Getur þú átt þér einkalíf ef þú vilt það? Ef þú hunsar samfélagsmiðla, ert ekki mikið á netinu og ert yfirhöfuð ekki að deila miklu um sjálfan þig, þá myndir þú jafnvel halda að öryggi þinna persónuupplýsinga væri nokkuð tryggt . En það er í mjög mörgum tilfellum alls ekki rétt. Staðreyndin er sú að þú hefur talsvert minni stjórn á því hverju er deilt um þig vegna þess þú einfaldlega sérð það ekki. Þótt aðeins ein vinkona þín væri á samfélagsmiðlum þá mættir þú vera viss um að það er einhverjum upplýsingum deilt um þig. Miklar líkur eru á því að það sé allavega ein mynd af þér á samfélagsmiðlum og það veit jafnvel einhver óviðkomandi hvað þú varst að borða í gær.
Fólk sem velur það að vera á samfélagsmiðlum velur samt ekki endilega að upplýsingum um það sé deilt. Þú hefur val um að setja stillingarnar þínar á „private“ og þá er minna af upplýsingum um þig sjáanlegar almenningi. En hvað með alla vini þína á Facebook? Þeir geta deilt öllu sem þú gerir með fólki sem þú hefur ekki samþykkt að sjái upplýsingar um þig. Þú einfaldlega ert alltaf í þeirri stöðu að hvað sem þú gerir gæti farið lengra. Því er okkar svar við þessari spurningu að það sé mjög erfitt að eiga sér einkalíf nú til dags.
En höfum við yfir höfuð áhuga á því að vernda friðhelgi einkalífs okkar? Í dag er gríðarlegur fjöldi fólks mjög upptekinn af samfélagsmiðlum. Flestir hafa allavega Facebook-aðgang og deila þar ýmsum upplýsingum. Fólki finnst í minna mæli nauðsynlegt að vernda eigin friðhelgi. Fólk sækist eftir því að sem flestir sjái efnið sem það er að deila. Séu það skoðanir, máltíðir, félagsskapur eða auglýsingar.. Við erum bókstaflega ónæm fyrir því hversu miklu við deilum. Það væri jafnvel hægt að segja að okkur sé alveg sama um það. Í raun sækjumst við frekar eftir því að efnið nái til sem flestra. Spurningar sem vert er að varpa fram eru m.a. erum við að deila of miklu?Hvaða áhrif getur það haft? [2]
Verðmæti og áhrif persónuupplýsinga
Ef einhver hefði sagt foreldrum okkar árið 1970 að einn daginn væri hægt að hafa atvinnu af því að sýna fólki myndir af sér, þá hefðu þau eflaust hlegið upp í opið geðið á þeim. Í dag er raunin sú að það er ekki aðeins hægt, heldur hefur fjöldi fólks atvinnu af því að deila myndum á samfélagsmiðlum eða að halda úti eins konar dagbók á youtube-rásum. Þetta fólk getur verið að hala inn peningum.
Það virðist vera orðið þannig að án þess að almenningur geri sér grein fyrir því þá eru persónu-upplýsingar okkar misverðmætar. Séu þær upplýsingar sem þú deilir nægilega verðmætar er til fjöldinn allur af fólki sem langar að fylgjast með þér, þetta fólk í daglegu tali kallaðir „fylgjendur“. Fólk sem hefur atvinnu af samfélagsmiðlum keppist við það dag og nótt að gera sig sem allra áhugaverðast og öfundsverðast með því að mála glansmynd af daglegu lífi sínu. Fylgjendur fyllast aðdáun á þessu fólki. Þar sem að það er í raun ekki að sýna sérstaka hæfileika þá er auðveldara fyrir almenning að tengjast þeim.
Fyrirtæki vita nákvæmlega hversu vel þetta virkar. Ef fólk fylgist með slíkum samfélagsmiðlastjörnum hefur það oftar en ekki dálæti á þeirra lífsstíl. Ef fylgjendur sjá svo stjörnuna með ákveðnar vörur tengir fólk þær tilfinningar sem það hefur til manneskjunnar við vöruna, og er líklegra til þess að vilja eignast hana [3]. Þvílíkur draumur fyrir til dæmis unga stelpu, að fá borgað fyrir að sýna öllum hvað hún á flotta hluti og frábært líf!
Hugsum áður en við deilum
Annað dæmi um hvað máttur samfélagsmiðla getur verið mikill og misgóður er sagan af Justine Saccos. Hún var með Twitter-aðgang en fylgjendur hennar voru ekki margir, aðeins 170. Dag einn átti hún flug til Suður-Afríku. Hún, vitandi það að vinir hennar þekkja hana og myndu allir skilja hennar húmor, tístir rétt áður en hún fer 11 tíma flug eftirfarandi: „Going to Africa. Hope I don’t get Aids. Just kidding. I’m white!“. Hún hló með sjálfri sér þegar hún deildi færslunni, hugsandi til þess hvað vinir hennar myndu kunna að meta þessa ádeilu á fáfræði hvítra manna. Á þessum 11 tímum sem það tók hana að fljúga til Suður-Afríku átti sér stað ótrúlegur atburður, sem á sér samt óþarflega margar hliðstæður. Twitter fer á hliðina. Myllumerkið #hasjustinelandedyet varð vinsælasta myllumerkið á samfélagsmiðlinum um gervalla veröld [4].
Siðadómstóll Twitter var síður en svo ánægður með þennan svarta húmor og Justine var útmáluð sem fáfróður rasisti og ógeðfelld mannvera sem átti ekki skilið að vera til. Kraftur Twitter var svo mikill og fór svo mikið úr böndunum að áður en Justine lenti var hún búin að missa vinnuna sína og mannorð hennar var í molum [4].
Af þessu má læra að maður þarf að vanda vel valið á því sem maður ákveður að leggja fyrir siðadómstól netheima. Hún hafði aðeins ætlað sínum fylgjendum sem hún vissi að þekktu sig að sjá þetta tíst. Hún fékk engu um það ráðið. Hversu margir ætli geri sér grein fyrir því að þetta sé raunveruleikinn. Það getur hver sem er tekið skjáskot eða hvað eina til þess að deila því sem þú hafðir aðeins ætlað þínum. Og það með skelfilegum afleiðingum.
Hvað erum við tilbúin til þess að samþykkja?
Löngum var það þannig að enginn nennti að spá í notendaskilmála, hvað sem þeir vörðuðu. Fólk samþykkti bara og hélt áfram sínu lífi án þess að hafa hugmynd um hvað það var að samþykkja. Þetta er að hluta til fyrirtækjum að kenna, þar sem að oft er gert í því að hafa langa skilmála, í óaðlaðandi leturgerð, í lítilli leturstærð; sem gerir textann mjög fráhrindandi. Það er einmitt til þess gert að fólk sleppi því að lesa skilmálana. Þá voru fyrirtæki að áskilja sér rétt á því að nálgast, geyma og nota upplýsingar eftir eigin þörfum. Í dag er að eiga sér stað ákveðin vitundarvakning hvað varðar notendaskilmála. Fólk er að gera sér grein fyrir því hversu mikil söfnun á persónuupplýsingum er að eiga sér stað, og að fyrirtæki séu að safna upplýsingum sem í raun koma þeim og rekstri þeirra ekki við. Auðvitað eru til fyrirtæki sem eru að safna upplýsingum í vafasömum tilgangi.
Raunin er sú að oftast er ekki hægt að tengja þessar upplýsingar við ákveðnar manneskjur og upplýsingarnar eru eingöngu seldar sem „big data”. Það er því mjög mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvað það er að samþykkja, en á sama tíma virðist vera ákveðið mynstur í dag að í hvert sinn sem að þessum skilmálum er breytt, þá verður allt vitlaust í netheimum. Þessi stóru, illu fyrirtæki séu nú að fara að brjóta öll sín loforð og nota okkar persónulegu upplýsingar sem við treystum þeim fyrir. En eftir örskamma stund erum við hætt að vera reið, nánast búin að gleyma breytingunum og farin að einbeita okkur að einhverju öðru. Þetta hefur orsakað það að þær upplýsingar sem okkur finnst eðlilegt að samfélagsmiðlar séu að safna um okkur eru orðnar sæmilega persónulegar.
Sem dæmi má nefna að nýlega varð breyting á notendaskilmálum Snapchat. Allt varð vitlaust. Þekktir einstaklingar tístuðu um meinta skelfilega hluta þessara nýju skilmála. Kal Penn tístaði til dæmis eftirfarandi: ,,Read the new @Snapchat privacy/legal policies before deciding whether to click yes. Scary stuff in there, kids." [5].
Úr þessu tísti má lesa að Snapchat sé með eitthvað hræðilegt á prjónunum. Raunin er sú að fæstir kynna sér málið umfram þessi tíst sem þeir reka augun í. Snapchat var á vissan hátt tekið af lífi í netheimum, sagt var að forsendurnar fyrir því að fólk samþykkti að nota forritið í upphafði væri nú brostnar. Raunin var sú að það eina sem skilmálarnir þýddu var að Snapchat áskilur sér rétt á því að nota efni notenda á þann hátt sem þeir vilja, ef og einungis ef notendur senda það sjálfviljugir inn í opnar rásir forritsins. Opnar rásir eru rásir sem allir notendur Snapchat geta séð. Aðeins er hægt að senda efni þangað inn með því að samþykkja að allir megi sjá það og að Snapchat megi nota efnið í hverjum þeim tilgangi sem þeir kjósa.
Það efni sem þú sendir vinum þínum og inn á rásir sem flokkast ekki undir „crowdsourced“-rásir er alltaf eytt eftir að það hefur verið skoðað. Ef móttakandi skoðar aldrei skilaboðin þá er þeim eytt eftir 30 daga. Þetta hefur því ekkert breyst frá upphafi! Engar forsendur eru brostnar [6].
Í rauninni er enn hægt að treysta Snapchat og flestum samfélagsmiðlum upp að því marki að aðrir notendur geta geymt efnið og dreift því, kjósi þeir svo.
Friðhelgi einkalífs er ekki því dauð. Hún er að öðlast nýja merkingu. Hún er í höndum annarra.
Höfundar: Karítas Ólafsdóttir, Sólveig Sif Guðmundsdóttir, Þórhildur Guðný Sigþórsdóttir nemendur við Háskólann í Reykjavík
Heimildaskrá
[1] Sullivan, Danny. "How Google Now, Siri & Cortana Predict What You Want." Search Engine Land . N.p., 18 Sept. 2015. Retreived 02 Nov. 2015, from https://searchengineland.com/how-google-now-siri-cortana-predict-what-you-want-229799
[2] Meeks, Brock N.(2000, December 8) "Is Privacy Possible in the Digital Age?" Msnbc.com . MSNBC, Retreived 03 Nov. 2015, from http://www.nbcnews.com/id/3078854/t/privacypossibledigitalage/
[3] Hunt, E. (2015, November 3). Essena O'Neill quits Instagram claiming social media 'is not real life' Retrieved November 3, 2015, from https://www.theguardian.com/media/2015/nov/03/instagram-star-essena-oneill-quits-2d-life-to-reveal-true-story-behind-images
[4] Ronson, J. (2015, February 14). How One Stupid Tweet Blew Up Justine Sacco’s Life. Retrieved November 3, 2015. from https://www.nytimes.com/2015/02/15/magazine/how-one-stupid-tweet-ruined-justine-saccos-life.html
[5] Heath, Alex. (2015, October 30). Why you don't need to freak out about Snapchat's new privacy policy. Retrieved November 3, 2015, from https://www.businessinsider.com.au/snapchat-privacy-policy-update-explained-2015-10
[6] Privacy Policy • Snapchat. (2015, October 28). Retrieved November 3, 2015. from https://www.snapchat.com/privacy
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.