Hughrif tölvuleikja
Tölvuleikir eru af ýmsum gerðum og stærðum og geta haft margvísleg áhrif á þann sem spilar, bæði góð og ekki svo góð. Tölvuleikir eru ekki í eðli sínu góðir eða slæmir, en það fer eftir spilaranum og áhrifunum á hann hvernig þeir eru flokkaðir. Margir leikir eru erfiðir og reyna á spilarann, hann/hún vill ná lengra og fá fleiri stig, gera betur en síðast eða betur en einhver annar. Þeir innihalda margt sem reynir á hugann, reynir á rökhugsun og lausnaleit fyrir utan að þjálfa samhæfingu hugar og handa. Hér ætla ég að beina sjónum í að því hvernig þeir geta auðgað bæði líf okkar og umhverfi.
Að spila í vinnunni
Það þykir eðlilegt að einstaklingar hafi aðgang að tölvu á vinnustað, en í hvað má og má ekki nota hana er kannski ekki alltaf skýrt eða skilgreint. Að nota vinnutölvuna í eigin þágu á vinnutíma þarf ekki endilega að vera neikvætt, það gæti jafnvel verið jákvætt, aukið starfsánægju og dregið úr stressi og leiða. Tölvuleikjaspilun á vinnutíma er eflaust litin hornauga, en rannsóknir hafa sýnt að spilun tölvuleikja á vinnutíma (e. cyberslacking) getur dregið úr stressi og endurhlaðið batteríin. Að spila tölvuleik eftir erfiða vinnutörn getur bætt hugarástandið, einbeitinguna og afköstin. Hér er auðvitað ekki átt við að setið sé við spilun tímunum saman heldur gripið í leiki til upplyftingar í dagsins önn. Yfirmenn ættu því í raun að hvetja starfsmenn til hóflegar leikjaspilunar.
Vodafone fundar í klassískri tölvuleikjastemmningu
|
Í vor var ráðist í breytingar í höfuðstöðvum símafyrirtækisins Vodafone. Einn liður í breytingunum var að endurskíra fundarherbergin og haldin var hugmyndasamkeppni meðal starfsfólks um skemmtilegt þema fyrir herbergin. Í atkvæðagreiðslunni reyndist þemað "klassískir tölvuleikir" vinsælast og því heita fundarherbergin í Höfuðstöðvunum í Skútuvogi nú nöfnum margra gamalkunnugra tölvuleikja og eru skreytt í samræmi við það. Starfsfólk valdi hvaða tölvuleikir fengu sitt fundarherbergi. Meðal þeirra sem urðu fyrir valinu voru Tetris, Super Mario Bros, Pacman og Ms. Pacman, Space Invaders, Donkey Kong, Galaga, Duck Hunt og Mega Man. Óhætt er að segja að þetta hefur mælst vel fyrir hjá starfsmönnum og meðfylgjandi eru myndir af nokkrum fundarherbergjanna í nýja búningnum. Hér er á ferðinni það sem er kallað leikjavæðing (e. gamification) þ.e. að yfirfæra skemmtanagildi leikjanna yfir á vinnuumhverfi til að auðga daglegt líf.
Spilun barna og unglinga
Við lifum á tímum þar sem tæknin er allt um kring og spilun tölvuleikja getur vakið áhuga barna á tækninni og þjálfað þau í notkun hennar. Þegar barnið þitt spilar tölvuleiki reynir það á heilastarfsemina og þjálfar margskonar leikni þar á meðal að fylgja leiðbeiningum, leysa þrautir og finna úrræði um leið og það þjálfar samhæfingu handar og augna og fínhreyfingar. Margir leikir kenna um leið og spilað er, en þá skiptir auðvitað máli að það sem kennt er sé við hæfi barnsins og þar koma foreldarnir inn í, þeir þurfa að fylgjast með og leiðbeina, finna þroskandi leiki og taka þátt með barninu. Það eru til leikir sem fjölskyldan getur spilað saman, keppt sín á milli og allir haft gaman að. Rannsóknir hafa sýnt að spilun tölvuleikja getur aukið andlegan viðbragðshraða án þess að draga úr nákvæmni í svörun. Þá sem eldri eru má gleðja með því að tölvuleikir hafa reynst bæta skammtímaminni hjá fólki sem komið er á eldri ár.
Hér er hvorki staður né stund til að ræða tölvuleiki til hlítar en þema prentaðra útgáfu Tölvumála í ár er tölvuleikir og þar verður á næstu dögum hægt að lesa mun ítarlegri umfjöllun um þetta áhugaverða efni.
Höfundur: Ásrún Matthíasdóttir, lektor Háskólanum í Reykjavík, ritstjóri Tölvumála
Heimildir
Reinecke, L. (2009). Games at Work: The Recreational Use of Computer Games During Working Hours. Cyberpsychology Behavior, 12(4): 461-5. http://web.ebscohost.com/ehost/pdfviewer/pdfviewer?sid=fad7ee12-2a70-4e63-bb55-e5b95144cf18%40sessionmgr12&vid=2&hid=15
Tölvur og staðreyndir http://www.pegi.info/is/index/id/256/
The Positive and Negative Effects of Video Games
http://www.raisesmartkid.com/3-to-6-years-old/4-articles/34-the-good-and-bad-effects-of-video-games
10 Benefits of Playing Video Games http://www.tastyhuman.com/10-benefits-of-playing-video-games/
Increasing Speed of Processing With Action Video Games http://vision.psych.umn.edu/users/csgreen/Publications/dye_CDiPS09.pdf
Hér er áhugaverð umfjöllun um áhrif leikja á drauma en rannsóknir hafa stutt þær hugmyndir að miðlar og þá sérstaklega gagnvirkir miðlar hafa áhrif á drauma bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.
Spilaðu tölvuleiki og stýrðu draumum þínum http://www.visindi.is/grein/spila%C3%B0u_tolvuleiki_og_styr%C3%B0u_draumum_thinum
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.