Lífæðin stækkar þegar gagnaver munu rísa á Íslandi
Þeir sem einhvern tíma hafa haldið að netið sé bóla eru vonandi búnir að skipta um skoðun. Gögn hlaðast upp í heiminum og stórfyrirtæki leita fanga víða til þess að koma fyrir gagnaverum. Einn af heitustu stöðunum til skoðunar hefur verið Ísland en margar ástæður eru taldar liggja að baki því að okkur hefur ekki tekist betur en skildi að fá stórfyrirtæki til landsins.
Þarfir viðskiptavina eru ekki ólíkar, viðskiptavinir gagnavera þurfa örugg fjarskipti og trygga tengingu enda í enda á milli gagnavers og tengipunkta erlendis. Þeir tengjast í gegnum sæsímakerfi og síðan innanlandskerfi heima og erlendis. Algengasta er að viðskiptavinir gagnavera leiti eftir 1 Gb/s tengingar upp í 10 Gb/s. Á næstu misserum munu þörfin fyrir enn meiri flutningsgetu aukast og munu 100Gb/s verða jafn hversdagsleg og 10 eru orðin í dag.
Á sínum tíma þegar Danice sæstrengurinn var lagður til Íslands þurfti að stækka landskerfið svo um munaði. Flutningsgeta þess var margfölduð til þess að koma til móts við aukin afköst sæstrengja. Tækninni hefur fleygt fram og nú er hægt að tífalda flutningsgetu fjarskiptakerfa bæði á landi og í sjó umfram það sem þau geta flutt í dag með því að bæta við búnaði þar sem búið er að uppfæra allan grunnbúnað.
Innviðir eftir pöntun
Almennt má segja að innviðir og aðstaða fyrir gagnaver verði í framtíðinni byggð samkvæmt pöntun. Komi hingað fleiri gagnaver verður húsnæði byggt frá grunni, raforkukerfi verða styrkt, virkjanir reistar, varaaflsstöðvar byggðar og fjarskiptakerfi innanlands byggð samkvæmt þeim kröfum sem viðskiptavinur setur. Með fjarskiptakerfum er bæði átt við búnað og strengi.
Mikilvægustu þarfir gagnaveranna snúa að öryggi sambanda. Ekki mega tveir strengir liggja í sama skurði né búnaður koma inn á einum stað í hýsingarsölum. Varaleiðir þurfa að vera 100% aðskildar.
Afköst verða aukin og nýjar fjarskiptaleiðir eru byggðar til að uppfylla þarfir núverandi viðskiptavina og fyrirsjáanleg viðskipti í framtíðinni.
Sæstrengir
FARICE og DANICE sæstrengirnir eru lífæðar fjarskipta Íslands og Færeyja við umheiminn. Með þessum tveimur sæstrengjum er markmiðið að tryggja stöðuga tengingu og efla samskiptaöryggi fyrir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Farice ehf. rekur sæstrengina FARICE, sem liggur á milli Íslands og Skotlands, með tengingu til Færeyja, og DANICE sem liggur á milli Íslands og Danmerkur. Míla rekur sæsímastöðvarnar sæstrengjanna fyrir Farice ehf. og sér um öflugar innanlandstengingar sem tengjast sæstrengjunum.
Kerfi Mílu
Fjarskiptakerfi Mílu er öflugt og fjölþætt og byggist upp á tveimur meginkerfum; stofnneti og aðgangsneti. Míla leggur mikla áherslu á stöðuga uppbyggingu fjarskiptakerfisins til að tryggja sem besta nýtni þess ásamt því að setja á markað nýjar lausnir. Mikið rekstrar- og gagnaöryggi er lykilkrafa í uppbyggingu og rekstri fjarskiptakerfis Mílu. Míla sérhæfir sig meðal annars í rekstri og ráðgjöf vegna fjarskiptakerfa, aðstöðuleigu fyrir upplýsingatækni og ýmsa þjónustu við dreifikerfi. Í eigu Mílu eru 1800 km af ljósleiðara í landshringnum og aðrir rúmir 2.000 km víða um land útfrá hring.
Flutningsgetu sem möguleg er á grunnbúnaði ofan á landskerfinu er hægt að tífalda, skapist þörfin. Kerfið er stækkað eftir þörfum markaðarins hverju sinni. Nýir ljósleiðarastrengir eru lagðir þar sem þörf þykir á þeim.
Uppitími og öryggi sambanda
Það sem skiptir gagnaverin mestu máli er uppitími og öryggi sambanda enda í enda. Míla hefur byggt upp sitt kerfi með það í huga að ráða við rof á hluta kerfisins án þess að þjónusta til viðskiptavinar raskist. Það sem gerist í kerfinu þegar ljósleiðari í landskerfinu rofnar er að þá skiptir kerfið sjálft yfir á aðrar leiðir.
Uppitími kerfis Mílu er mjög góður og það er afar sjaldgæft að heyra fréttir af ljósleiðaraslitum, allavega ekki það stórum að það skaði ímynd fyrirtækisins. Lengsta útfall frá upphafi eru 7 klukkustundir en það var í slæmu veðri á landsbyggðinni. Viðgerðartími á sæstreng getur aftur á móti varað frá viku í nokkrar vikur. Mikilvægt er að rekstraraðilar gagnavera hagi kerfisuppbyggingu sinni þannig að hámarks rekstraröryggi sé tryggt. Það er því mikilvægt að byggja upp varaleiðir.
Míla hefur á undanförnum árum aukið öryggi sitt til muna bæði með búnaði og lagningu ljóss sem myndar hringkerfi um landið. Lífæðin þarf auðvitað að bera nafn með rentu
Til þess að sýna fram á þetta ætla ég að nefna dæmi um Jökulhlaupið frá Mýrdalsjökli 2011 en það hafði engin veruleg áhrif á fjarskiptakerfi Mílu, þrátt fyrir að ljósleiðarinn hafi farið í sundur í Múlakvísl, um 8 kílómetra frá Vík í Mýrdal. Áhrif slitsins á fjarskipti á landinu voru óveruleg, þar sem öll mikilvæg þjónusta er varin á landshringnum, svo sem eins og sími, internet, neyðarfjarskipti,, sjónvarp og fleira.
Náttúruhamfarir undanfarinna ára hafa sýnt það og sannað að kerfi Mílu er byggt upp til þess að standast síbreytilegar íslenskar aðstæður. Öskufall í eldgosunum 2010 og 2011 hafði til að mynda lítil sem engin áhrif á öryggi fjarskipta. Örbylgjusambönd héldu þrátt fyrir að vera yfirhlaðin gosösku. Starfsmenn Mílu hafa gríðarlega reynslu í því að starfa við þessar aðstæður og hafa að vanda staðið sig frábærlega við að tryggja fjarskipti landsmanna.
Hraðbraut
Míla hefur byggt upp svokallaða Hraðbraut á höfuðborgarsvæðinu sem þjónar meðal annars gagnaverum, fjarskiptafyrirtækjum og upplýsingatækni fyrirtækjum. Að mestu leyti fyrir viðskiptavini sem þurfa mikið gagnamagn. Á Hraðbraut er boðið upp á 1 Gb/s eða 10 Gb/s gagnahraða. Hraðbrautin byggir meðal annars á því að leiðaval er aðlagað að þörfum viðskiptavina okkar. Yfirleitt kaupa viðskiptavinir varin sambönd eða tvær aðskildar leiðir til að tryggja öryggið og með tveimur inntökum inn í mikilvæga staði.
Þjónusta á landsvísu
Við nýtum innviði landskerfisins betur ef við fáum gagnaver til landsins. Íslendingar víða í atvinnulífinu hafa lagt gríðarlega mikla vinnu í að undirbúa komu gagnaveranna. Míla hefur tekið á móti mörgum framtíðar, eða hugsanlegum viðskiptavinum sem skoða staðsetningar á landinu með tilliti til uppbyggingar gagnavera. Míla hefur í mörgum tilfellum hannað sambönd að þeim hugmyndum sem gagnaverin hafa kynnt. Það þýðir að við erum búin að forhanna ýmsar leiðir með tilliti til öryggis.
Eldgosin hafa að mínu mati hjálpað okkur Íslendingum frekar en hitt. Við erum komin á kortið og eigum að nýta okkur það. Við höfum fjölda rannsókna sem styðja það hvernig við höfum byggt upp innviði landsins þannig að hann lágmarki áhættu vegna náttúruhamfara. Við hjá Mílu fengum þjálfun í og bættum öryggismál okkar svo um munar í eldgosunum. Við höfum undirbúið færanleg sambönd sem verða sett upp þar sem þeirra er þörf ef skyndilega þarf að bæta eða breyta samböndum vegna eldgosa eða jarðhræringa.
Kerfið er aðlagað og uppfært að þörf viðskiptavina hverju sinni. Komi nýr sæstrengur sem lendi á öðrum afhendingarstöðum þá getur Míla útvegað innanlandssambönd, burtséð frá því hvort núverandi strengir liggja þangað eður ei. Það verður einfaldlega lagður nýr strengur þegar þörfin skapast sé viðskiptamódel fyrir hendi.
Höfundur: Eva Magnúsdóttir, forstöðumaður Sölu hjá Mílu
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.