Skip to main content
4. september 2014

Stærðfræði og listsköpun

Erik Demaine„Bæði list og stærðfræði snúast um að hafa hugmynd og að koma henni í framkvæmd með sannfærandi hætti; að leysa afmarkað vandamál eða dæmi þar sem lausnin þarf að vera góð og jafnvel falleg. Í raun má ekki greina á milli vísinda og lista því stærðfræðin sjálf er listform.“ -Erik Demaine

Þekkingarsetur í fræðilegri tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík (ICE-TCS) stóð, ásamt Vísindafélagi Íslendinga, að viðburðinum „Krossgötur lista og vísinda“ í HR í lok ágúst.

Lengi hefur verið fjallað um listir og vísindi sem andstæða póla, líkast dag og nótt. Fyrr á öldum voru þessi mörk þó ekki eins áberandi og nægir að nefna helstu hugsuði og frumkvöðla endurreisnartímans. Með viðburðinum var leitast við að rökstyðja að aðskilnaður milli lista og vísinda væri mistök. Þrír vísindamenn sem starfa bæði við listsköpun og vísindi héldu erindi um hvernig sameining þessara tveggja mikilvægu sviða getur hjálpað til við lausnir á fræðilegum vandamálum og við sköpun listar.  

Aðalfyrirlesari var Erik Demaine sem er frumkvöðull á sviði reiknilegra pappírsbrota (e. computational origami) og notar rúmfræði og tölvunarfræðilegar aðferðir til að sýna fram á nýja tækni við gerð skúlptúra. Listaverk hans hafa verið sýnd víða, meðal annars í MoMA í New York, og í ár birtast þau á yfir 20 listsýningum. Erik er jafnframt yngsti prófessor sem ráðinn hefur verið við MIT-háskóla í Boston. Rannsóknir Eriks Demaine tengja með mjög áþreifanlegum hætti saman vísindi og list. Þær stærðfræðikenningar sem hann þróar sannreynir hann með því að gera skúlptúra sem byggja á stærðfræðiformúlum.

20140821 171448 resized 1

Einnig héldu erindi á fundinum þau Anna Hrund Másdóttir, listamaður og stærðfræðikennari og Kjartan Emilsson, eðlisfræðingur og tæknilegur stjórnandi hjá CCP í Shanghai.  

Ef lesendur eru forvitnir um Erik Demaine og rannsóknir hans bendum við á þetta myndband sem hann gerði þegar honum voru veitt Presburger-verðlaunin árið 2013: http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=ROYIVVZ5gvE

Hér er síðan vefurinn hans og wikipedia og fyrir þá sem vilja enn meira þá eru hér vídeó: http://icetcs.ru.is/crossroads-art-science/ og
http://icetcs.ru.is/theory-day2014.html

Höfundur: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Skoðað: 2870 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála