UTML – Upplýsingatækni með leikskólabörnum
Í leikskólanum Bakkaberg í Reykjavík hefur markvisst verið unnið með upplýsingatæknina í leik og námi leikskólabarnanna. Allt byrjaði þetta haustið 2007 þegar skólinn tók þátt í sínu fyrsta eTwinning verkefni sem er rafrænt skólasamstarf í Evrópu. Verkefnin urðu fljótt mjög mörg þar sem þetta er virkilega skemmtileg vinna með engar fyrirfram kvaðir og börnin gátu verið virkir þátttakendur. Tölva, skjávarpi, skanni, upptökvél, vefmyndavél og myndavél varð búnaður sem börnin þurftu að nota í þessari vinnu ásamt margskonar forritum. Það skemmtilega við börn og tæknina er hvað þau eru óhrædd að prófa og eru forvitin að sjá hvað virkar og hvað ekki.
Þar sem þessi vinna gekk mjög vel og allir voru áhugasamir, þá kviknuðu fleiri verkefni eitt af öðru. Má þar meðal annars nefna ljósmyndaverkefnið: Með augum barna. Þar lærðu börnin markvisst á myndavélina og hvernig hægt er að taka myndir af ólíkum sjónarhornum. Þar sem þetta verkefni vakti gríðarlega athygli þá var ákveðið að gera aðeins meira úr því og sótt var um styrk til Barnavinafélagsins Sumargjafar. Unnið var síðan áfram með verkefnið í eTwinning og settar voru upp ljósmyndasýningar víða um bæinn og á netinu. Áfram var haldið í að nýta tölvu-‐ og upplýsingatæknina með leikskólabörnunum og alltaf verið að þróa vinnuna áfram. Á tímabili var orðinn mikill gestagangur af kennurum, bæði innlendum og erlendum, sem komu að fylgjast með starfinu. Í framhaldi af því kviknaði sú hugmynd að gera námsgagn sem myndi nýtast öðrum skólum í sinni vinnu. Sótt var um styrk í Þróunarsjóð námsgagna og fékkst hann. Þar með var farið af stað í að safna í sarpinn og varð útkoman ritið Töfraveggurinn; tölvu- og upplýsingatækni með leikskólabörnum.
Nú er búið að sameina Bakka við leikskólann Berg og ber skólinn nú nafnið Bakkaberg. Annar skólinn er staðsettur í Staðarhverfi í Grafarvogi en hinn á Kjalarnesi og er því drjúgur spölur á milli þeirra (17 km). Við erum þó ekki af baki dottin með að láta það hindra okkur, heldur ákváðum að fara af stað með eitt verkefnið í viðbót og köllum við það: Upplýsingatækni með leikskólabörnum eða UTML.
Fyrsti iPadinn kom sem gestur í skólann þetta sama haust og þá kviknuðu margar hugmyndir sem fengu að malla og krauma þennan veturinn. Útkoman var síðan sú að sækja um styrk í Sprotasjóð og var aðalhugmyndin með því að fara af stað með notkun iPads í leikskólastarfinu. Allt gekk þetta eftir og frá haustinu 2011 hefur markvisst verið unnið með iPadinn í leik og námi með börnunum.
iPad í leik og námi með leikskólabörnum
Áður en börnin fá iPadinn í hendurnar fá þau smá kynningu á honum og hvernig eigi að umgangast hann. Síðan stinga þau sér í djúpu laugina og eru ótrúlega fljót að verða flugsynd. Þetta tæki vekur þvílíka hrifningu hjá börnunum, enda er mjög auðvelt að nota hann og möguleikarnir virðast vera óendanlegir.
Hvað eru börnin að gera í leikskólanum með iPad?
Börnin læra að nota flest forritin sem fylgja með iPadinum og er þar á meðal forrit sem heitir FaceTime sem er nútímalegt samskiptartæki. Í FaceTime er hægt að hringja á milli Apple tækja og fá að heyra og sjá á milli staða. Þannig hittust börnin í leikskólanum, þó langt væri á milli, og spjölluðu þau saman, sungu og gátu séð umhverifð í hinum leikskólanum, ásamt því að sjá hvað börnin voru að gera. Einnig hafa foreldrar notað FaceTime til að sýna vinnustaðinn sinn. Bætt var margskonar smáforritum í safnið og í gegnum þau lærðu börnin stafi, stærðfræði, um formin, smávegins í ensku og margt fleira. Þau gerðu rafbækur, hreyfimyndir, tóku ljósmyndir og myndbandsupptökur og unnu áfram með þær.
Foreldrar hafa almennt verið ánægðir með þessa vinnu og sumir hafa tekið þátt í henni. Hér má sjá myndband þar sem foreldri talar um kennsluna á Bakkabergi. Bakkaberg er stoltur af því að kennslan hélt áfram með 2006 börnunum í Korpuskóla þannig að verkefnið lifir enn. Rakel Magnúsdóttir sem starfar á leikskólanum fékk hvatningarverðlaun fyrir frumkvöðlastarf í upplýsingatækni með leikskólabörnum árið 2012.
www.appland.is
Sprotasjóður styrkti UTML verkefnið og er hægt að lesa lokaskýrslu þess á http://www.bakkaberg.is/images/bakkaberg/pdf/utml_skyrsla.pdf. Þar sem reynslan af þessari vinnu er mjög góð og áhuginn á þessu starfi mjög mikill, þá var farið af stað með að setja upp sér heimasíðu varðandi smáforritin. Hugmyndin var að þar inni yrðu upplýsingar á íslensku og ummæli frá þeim sem hefðu reynslu af forritinu. Auðvitað vatt þessi hugmynd upp á sig og í dag er búið að opna Appland sem er mun stærri og viðameiri en upphaflega hugmyndin. Appland er fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, sérkennslu, kennara og þig, eða alla þá sem áhuga hafa á að nýta iPad í sínu lífi.
Framtíðin
Skólayfirvöld hafa almennt tekið þessari vinnu vel þó sumt megi betur fara og ganga hraðar fyrir sig. Reykjavíkurborg mun örugglega styðja við þá þróun sem er að fara af stað í leik-‐ og grunnskólum borgarinnar. Það er mjög milkilvægt að í skólum séu háhraða þráðlausar nettengingar og að skólastjórnendur séu opnir fyrir að taka inn nýjunar í skólastarfið. Það ætti að viðurkenna iPadinn sem hluta af þeim grunnbúnaði sem ætti að vera til staðar í grunnskólum landsins. Ekki er þó nóg að kaupa fullt af tækjum, það þarf að kenna á þau. Mikilvægt er að halda námskeið fyrir kennarana þannig að þeir viti hvað þeir eru með í höndunum fyrir börnin.
Að nota iPad í sérkennslu og fyrir einstaklinga með sérþarfir er mjög góður kostur því hægt er að fá fjölmörg smáforrit sem henta mjög vel og eru hönnuð sérstaklega með þessa hópa í huga.
Hægt að efla einstaklingsmiðað nám og auka virkni nemenda með iPad með því að ná í smáforrit sem er við hæfi fyrir hvern einstakling. Þau geta því lært sínum eigin hraða og á þeim tíma sem þeim hentar.
Gaman væri að sjá gerða rannsókn á því hvernig staða nemendahóps væri sem hefði unnið með iPad í 2 – 3 ár í samanburði við sambærilegan hóp sem ekki ynni með iPad. Þróunin er mjög hröð og alltaf að koma ný smáforrit sem vekja athygli og áhuga.
Höfundar: Rakel Guðrún Magnúsdótti og Guðni Ágústsson, nemendur í Tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík
Birt 14. mars 2013
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.