Skip to main content
8. July 2011

Ferilvöktun og sending gagna í rauntíma fyrir slökkvi- og sjúkrabíla

Mjög mikilvægt er að upplýsingaflæði í neyðarþjónustu gangi hnökralaust fyrir sig.  Þegar einhver hefur samband við neyðarlínuna og óskar eftir aðstoð slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS ) getur þurft að koma miklu magni af upplýsingum til þeirra sem eiga að sinna útkallinu. Oftast eru upplýsingar um útkallið að uppfærast á meðan SHS er á leið á útkallsstað því er mikilvægt að koma þeim jafn óðum til skila.

Fram til þessa hefur mest verið stuðst við talstöðvarsamskipti milli neyðarvarða og áhafna útkallsbíla.  Þetta þýðir að áhafnarmeðlimir þurfa að leggja upplýsingarnar á minnið og eða skrifa á miða úti í bíl, einnig kallar þetta á mikil samskipti í talstöðvum og hefur í för með sér mikið áreiti því allir heyra í öllum sem eru á sömu rás (talhóp).

Ekki er nóg að geta komið upplýsingum til áhafna útkallsbíla heldur þurfa neyðarverðir að gera sér grein fyrir staðsetningu og stöðu þeirra svo þeir geti fylgst með stöðu flotans og nýting verði sem best. Með því að vita hvar útkallstæki eru staðsett og verkefnastöðu þeirra er auðveldara að finna þann bíl sem næstur er útkallstað og þannig stytta viðbragðstímann.

Síðastliðin 15 ár hefur verið ör þróun á fjarskiptabúnaði útkallstækja og sérstaklega með tilkomu Tetra fjarskiptakerfisins (e. Terrestial Trunked Radio). Það hefur gefið l fleiri möguleika til flotastýringar og greiningu á rekstri SHS. Það að geta safnað gögnum gefur skýrari ákvarðanatöku og hefur leitt til þess að SHS sér hag sinn í því að halda áfram að  tæknivæða starfsemi sína.
Verkefnið

Greinahöfundar unnu lokaverkefni í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík í samstarfi við slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. um vorið 2011. Markmið verkefnisins var að gera bestun á hvaða útkallstæki sé fljótast á vettvang þegar útkall verður hjá SHS.

Verkefnið fólst í að taka á móti skilaboðum frá útkallstækjum SHS um staðsetningu þeirra og verkefnastöðu og birta þær upplýsingar á korti í rauntíma. Þegar svo útkall verður á hugbúnaðurinn að geta nýta sér þekkingu á staðsetningu útkallstækja til þess að finna eftir ákveðnum skilyrðum hvaða tæki sé næst vettvangi í tíma. Einnig að þróa hugbúnað fyrir útkallsbíla sem sér um að senda skilaboð með upplýsingum um staðsetningu og verkefnastöðu. Einnig að taka á móti skilaboðum frá neyðarlínu með upplýsingum um verkefni og birta á skjá. Notast var við SDS (e. Short Data Service) samskiptastaðalinn í Tetra kerfinu sem samskiptaleið fyrir gagnasendingar.  SDS samskiptastaðlinum má líkja við SMS staðalinn í GSM kerfinu.

Útfærsla verkefnisins

Til þess að geta uppfyllt  kröfur verkefnisins var því skipt upp í þrjá þætti með yfirskriftinni Viti.

    Viti bílar sem var hugsaður sem hugbúnaður í bílum SHS þar sem áhafnarmeðlimir geta skráð verkefnastöðu og forritið sendir sjálfkrafa ferilvöktunarskeyti og upplýsingar um stöðu ökutækis. Einnig er hægt að taka á móti skilaboðum með upplýsingum um útkall fyrir áhafnarmeðlimi. Samskiptin fara fram í gegnum Tetra kerfið.
    Viti þjónn var hugsaður sem hugbúnaður sem miðlar upplýsingum til og frá Tetra kerfinu yfir á staðarnet (e. local network) SHS svo hægt sé að vinna með þær.
    Viti ferilvöktun var hugsaður sem hugbúnaður sem heldur utan um bíla SHS. Viti ferilvöktun birtir staðsetningu, stöðu og stefnu bíla í rauntíma á korti, sýnir lista af bílum og verkefnastöðu þeirra og hefur möguleikann á að reikna hvaða bílar eru næst ákveðinni staðsetningu í tíma og vegalengd.

Ferilvöktun í rauntíma

Ferilvöktun byggir á því að ökutæki senda ferilvöktunarskeyti sem nýtt eru til þess að staðsetja og birta ökutæki á korti.

Ferilvöktunarskeyti eru upplýsingastrengur sem sendur er af hugbúnaði í ökutækjum og inniheldur margvíslegar upplýsingar um staðsetningu, stefnu, hraða og stöðu ökutækis. Hugbúnaðurinn Viti bílar gerir sér grein fyrir því hvort kveikt sé á forgangsljósum eða ekki, staðsetning breytist og hvort ökutæki sé lagt, kyrrstætt eða í akstri. Ákvörðun á fjölda skeyta og hvenær þau eru send er t.d. metin út frá hvort ökutæki sé í akstri (sent á 100m fresti) eða forgangsakstri (sent á 50m fresti).

Við útfærslu á forritinu Viti ferilvöktun var byggt ofan á opinn kortahugbúnað (Gmap.net) . Þessi kortahugbúnaður getur birt kort og reiknað feril eftir vegum milli tveggja hnita á kortinu.  Ferilvöktunarskeyti sem berast reglulega frá ökutækjum og innihalda gps staðsetningarhnit þeirra voru nýtt til að birta táknmyndir af ökutækjum á kortinu og þannig hægt að sjá staðsetningu þeirra, akstursstefnu og hvort kveikt sé á forgangsljósum í rauntíma. Samhliða var útfærð bestun útkallstækja þar sem hægt er að skilgreina útkallsvettvang eftir annaðhvort heimilisfangi eða GPS hnitum og láta forritið reikna út og birta upplýsingar um hvaða ökutæki eru næst vettvangi í tíma. Bestunin tekur einnig mið af forgangi verkefnis sem skilgreint er af notanda og verkefnastöðu ökutækja hverju sinni. Þannig er tryggt að aðeins þeir bíla sem sinnt geta verkefninu miðað við forgang og verkefnastöðu séu með í bestuninni. Þetta gefur varðstjórum og öðrum sem eru að fylgjast með stöðu mála hverju sinni góða yfirsýn og aðstoðar við ákvarðanatöku.

Tölfræðileg afurð ferilvöktunar

Ferilvöktunarskeyti eru ekki nýtt eingöngu í rauntíma heldur eru þau geymd í gagnagrunni og nýtt í rannsóknir, endurspilun á útköllum, greiningu á álagspunktum og mælingu á gæðum þjónustunnar sem snýr að viðbragstíma. Nú þegar hafa verið nýttar upplýsingar úr ferilvöktun til þess að finna bestu staðsetningar slökkvistöðva á höfuðborgarsvæðinu út frá mælingum á viðbragstíma. Þannig að viðbragstími sé innan settra marka og sem jafnastur fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Sending gagna og samskipti við slökkvi- og sjúkrabíla

Viti bílar sem er hugbúnaður sem er staðsettur í öllum ökutækjum SHS sér ekki eingöngu um að senda frá sér ferilvöktunarskeyti, forritið tekur einnig á móti skilaboðum um útkall frá neyðarverði og birtir áhafnarmeðlimum, einnig geta áhafnameðlimir sent upplýsingar til baka til neyðarvarðar og þannig átt samskipti þar sem ekki er í öllum tilvikum nauðsynlegt að nýtast við beint talstöðvarsamband við neyðarvörð. Viðmót forritsins miðast við að notaðir séu snertiskjáir og því einfalt fyrir áhafnarmeðlimi að nota það í störfum sínum.

Innleiðing

Í lok sumars 2011 verður hugbúnaðurinn tekin í fulla notkun en reynsluprófanir lofa góðu og er þetta verða töluvert stökk fram á við í nýtingu á upplýsingatækni hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs. Það er ljóst að möguleikarnir eru margir og spennandi hlutir framundan í tæknivæðingu SHS og uppbyggingu á Tetra kerfinu.

Höfundar: Ólafur Kr. Ragnarsson, Ómar Traustason og Karl Helgason

Skoðað: 5875 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála