Skip to main content
16. október 2014

Undraheimar vitvélanna

Kristinn-288x300Dr. Kristinn R. Þórisson, dósent við tölvunarfræðideild HR og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands, birti ásamt samstarfsmönnum sínum, grein á alþjóðlegri ráðstefnu í Portúgal í sumar. Í ritgerðinni er tímamótarannsóknum á sviði gervigreindar lýst, þar sem sýndarvélmennið S1 er í aðalhlutverki.

S1 er fyrsta sjálfvirka kerfið sem getur lært flókið verk, án leiðbeininga, með því að fylgjast með hvernig það er framkvæmt. Þann 31. október nk. verður haldin Gervigreindarhátíð á vegum Vitvélastofnunar og Gervigreindarseturs HR þar sem fjallað verður um nýjungar á sviðinu og Kristinn mun meðal annars lýsa rannsóknunum á bak við þróun S1.

Sýndarvélmenni í sjónvarpsviðtali

Gervigreinda sýndarvélmennið S1 lærir að taka sjónvarpsviðtal með því að fylgjast með manneskjum taka viðtal hvor við aðra, án þess að fá upplýsingar fyrirfram um setningaskipan eða yfir höfuð hvernig framkvæma eigi verkið. „ Við látum S1 aðeins fá abstrakt lýsingu á markmiðum þátttakenda í viðtalinu – markmið spyrilsins er að fá þann spurða til að tala, og markmið þess spurða er að svara spyrlinum eftir bestu getu. Markmiðunum er lýst í örstuttu forrit — um 2 blaðsíður að lengd — sem S1 fær í upphafi. Það er svo vélmennisins að komast að því hvernig hægt er að ná þessum markmiðum.“ Eftir að fylgjast með í um 20 klukkustundir gat S1 tekið viðtal við manneskju á nákvæmlega sama máta þar sem notaðar eru handa- og höfuðhreyfingar í samræmi við það sem gerist þegar manneskjur tala saman og fullkomlega réttum setningum um endurvinnslu ýmissa hluta, setningar á borð við „Compared to recycling, making new paper produces thirty-five percent more water pollution” sem S1 semur á staðnum í ljósi undangenginna setninga.  S1 getur hvort sem er tekið að sér hlutverk spyrils eða þess spurða.

Getur lært hvað sem er

„ Menn hafa verið að skrifa um og spá í þetta síðustu 50-60 árin og Alan Turing skrifaði snemma á 20. öld um það sem hann kallaði „baby machines“. Kerfið okkar er hið fyrsta þar sem sýnt er hvernig er hægt að hanna svona kerfi,” segir Kristinn. „S1 getur lært hvaða verkefni sem er, svo fremi sem hægt sé að lýsa tilganginum á mælanlegan hátt – til dæmis að markmið spyrils sé að spyrja og svo framvegis. Það eru í raun enginn takmörk fyrir því hvað S1 getur lært svo fremi sem það sé skýrt hver markmiðin eru.“  Í tilefni verðlaunanna hefur vísindaritið IADIS Journal of Computer Science & Information Systems boðið Kristni og félögum að undirbúa greinina til birtingar í heiðursútgáfu ritsins á næsta ári.

Um Gervigreindarhátíð http://www.ru.is/td/frettir/vidburdir/nr/31351

Guðbjörg Guðmundsóttir, textagerðarmaður við HR tók viðtalið

Skoðað: 2721 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála