Ættu skólar að nýta sér gagnaský og aðrar netmiðaðar þjónustur ?
Við munum eftir því þegar skólarnir okkar fengu fyrstu tölvurnar með Windows 95 stýrikerfinu og barist var um að fá að prófa gripina og spila t.d leikinn Hover. Við munum líka eftir því hve stuttan tíma það tók fyrir skólana að dragast aftur úr þegar kom að endurnýjun vélbúnaðar, en það er þó allt önnur umræða.
Á þessum tíma voru harðir diskar ennþá tiltölulega litlir og einu skipulögðu gagnageymslurnar voru einhver netdrif af annarri tölvu í skólanum. Við könnumst líka við þetta úr framhaldsskólum og háskólum þar sem þetta tíðkast enn árið 2013 ef okkur skjátlast ekki. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og hefur diskpláss margfaldast og ljósleiðarinn er í örri útbreiðslu bæði á höfuðborgarsvæðinu og í útsveitum landsins.
Á síðustu misserum hafa gagnaský verið öflug í að markaðssetja sig fyrir einstaklinga og þekkja flestir þetta í tengslum við t.d. Dropbox og Google Drive. Við greinarhöfundar notum báðar þjónusturnar og hafa þær sína kosti og galla. Báðar þjónustur hafa það sameiginlegt að notandinn þarf ekki að hafa áhyggjur af afritunartöku þar sem afrit eru einnig tekin af gögnum sem eru þar fyrir og ef þú kýst að notfæra þér frían hugbúnað, sem fylgir hvorri þjónustunni, er í raun þriðja afritið á þinni eigin tölvu. Þetta veitir ákveðna hugarró því óþarfi er að hafa nokkra harða diska í tölvunni sem í raun spegla hvorn annan og notandinn eða kerfisstjórinn verður laus við allar áhyggjur tengdar þessu. Því eru skólarnir ekki að nýta sér þetta ennþá?
Annar stór kostur við fyrirkomulag eins og þetta er að t.d. ritvinnsluhugbúnaður á tölvum er svo til óþarfur því að hægt er að notfæra sér innbyggðan hugbúnað í vefumhverfi þjónustunnar þar sem hægt er að vinna með skjölin á sama hátt. Fyrir þá sem hafa óbeit á því að fylla vélina sína af mismunandi, og þungum, hugbúnaði þá er þetta tilvalin lausn og eitthvað sem skólar á Íslandi gætu nýtt sér því hver man ekki eftir því að í hópavinnu hafi nokkrir nemendur þurft að troða sér fyrir framan sömu tölvuna til að vinna saman verkefni. Við vitum fyrir víst að margir ef ekki flestir háskólanemar eru nú þegar að fullnýta svona þjónustur í námi sínu með góðum árangri á meðan skólar rembast við að bjóða upp á heimasvæði og hugbúnað í tölvum skólans fyrir nemendur þar sem ekki er hægt að samvinna verkefni á sama hátt og í rauntímalausnum sem eru í boði.
Ef við drögum saman kosti tölvuskýja og netkeyrð forrit þá má gróflega skipta þeim í a.m.k. 3 flokka. Betra öryggi og aðgengi gagna. Sveigjanleiki og auðveldari rekstur tölvukerfisins. Miklir möguleikar á samvinnu nemenda og aðgangur að þúsundum forrita sem krefjast þess ekki að þau séu uppsett á tölvu notenda. Í nútíma samfélagi er lögð mikil áhersla á samvinnu og aðgengi að gögnum og upplýsingum. Gagnaský og aðrar netkeyrðar þjónustur falla því eins of flís við rass við þessar kröfur.
Nemendur nútímans eru nú þegar margir hverjir vel að sér í upplýsinga- og tæknimálum og raunveruleg hætta er á því að skólakerfið verði að flöskuhálsi þegar kemur að því að nýta sér þá möguleika sem tæknin býður upp á. Við göngum reyndar svo langt að fullyrða að það hafi gerst nú þegar. Það er von okkar að skólakerfið í heild sinni nái að nýta sér möguleikana sem felast í skýjunum og netkeyrðum þjónustum. Hefjum skólana upp til skýjanna og hættum að borga dýr leyfisgjöld fyrir forrit þar sem það er ekki nauðsynlegt!.
Þessi örgrein var geymd á skýi og skrifuð með ókeypis vef-hugbúnaði.
Höfundar Egill Örn Sigurðsson og Þórir Aron Stefánsson nemendur í Tölvunarfrræði við Háskólann í Reykjavík
Myndir fengnar hér
Birt á netinu 28.02.2013
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.