Er fyrirlestra kennsla gamaldags?
Í gegnum tíðina hefur kennsla yfirleitt farið fram með þeim hætti að kennari hittir hóp nemenda í stofu og með aðstoð töflu reynir hann að kenna þeim efni dagsins. Þetta er hið hefðbundna fyrirlestrarform sem enn í dag er megin uppistaðan í kennslutækni skólanna, þrátt fyrir tilkomu veraldarvefsins og aukinnar tölvuvæðingar.
Margir höfðu spáð því að kennslutækni myndi gjörbreytast með tilkomu tölvutækninnar en í raun hefur helsta breytingin verið að í stað myndvarpa er notaður skjávarpi og glærur eru nú gerðar í tölvu í stað þess að vera handskrifaðar.
Eitt af því sem hefur hamlað notkun á tölvutæku kennsluefni er sú staðreynd að megnið af slíku efni er tengt kaupum á ákveðnum kennslubókum og því ekki aðgengilegt á veraldarvefnum nema að viðkomandi nemandi hafi keypt kennslubókina. Annað sem einnig hefur haft áhrif er að gæði tölvutæks efnis hefur ekki verið af sama stigi og prentaðar kennslubækur.
Maður nokkur sem heitir Salman Khan hefur rutt þessum hindrunum úr vegi með sinni kennslu á vefnum www.khanacademy.org. En þar er nú að finna yfir 3900 kennslumyndbönd um fjölmargar námsgreinar, en þar má helst nefna stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, tölvunarfræði, viðskiptafræði og margt fleira. Sem dæmi um notkun á Khan Academy má nefna að heildaráhorf á þessi kennslumyndbönd eru 237,149,983 þegar þetta er skrifað.
Salman Khan er mikill menntamaður og er sjálfur með BSc. gráðu í stærðfræði ásamt MSc. gráðu í rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði. Hann var beðinn að hjálpa frænku sinni með stærðfræðinám sitt en hún bjó afar langt í burtu svo að hann þurfti að nýta tæknina til að geta kennt henni. Þegar spurðist út um þessa aðferð hans komu fleiri ættingjar til hans í þeirri von á fá sömu hjálp. Ákvað hann þá að það væri skilvirkara að taka upp rafræna fyrirlestra og hlaða þeim á YouTube þar sem allir gætu notið góðs af.
Áður en Khan vissi af voru það ekki aðeins nánustu ættingjar sem voru að nýta sér þetta heldur alls konar fólk úti í heimi. Á endanum hætti Khan starfi sínu hjá vogunarsjóði í fjármálageiranum til að einbeita sér að því að gera þessa rafrænu fyrirlestra. Seinna varð mikill vöxtur á áhorfi hjá honum þegar Bill Gates lofsöng myndböndin og sagðist nota þau með sínum eigin syni.
Khan Academy er ekki rekið í hagnaðarskyni og er opið öllum. Það var rekið fyrst og fremst af fjárframlögum frá meðal annars Bill & Melinda Gates Foundation, Google og einnig fjárframlögum frá einstaklingum. Auglýsingar voru á vefsíðunni fram til ársins 2010 þegar þær voru teknar þar sem að ekki var þörf fyrir þær lengur.
Unnið er í því að færa alla þá þjónustu sem Khan Academy býður upp á, yfir á önnur tungumál, og er nú þegar megnið af því komið á yfir 19 tungumál. 390 verkefni eru til staðar á síðunni, aðallega fyrir stærðfræðigreinar og eru þau þannig sett upp að þau gefa þér handahófskenndar spurningar í því sem fyrirlesturinn var um þangað til að þú svarar 10 spurningum í röð rétt.
Fyrir yngri nemendur eru komnir margir eiginleikar sem eru þekktir úr tölvuleikjum, svo sem stig fyrir að horfa á fyrirlestra og svara verkefnum rétt eða listi yfir þá sem eru í þínu hverfi og hvað þeir hafa náð að safna mörgum stigum.
Augljóslega opnar svona efni fullt af möguleikum til að nýta sér í kennslunni. Khan Academy er með hugmyndina ‘‘Flipp the classroom‘‘ þar sem að fyrirlestrar eru settir fyrir sem heimanám og það sem áður var heimanám er nú gert í tímum. Kennarinn getur fengið hugbúnað þar sem hann getur fylgst með hvort að nemendur hafa horft á ákveðin myndbönd. Einnig fá þeir allar niðurstöður úr verkefnum nemenda. Út úr þessum gögnum veit kennarinn frekar hvar styrkleikar og veikleikar einstakra nemenda liggja og geta þeir til að mynda parað saman nemendur þannig að þeir geti kennt hvor öðrum hluti sem þeim vantar hjálp við.
Framtíðarsýn Salman Khan er reyndar mun metnaðarfyllri en þetta. Hún felur í sér að menntun fari fram fyrir utan allar skólastofur. Framtíðarsýnin ber í för með sér eina allsherjar skólastofu um allan heim þar sem nemendur kenna hvorum öðrum og að hver sem er gæti skrifað inn í leitarvél síðunnar hvað þeim vantar hjálp við og fundið þar sjálfboðaliða sem væri tilbúinn að hjálpa.
Höfundur: Valgeir Haukdal Ágústsson, nemandi í tölvunarfræði við Háskólan í Reykjavík
Heimildir:
http://www.youtube.com/watch?v=gM95HHI4gLk
http://en.wikipedia.org/wiki/Khan_Academy
https://www.khanacademy.org/talks-and-interviews/v/khan-academy--the-future-of-education
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.