Skip to main content
3. maí 2012

Hver er þróunin - fjarnám í háskólum

kids-free-computer-games-2Á síðustu árum hefur upplýsinga- og samskiptatæknin (UST) sífellt meira verið nýtt í háskólastarfi, bæði í dagskóla og í fjarnámi þar sem glærusýningar eru daglegt brauð, námsefni er dreift rafrænt, nemendur skila verkefnum á netinu og hluti samskipta við kennara og samnemendur fer þar fram. Margar áskoranir mæta háskólakennurum sem taka tæknina í sína þjónustu enda er hægt að kalla flesta þeirra nýbúa í þessum tækniheimi. Nemendahópurinn er oftar en ekki mun tæknisinnaðri enda hefur fólk fætt eftir 1980 verið kallað netkynslóðin eða 3G-kynslóðin.

Þessi kynslóð lifir í heimi fullum af tækifærum til að nýta tæknina í námi, starfi og tómstundum þar sem notkun á bloggi, YouTube, MySpace, Facebook og Twitter er daglegt brauð, að ógleymdum viðbótum fyrir farsímann sem flæða yfir þau. Sem dæmi má nefna þá eru til viðbætur við farsíma sem gerir notandanum kleyft að tala við símann og biðja hann að senda skilaboð eða lesa þau upp. Textaskilaboð er samskiptamáti unga fólksins dags daglega og eru þau jafnvel tekin framyfir að hittast, senda tölvupóst, senda SMS eða hringja. Heyrst hafa tölur um að 100 skilaboð á dag sé venjan hjá ungu fólki. Í þeirra huga er tölvupóstur ætlaður fyrir gamalt fólk. Það virðist því vera upplagt að nýta skilaboð og tengslanet eins og Fésbók til að ná til ungs fólks, en í dag virðast háskólar mest nýta þessa miðla í auglýsingaskyni.

Háskólar taka á móti þessum netvædda hópi ungs fólks með sinni hefðbundnu áherslu á fyrirlestra, en einnig sínum rafrænu námsnetum, eða kennslukerfum, sem í upphafi voru þróuð með kennara í huga, en hafa smá saman færst yfir í að hugsa meira um nemendur, t.d. með rauntímaspjalli og vinnusvæðum fyrir nemendur. Flestir kennarar láta sér nægja að nota helstu möguleika þessar kerfa til að dreifa glærum og öðru námsefni. Margir hafa uppgötvað hvað það er vinnusparandi að fá verkefni nemenda á rafrænu formi og sumir fara jafnvel yfir þau á skjánum þó margir velji enn að lesa þau útprentuð. Flestir setja einkunnir inn í þessi kerfi enda gera skólar kröfu um það. Notkun á rafrænum prófum og æfingum eykst jafnt og þétt og umræða á netinu einnig, en eflaust mætti nýta þessi tækifæri og mörg önnur mun meira í háskólakennslu. Sem betur fer eru alltaf inn á milli kennarar sem þora að prófa ný tækifæri í tæknivæðingunni og bjóða t.d. upp á upptökur af kennslu í farsíma.

Háskólarnir hafa einnig brugðist við með auknu framboði á fjarnámi og hefur fjöldi nemenda í fjarnámi á háskólastigi margfaldast á undanförnum árum eða farið úr 307 árið 1997 yfir í 2.959 árið 2011 með hápunkti 2009 þegar fjarnemar voru 3.980. Á meðan hefur fjöldinn í dagskóla farið úr 7.303 yfir í 16.865 samkvæmt Hagstofunni. Fjarnám á Íslandi hefur verið með mismunandi formi, þ.e. nemendur og kennarar hittast mismikið og jafnvel ekkert og mismunandi tækni er notuð til samskipta. Fjarnám í einum háskóla, eða einni námsgrein, getur því verði ólíkt því sem er í öðrum skóla, eða annarri námsgrein, hvað varðar skipulag og tækninotkun.

Í skýrslunni „Evaluation of Evidence-Based Practices in Online Learning: A Meta-Analysis and Review of Online Learning Studies" frá 2010, þar sem skoðaðar voru rannsóknir frá árunum 1996 -2008, kemur skýrt fram að fjarnám er ekki síðra en hefðbundið nám og fjarnemum gengur jafnvel ívið betur í námi en öðrum nemendum. Þar kom einnig fram að besta raun gæfi að blanda saman aðferðum hefðbundins náms og fjarnáms.

En hvernig gengur kennurum, sem fæddir eru um og eftir miðja síðustu öld, þegar varla var til íslenskt sjónvarp, að kenna ungu tæknisinnuðu fólki í fjarnámi? Og hvernig líkar fjarnemum? Til að skoða þetta voru spurningalistar lagðir fyrir fjarkennara og fjarnemendur í Háskólanum í Reykjavík og svöruðu 70% af fjarkennurunum en 57% af fjarnemunum. Hér ætla ég að draga fram nokkur atriði úr niðurstöðum þessara kannana.

Fjarkennararnir notuðu allir kennslukerfi skólans og var notkunin frekar hefðbundin þar sem flestir (95%) dreifðu glærum, upptökum af fyrirlestrum (hljóðglærum) og öðru efni þar í gegn og vildu að nemendur skiluðu verkefnum rafrænt. Þó sagðist aðeins tæpur þriðjungur (26%) þeirra nýta sér að gefa nemendum endurgjöf beint í gegnum kennslukerfið. Samskipti kennara við nemendur eru mikilvæg í öllu námi og rúmur helmingur (57%) fjarkennara nýtti umræðu á neti til samskipta og tæpur helmingur (45%) taldi það vera á verksviði kennara að tryggja að nemendur hefðu samband sín á milli. Aðrir möguleikar kennslukerfisins voru minna nýttir, t.d notuðu aðeins fjórir kennarar rafræn próf oft eða alltaf. Tölvupóstsamskipti eru hluti af samskiptum kennara og nemenda og höfðu 62% fjarkennaranna samband í tölvupósti við fjarnemendur sem hóp allt frá tvisvar eða þrisvar í viku til daglega. Algengara var að einstaklingsbundin samskipti (kennari-nemandi) væru einungis vikulega eða sjaldnar. Ýmsir möguleikar utan kennslukerfis sem hægt er að nýta í kennslu voru lítið nýttir, t.d. nýtti aðeins 48% kennaranna rafrænar bækur og aðeins 10% þeirra blogg í kennslu.

Fjarkennararnir voru jákvæði í garð fjarnámsins og flestir (86%) töldu að það væri raunhæfur kostur í íslensku skólakerfi og að nemendur gætu nýtt sér fjárnám ef þeir hefðu áhuga. Margir (79%) töldu sig ná settum markmiðum í fjarkennslunni og voru (72%) ánægðir með fjarnámskeið sín. Nær allir (95%) töldu mikilvægt að hitta nemendur sína auglitis til auglitis. Hér er dæmi um viðhorf fjarkennara:

Ég er ánægður með hvernig mér gengur að kenna í fjarnámi og fjarnemendur virðast einnig vera ánægðir. Þessi árangur byggir á mikilli vinnu. Ég hef búið til mjög mikið af glærum á pdf formi og jafnframt videó-glærur fyrir sama efni. Einnig er ég með vikuleg heimaverkefni og birti einnig lausnir þeirra og fylgir videó-glæra hverri lausn.

Svör fjarkennaranna gáfu til kynna að þeir væru nokkuð ánægðir með fjarnámið og framkvæmd þess en nýttu ekki marga möguleika sem boðið var upp á eða möguleika utan kerfisins, s.s. blogg. Hér virðast vera mörg ónýtt tækifæri til að gera fjarkennsluna og samskiptin fjölbreyttari.

Fjarnemarnir voru einnig jákvæðir en það kom á óvart hvað stór hluti (72%) þeirra bjó á Höfuðborgarsvæðinu og rúmur helmingur (56%) var 40 ára eða yngri. Þeir notuðu allir kennslukerfi skólans, m.a. til að fylgjast með á námskeiðinu, sækja efni og skila inn lausnum á verkefnum. Flestir (73%) töldu að upptökur frá kennara gæfi þeim góðan árangur í námi en fáir (10%) töldu að spjall og umræða í kennslukerfinu nýttust vel í náminu. Langflestir (93%) töldu fjarnám vera spennandi valkost sem gerði meiri kröfur til þeirra en hefðbundið nám í dagskóla (91%) og að það væri gott að stunda fjarnám og þurfa ekki að mæta í skólann daglega (82%). Nær allir (98%) töldu upptekið efni frá kennara vera gagnlegt og 70% þeirra vildi fá meira efni frá kennara, en 70% þeirra saknaði beinna samskipta við kennara. Önnu atriði sem fjarnemar nefndu voru að geta unnið með námi, stýrt tíma sínum og frjálsræðið sem því fylgdi. Þeir vildu að kennararnir nýttu fleiri möguleika á netinu og vildu meiri samskipti við samnemendur á netinu. Hér er gott dæmi um viðhorf fjarnema:

Sjálfstæði og sjálfsöryggi verður töluvert meira þar sem námið byggir nær eingöngu á þér sjálfum sem nemanda, það er ekki um það að ræða að þú komst í gegnum þetta nema vera einlægur í náminu. ..mjög mikilvægt að mynda tengsl með samskiptum á veraldarvefnum, það er það sem skipti sköpum fyrir mig að ég var óhræddur við að reyna nýjar leiðir í samskiptum við aðra.

Þó að þessi fjarnemahópur falli nú ekki allur undir skilgreininguna á netkynslóðinni sem rætt var um í upphafi greinarinnar þá eru þeir dæmi um fjarnema í háskólanámi í dag. Þeir eru ánægðir í námi en vilja meira og fjölbreyttar efni frá kennurum og meiri samskipti við kennara og samnemendur.

Í skýrslu Sólveigar Jakobsdóttur og Þuríðar Jóhannsdóttur Úttekt á fjarkennslu í framhaldsskólum frá 2010 kemur fram að margir nemendur á framhaldskólastigi stundi fjarnám, það henti þeim vel og þeim finnist það þægilegt. Netkynslóðin er því orðin vön fjarnámi og líkar vel og á næstu árum mun hún verða sífellt hærra hlutfall nemenda í háskólum landsins. Þessi hópur munu án efa auka þrýsting á kennara að nýta tæknina meira í kennslu og samskiptum.

Nóg er af möguleikum til að útbúa fjölbreytt námsefni eða nálgast efni rafrænt og upplagt að nota tengslanet til samskipta og sjálfsagt er hægt að nýta þessa möguleika mun meira í tengslum við nám en nú er gert. Tækni hefur haft og mun hafa þýðingarmikil áhrif á háskólastarf og þar sem fjarnám hefur fest sig í sessi hafa áhrifin af tækninotkuninni teygt sig hraðar inn í skólastofuna. Ekki veit ég hvernig notkun á rafrænum möguleikum mun þróast innan og utan háskóla á næstu árum, kannski verður kennslan að mestu komin yfir í tölvuleiki þar sem nemendur verða á „borði 20" eða „borði 80" í leiknum/náminu. Eins og staðan er í dag þá bendir margt til þess að kennarar séu að vinna í kennslukerfum skólanna en nemendurnir á samskiptasíðum utan þeirra og margir möguleikar tækninnar vanýttir við nám og kennslu.

asrunMÁsrún Matthíasdóttir, Lektor, Háskólinn í Reykjavík

Byggt á grein úr HR blaðinu

Skoðað: 6492 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála