Skip to main content
24. október 2013

Áhrif tölvutækni á samskipti barna og unglinga

Erna og ElísaUndanfarin ár hefur orðið mikil þróun í tölvutækni og þessi þróun hefur meðal annars haft þau áhrif að samskipti fólks í gegnum Internetið hafa aukist. Flest ungmenni í dag nota Internetið í miklu mæli og árið 2009 voru 65% unglinga í Bandaríkjunum með aðgang að samskiptasíðunni Facebook (S. Jones og Fox, 2009). Í rannsókn Valkenburg og Peter (2007) kom í ljós að 61% barna á aldrinum 10-11 ára og 88% unglinga á aldrinum 12-16 ára í Þýskalandi notuðu Internetið til þess að eiga samskipti.

Fólk hefur misjafnar skoðanir á þessari samskiptaleið og telja margir hana bæði neikvæða og hættulega. Þessir einstaklingar óttast að samskipti í gegnum Internetið geti stuðlað að auknu einelti og að ungmenni fari að þróa með sér óheilbrigt samband við ókunnuga einstaklinga. Þetta þarf ekki alltaf að vera raunin því niðurstöður rannsóknar Valkenburg og Peter (2007),  á samskiptum barna og unglinga á Internetinu og vinasamböndum þeirra, leiddi í ljós að meirihluti þátttakenda sagðist nota Internetið til þess að hafa samskipti við nána vini sína (Valkenburg og Peter, 2007).

Það eru ekki allir sem telja Internetsamskipti neikvæð, margir telja þau geta hjálpað einstaklingum að þróa náin vinasambönd sín á milli. Í fyrrnefndri rannsókn Valkenburg og Peter (2007) sögðu 30% þátttakenda að þeir ættu auðveldara með að tala um persónuleg málefni á Internetinu. Niðurstöður úr rannsókn Schouten, Valkenburg og Peter (2007) sýndu að þýsk ungmenni vildu frekar ræða persónuleg málefni eins og ást og kynlíf ásamt hlutum sem þeir skömmuðust sín fyrir, á Internetinu fremur en augliti til auglitis við annan einstakling (Schouten, Valkenburg og Peter, 2007). Niðurstöður Valkenburg og Peter (2007) sýndu einnig að 32% þátttakenda sem sögðust vera einmana töldu samskipti í gegnum Internetið vera gagnlegri en bein samskipti samanborið við 19% þátttakenda sem töldu sig ekki vera einmana. Einnig voru samskipti í gegnum Internetið tengd nánum vinasamböndum ungmenna á jákvæðan hátt.

Eins og ofangreindar rannsóknir hafa sýnt þá virðast vera skiptar skoðanir á því hver áhrif tölvutækninnar eru á samskipti barna og unglinga. Þessar rannsóknir hafa sýnt fram á bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar. Samskipti í gegnum Internetið geta hjálpað einstaklingum að finna sig, mynda náin vinasambönd ásamt því að þau geta veitt stuðning. Bæði börnum og unglingum virðist finnast betra að opna sig við vini sína í gegnum Internetið en áhugavert væri að vita hver ástæða þess er að börn og unglingar velja fremur Internetsamskipti fram yfir bein samskipti.

Það má þó ekki gleyma því að samskipti í gegnum Internetið geta hjálpað einstaklingum sem glíma við félagskvíða. Þessir einstaklingar eiga í erfiðleikum með að vera í margmenni og getur það leitt til félagslegrar einangrunar og þá er betra að þessir einstaklingar eigi samskipti í gegnum Internetið frekar en ekki nein samskipti. Í dag er líka boðið upp á meðferð við félagskvíða í gegnum Netið. Þó að deila megi um notagildi þess konar meðferðar þá er líklegt að einstaklingar með mikinn félagskvíða sjái sér fært að vinna á vandamálinu í gegnum Netið og það er þá að sjálfsögðu betra en að takast ekki á við vandamálið. Einnig hafa netsamskipti bætt líðan fólks sem er einmana eða félagslega einangrað af einhverri ástæðu annarri en félagskvíða.

Þó að vissulega megi finna jákvæðar hliðar á áhrif tölvutækni á samskipti barna og unglinga þá virðist neikvæða hliðin ávallt vera meira í umræðunni. Hætturnar geta leynst víða og er ein aðal áhættan er sú að börn og unglingar eiga á hættu að vera plataðir í gegnum Internetið.

Því miður er raunin sú að fólk villir á sér heimildir og algengt er að einstaklingar nálgist börn og/eða unglinga í gegnum samskiptasíður eins og Facebook og hér áður fyrr MSN og reyni að fá þau til þess að hitta sig í misjöfnum tilgangi. Börn og unglingar eru mjög berskjölduð fyrir þessu og því þurfa foreldrar og forráðamenn að vera á varðbergi í sambandi við tölvunotkun barna/unglinga.

Annað sem vert er að nefna er að einelti á Internetinu hefur aukist á síðustu árum og hafa rannsóknir sýnt að samskiptasíður á netinu ýta undir einelti þar sem að börn og unglingar hafa notað síður eins og Facebook og Myspace til þess að skrifa niðrandi athugasemdir á síður fórnarlamba (Jones, Mitchell og Finkelhor, 2013).

Það er nokkuð ljóst að þróun tölvutækni hefur haft mikil áhrif á samskipti barna og unglinga. Spurningin er: Er eitthvað hægt að gera til þess að beina þessum samskiptum í rétta átt?.  Viljum við að þróunin verði þannig að náin bein samskipti milli barna og unglinga minnki með aukinni tölvutækni?. Það þarf að finna ákveðið jafnvægi og hvetja börn til þess að leita meira samskipta utan tölvuheimsins. Að sjálfsögðu er það gott að börn geti opnað sig fyrir hvert öðru en það er líka mikilvægt að þau geti haft eðlileg samskipti utan tölvuheimsins.

Til þess að koma í veg fyrir þessar neikvæðu afleiðingar Internetsamskipta sem rætt hefur verið um hér að ofan þá er nauðsynlegt að foreldrar séu stöðugt á varðbergi þegar að börnin þeirra nota Internetið. Í dag er hægt að loka á ákveðnar síður svo ekki er hægt að komast inn á þær. Það getur þó verið erfitt þar sem að síður eins og Facebook, Twitter og Myspace eru orðnar stór hluti samfélagsins í dag og í raun hálfgerð nauðsyn fyrir unglinga og erfitt að standa fyrir utan þá. Það má til dæmis nefna það að margir kennarar í framhaldsskólum eru farnir að setja upp hópa á Facebook fyrir nemendur sína og miðla þannig til þeirra upplýsingum.

Það er líka nauðsynlegt að koma í veg fyrir það að börn og unglingar séu ekki í tölvunni meirihluta sólarhrings og hvetja þau til þess eiga í beinum samskiptum við vini sína en rannsóknir hafa sýnt að þegar Internetnotkun einstaklinga verður óhófleg og minna er um bein samskipti þá hefur það neikvæð áhrif á sjálfsmynd einstaklingsins (Kim og Davis, 2009). Þetta þarf því að varast og við þurfum að reyna að hvetja börn og unglinga til að losa sig frá tölvunni og hitta vini sína augliti til auglitis.

Höfundar: Elísa Þorsteinsdóttir og Erna Ýr Styrkársdóttir, nemendur í sálfræði við Háskólann í Reykjavík

Heimildir

Jones, L. M., Mitchell, K. J. og Finkelhor, D. (2013). Online harassment in context: Trends from three Youth Internet Safety Surveys (2000, 2005, 2010). Psychology of Violence, 3(1), 53–69. doi:10.1037/a0030309
Jones, S. og Fox, S. (2009). Generations explained | Pew Internet & American Life Project. Sótt 1. október 2013 af http://pewinternet.org/Reports/2009/Generations-Online-in-2009/Generational-Differences-in-Online-Activities.aspx
Kim, H.-K. og Davis, K. E. (2009). Toward a comprehensive theory of problematic Internet use: Evaluating the role of self-esteem, anxiety, flow, and the self-rated importance of Internet activities. Computers in Human Behavior, 25(2), 490–500. doi:10.1016/j.chb.2008.11.001
Schouten, A. P., Valkenburg, P. M. og Peter, J. (2007). Precursors and Underlying Processes of Adolescents’ Online Self-Disclosure: Developing and Testing an „Internet-Attribute-Perception“ Model. Media Psychology, 10(2), 292–315. doi:10.1080/15213260701375686
Valkenburg, P. M. og Peter, J. (2007). Preadolescents’ and Adolescents’ Online Communication and Their Closeness to Friends. Developmental Psychology, 43(2), 267–277. doi:10.1037/0012-1649.43.2.267
Valkenburg, P. M. og Peter, J. (2009). The Effects of Instant Messaging on the Quality of Adolescents’ Existing Friendships: A Longitudinal Study. Journal of Communication, 59(1), 79–97. doi:10.1111/j.1460-2466.2008.01405.x

 

 
Skoðað: 4497 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála