Skip to main content
25. apríl 2013

Svörun - sjálfvirk greining svarboða frá viðbragðsaðilum

olijonAllan sólarhringinn, allt árið um kring, eru mörg hundruð félagar í björgunarsveitum tilbúnir til þess að mæta í útköll um allt land. Þegar kallað er út fær björgunarfólk SMS frá Neyðarlínu með grunnupplýsingum um aðgerðina, s.s. málsatvik og staðsetningu. Í dag er undir hælinn lagt hvort og hvernig björgunarfólk svarar þessum boðum sem skapar óvissu í byrjun aðgerða um hvort og hvernig muni takast að bregðast við.

Þörfin fyrir nákvæmar upplýsingar

Þegar björgunarfólk er kallað út í aðgerð skiptir miklu máli að vita hve margir muni mæta og hvaða hæfni þetta fólk býr yfir. Sumar aðgerðir krefjast ákveðinnar sérþekkingar eins og t.d. fyrir björgun í fjalllendi eða sérhæfða leit. Hjálparsveit skáta í Reykjavík (HSSR) er ein fárra sveita sem áður buðu upp á svörun útkallsboða með SMS, sem var byltingarkennd nýjung á sínum tíma, en sú aðferð sem þar var beitt bauð ekki upp á sjálfvirka úrvinnslu svarboða né dreifða úrvinnslu þeirra. Það var því tímafrekt að yfirfara svarboð og það þurfti að gerast á þeim stað þar sem GSM síminn var staðsettur.

Þetta varð til þess að greinarhöfundur ákvað í byrjun árs 2012 að gera tilraun með veflæga lausn sem tæki á móti SMS svarboðum frá björgunarfólki, greindi þau sjálfkrafa og byði upp á ákveðna úrvinnslumöguleika sem auðvelduðu myndun hópa og miðlun upplýsinga. Afurðin er Svörun, kerfi sem byggt er í PHP/jQuery/MySQL og birt í Bootstrap HTML viðmótinu frá Twitter sem aðlagar sig að stærstu borðskjám, spjaldtölvum og smæstu handsímum. Áhersla var lögð á að kerfið væri létt, hraðvirkt og virkaði á allar gerðir vinnustöðva og hefur það gengið eftir. Spjaldtölvur og farsímar njóta sívaxandi vinsælda sem fyrstu vinnustöðvar fólks sem er á ferðinni og það gildir ekki hvað síst um björgunarfólk. Vegna þessa þarf að gera ráð fyrir síaukinni notkun þessara tækja og er hún ein af grundvallar forsendum í hönnun og þróun Svörunar.

Vert er að halda því til haga að án dyggrar aðstoðar frá Símanum hefði þetta verkefni líklega seint komist af hugmyndastiginu. Tæknideild hans var boðin og búin til þess að leysa öll vandamál sem upp komu í tengslum við þetta verkefni og afgreiddi hún öll sín úrlausnarefni hratt og vel.

Sjálfvirk greining svarboða

Forsendan fyrir sjálfvirkri greiningu á svörum félaga liggur í stöðlun svarboða, en í dag er boðið upp á þrjá svarmöguleika. Sá sem ætlar að mæta strax, t.d. kl. 13:15, svarar með boðunum M1315, sá sem mætir ekki strax en getur mætt síðar, t.d. kl. 17:15, svarar GM1715 og sá sem getur alls ekki mætt sendir skilaboðin ME. Björgunarfólk getur uppfært svarboð sín í Svörun með því að senda einfaldlega annað SMS með nýjum upplýsingum. Sem dæmi má taka félaga sem búinn var að svara með M1315. Ef hann sér að hann muni tefjast um 15 mínútur, þá sendir hann einfaldlega ný boð með svarinu M1330 og uppfærist þá svar hans í kerfinu til samræmis.

olijon2

Reynsla okkar í HSSR er sú að rúmlega 92% svara eru skv. þessum skilgreiningum og er sá árangur umfram væntingar. Þetta hefur gert svokölluðum bækistöðvarhópi HSSR, hópur sem skipuleggur viðbragð sveitarinnar í útköllum, kleift að vinna með betri og nákvæmari upplýsingar og setja þ.a.l. saman hópa sem best henta í hverju útkalli fyrir sig. Það getur nefnilega skipt miklu máli hvort von sé á ákveðnum félaga í hús eftir 5 eða 15 mínútur þegar tekin er ákvörðun um hvort senda eigi bíl af stað strax eða bíða örlítið. Gott yfirlit yfir mætingu veitir þessar upplýsingar.

Dreifð vinnsla

Einn af lykilkostum Svörunar er sá að með miðlægum upplýsingagrunni er hægt að gera vinnsluna dreifða. Þannig geta ákveðnir félagar í stórum bækistöðvarhópi kosið að halda ekki af stað í hús þegar útkall berst, heldur halda kyrru fyrir og byrja að vinna í Svörun með því að yfirfara mætingu og skrá niður upplýsingar sem berast í fjarskiptum. Á fyrstu mínútum aðgerða skiptast aðilar oft á upplýsingum sem hagnýtar eru fyrir aðgerðina og því getur verið gott að grípa þær strax og skrá.

olijon4

Samlegðar- og hagræðingaráhrif

Með dreifðri vinnslu úr sameiginlegum grunni nást fram margvíslegir aðrir kostir. Stærstan þeirra má telja þá yfirsýn sem svæðisstjórnir fá á mætingu einstakra hjálparsveita. Svæðisstjórnir hafa með höndum yfirstjórn á aðgerðum og markast áætlanagerð þeirra helst af því hvers konar björgum, björgunarfólki og tækjum, þær geta reiknað með. Með næstu útgáfu af Svörun verður hægt að birta mætingu hjá sveitum á gefnum svæðum í einfaldri yfirlitsmynd þannig að svæðisstjórnarmenn hafi ætíð sem besta vitneskju um hvers þeir geti vænst.

Þessi þáttur í Svörun mun vonandi leiða til ákveðinnar hagræðingar í útkallsstarfi björgunarsveita því með aukinni yfirsýn og nákvæmum upplýsingum um svörun félaga eiga svæðisstjórnir að geta haft boðun félaga hóflegri. Í dag er málum þannig háttað að skjólstæðingur björgunarfólks er látinn njóta vafans og því eru oft fleiri félagar kallaðir út er raunverulega er þörf á. Með Svörun verður hægt að byrja á hóflegri boðun, taka stöðuna eftir nokkrar mínútur og bæta í sé ljóst að þess gerist þörf.

Viðbætur við Svörun

Kjarninn í Svörun er vefviðmót, gagnagrunnur og bakendi sem vinnur úr og birtir upplýsingar um mætingu fyrir stjórnendur. Það er hins vegar hægt að bæta við tveimur aukahlutum sem auðvelda stjórnendum og almennum félögum vinnu sína, en það er annars vegar útstöð fyrir innskráningu félaga í hús og hins vegar skjár þar sem upplýsingar um hópaskipan er birt til glöggvunar fyrir félaga. Þetta léttir mikið á stjórnendum, enda skrást upplýsingar um mætingu í hús sjálfkrafa inn í Svörun og félagar geta sjálfir borið sig eftir upplýsingum um það í hvaða hópum þeir eru. Þá birtast einnig upplýsingar um hópstjóra, fjarskiptabúnað og farartæki á þessum skjá.

Þessu til viðbótar er rétt að benda á að gott er fyrir stjórnendur í húsi að nota spjaldtölvu til þess að glöggva sig á mætingu því þannig geta þeir verið á ferðinni, talað við félaga og miðlað upplýsingum í stað þess að vera njörvaðir við borðtölvu.

Stefjan

Röskur félagi í HSSR, Julien Oberlé, hefur skrifað stefju (e. app) fyrir Android stýrikerfið sem einfaldar svörun félaga og gerir hana nákvæmari. Stefjan hefur notið mikilla vinsælda og er nú svo komið að rúmlega helmingur virkra félaga á útkallsskrá notar hana. Ákveðnar hugmyndir um stefjusmíðar fyrir önnur stýrikerfi eru í gangi og vonandi geta þær gengið eftir. Það hefur sýnt sig að notkun stefja er af hinu góða og nýtist núverandi stefja m.a. til þess að miðla uppfærðri símaskrá ásamt upplýsingum um yfirstandandi aðgerð til félaga. Hugmyndir um skemmtilegar viðbætur eru á borðinu og verða þær vonandi að veruleika.

Notendur

Grein þessi er skrifuð út frá sjónarhóli björgunarsveita, en notendahópur Svörunar er mun breiðari. Telur hann flest alla viðbragðsaðila sem þurfa að hafa góða yfirsýn yfir mætingu félaga og má þar t.d. nefna slökkvilið og sjúkraflutningafólk á landsbyggðinni, almannavarnanefndir og aðra álíka aðila.

Neyðarlínan og Svörun

Um framtíð Svörunar er það að segja að hún hefur fundið sér trausta heimahöfn hjá Neyðarlínunni sem tekur yfir rekstur hennar frá og með miðjum maí 2013 að telja, en þá verður búið að taka fyrsta skrefið í því að samþætta Svörun við vefþjónustur hennar. Markmiðið er svo að halda þessari samþættingu áfram til þess að gera þá þjónustu sem Svörun veitir viðbragðsaðilum hérlendis markvissari og betri.

Höfundur: Ólafur Jón Jónsson, félagi í bækistöðvarhópi HSSR

Skoðað: 6374 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála