Frjáls Hugbúnaður í Menntaskólanum í Reykjavík
Síðastliðið vor fór af stað metnaðarfullt verkefni í einni elstu menntastofnun landsins, Menntaskólanum í Reykjavík (MR). Fyrrverandi nemendur skólans tóku höndum saman með skólayfirvöldum, einkageiranum og Mennta- og Menningarmálaráðuneytinu, og nýttu sumarið í að uppfæra tölvukerfi skólans úr blönduðu Novell og Windows umhverfi í nýtt kerfi byggt alfarið á frjálsum hugbúnaði.
Forsaga
Allt frá 1996 hefur Menntaskólinn í Reykjavík lagt áherslu á að nýta tölvu- og nettækni við kennslu og bjóða nemendum upp á nútímalegt tölvuumhverfi. Rúnar Sigfússon stýrði þessu starfi skólans og var kerfisstjóri þess um árabil, en hann féll frá fyrr á þessu ári og urðu þá óhjákvæmilega tímamót í rekstri tölvukerfisins.
Skólayfirvöld stóðu frammi fyrir því að endurmeta rekstur tölvukerfisins, en það var heldur komið til ára sinna og þurfti á endurnýjun að halda. Um leið var kreppan farin að segja til sín, en gengisbreytingar höfðu leitt af sér verulega hækkun á hugbúnaðarleyfisgjöldum og á sama tíma og skorið var niður í fjárveitingum til skólans.
Björn Patrick Swift, fyrrum nemandi MR, hafði í gegnum árin verið skólayfirvöldum innan handar hvað varðar forritun og innleiðingu ýmissa sérlausna og rektor skólans leitaði því til hans aftur á þessum tímamótum. Niðurstaðan varð sú að Björn tók að sér að stýra verkefni sem hafði það að markmiði að skipta yfir í frjálsan hugbúnað allsstaðar þar sem það átti við í skólanum. Hann fékk í lið með sér öfluga menn úr grasrót frjálsa hugbúnaðarsamfélagsins og saman leituðu þeir ráða hjá ríkinu, einkageiranum og öðrum skólum með reynslu af sambærilegum verkefnum. Unnin var einföld þarfagreining og strax um vorið fóru fyrstu Linux tölvurnar í gang.
Hví Frjálsan Hugbúnað?
Fyrsta spurning sem þurfti að svara í aðdraganda verkefnisins var hvaða kosti frjáls hugbúnaður hefði fyrir menntastofnun eins og MR og hvort hann ætti yfir höfuð við.
Til að hægt sé að svara þessari spurningu, þarf að liggja fyrir hvað það er sem greinir frjálsan hugbúnað frá öðrum, en þetta er í raun ekki tæknileg skilgreining, heldur snýst „frelsið“ um notkunarskilmála hugbúnaðarins og óhefðbundna nálgun við höfundarrétt. Þessir eiginleikar eru gjarnan teknir saman í fjóra punkta:
1. Hugbúnaðinn má nota í hvaða lögmæta tilgangi sem er.
2. Notendur mega skoða og breyta virkni hugbúnaðarins.
3. Notendur hafa óheft leyfi til að fjölfalda og dreifa hugbúnaðinum.
4. Notendur mega dreifa endurbættum útgáfum hugbúnaðarins.
Hugbúnaður sem uppfyllir öll þessi skilyrði er talinn frjáls.
Krónur og aurar
Ein mikilvæg afleiðing þeirra skilmála sem auðkenna frjálsan hugbúnað, er að hugbúnaðinn má oftast nálgast endurgjaldslaust og sjaldnast þarf að greiða leyfisgjöld fyrir afnot af honum. Þessi þáttur skiptir að sjálfsögðu miklu máli.
Þegar verkefnið hófst var MR skuldbundinn til að greiða umtalsverð hugbúnaðarleyfisgjöld á ári hverju, til þess eins að halda óbreyttu kerfi gangandi. Megnið af þessum gjöldum runnu beint úr landi, en með frjálsum hugbúnaði vonast skólayfirvöld til að geta haldið þessu fé innan landssteinana og nýtt til uppbyggingar eða kennslu.
Annar mikilvægur eiginleiki frjáls hugbúnaðar er að hann gerir yfirleitt hóflegar kröfur til vélbúnaðar og gamlar tölvur nýtast betur en ella. Frá sjónarmiði notenda virðast “Linux tölvur” hraðari, en frá sjónarmiði þeirra sem halda utan um buddustrenginn lengir frjáls hugbúnaður líftíma hverrar tölvu og frestar útgjöldum. Til samanburðar hefði þurft að kaupa yfir 100 nýjar tölvur ef MR hefði kosið að uppfæra í nýlega útgáfu af Windows eða Mac OS X. Það hefði einfaldlega verið ómögulegt við núverandi aðstæður.
Það er þó ekki þar með sagt að innleiðing frjáls hugbúnaðar muni örugglega leiða til sparnaðar í rekstri skólans, því aðrir þættir geta vegið upp á móti og þá sérstaklega kostnaður sem stafar af rekstri og aðkeyptri þjónustu. Einungis tíminn getur leitt í ljós hver heildarniðurstaðan verður, en frjáls hugbúnaður var hagkvæmasta leiðin til að uppfæra tölvukerfi skólans á þessum tímapunkti.
Þriðji fjárhagslegi ávinningurinn frjáls hugbúnaðar í MR lýtur að nemendum og aðstandendum þeirra, en miklu munar ef þessi stóri hópur þarf ekki að kaupa hugbúnað vegna námsins. Til lengri tíma eru líkur á að þetta leiði til sparnaðar enn víðar, þegar þekking á frjálsum hugbúnaði berst með nýstúdentum út í atvinnulífið.
Gæði kennslunnar
En snýst þetta þá bara um peninga? Önnur spurning sem vaknaði fljótt var hvort gæði námsins hlytu skaða af breytingunni, var nokkuð verið að skerða námið með því að taka upp „ódýrt, annars flokks“ tölvukerfi?
Fyrir nokkrum árum hefði það hugsanlega verið tilfellið, en frjáls hugbúnaður hefur þroskast mjög og sannað sig á mörgum vígstöðvum.
Veraldarvefurinn er einmitt eitt sterkasta vígi frjáls hugbúnaðar og margir vinsælustu vefirnir og vafrarnir í dag byggja á frjálsum hugbúnaði. Þetta skipti skólann máli, því hann var þegar búinn að skipta yfir í veflægar lausnir fyrir tölvupóst, nemendaskrá og ýmis önnur stoðtæki kennslunnar. Á þeim sviðum voru því engar hindranir í vegi innleiðingarinnar.
Önnur mikilvæg þróun sem gerði innleiðinguna mögulega, var að viðmót frjáls hugbúnaðar hefur þróast í þá átt að verða keimlíkt því sem menn hafa vanist úr heimum Microsoft og Apple. Yfirfærsla reynslu og þekkingar milli þessara kerfa hefur því einfaldast til muna, en þetta var ein mikilvægasta forsenda innleiðingarinnar því nauðsynlegt er að nemendur verði færir um að bjarga sér í öðrum tölvukerfum þegar þeir útskrifast.
Auk þess að standast þessar grunnkröfur, var það mat manna að frjáls hugbúnaður hefði ýmislegt sérstakt fram að færa. Allir nemendur gætu fengið afrit af öllum hugbúnaði sem kennt væri á og að auðveldara yrði að sameinast með atvinnulífinu eða öðrum stofnunum um að lagfæra eða þýða á íslensku forrit sem í dag henta ekki aðstæðum skólans. Jafnvel mætti búa til námskeið í kringum slík verkefni og vinna með nemendum.
Loks var það talinn kostur að við það að kynnast frjálsum hugbúnaði í skólanum, yrðu nemendur tölvulæsari og meðvitaðri um að til séu valkostir við lokaðan hugbúnað. Unga fólkið öðlast þar með aukið val og mun búa að því að geta nýtt sér frjálsan hugbúnað þar sem það á við.
Undirbúningur og innleiðing
Þegar tekin hafði verið ákvörðun um innleiðinguna hófst mikið starf. Velja þurfti hugbúnað, setja kerfin upp og huga að fræðslu og rekstri til lengri tíma.
Hvað reksturinn varðar var talið nauðsynlegt að skólinn gæti kallað eftir þjónustu fagaðila þegar innleiðingunni lauk, en enginn þeirra sem unnu við verkefnið er fastráðinn við skólann. Því var snemma leitað eftir ráðgjöf og aðstoð með ýmsa þætti, til að tryggja að sem flestir hefðu þekkingu á nýja kerfinu og menn kæmu ekki af fjöllum þegar skólinn kallaði eftir aðstoð seinna.
Settar voru upp frjálsar hugbúnaðarlausnir fyrir umsjón sýndarvéla, miðlæga auðkenningu, stillingar útstöðva, prentun, heimasvæði og afritun. Tölvur starfsmanna, vélar í kennslustofum og í tölvuverum voru uppfærðar í frjálst stýrikerfi byggt á Ubuntu. Frelsið var nýtt til að sníða það nákvæmlega að þörfum skólans og útkoman varð kunnuglegt viðmót sem býður meðal annars upp á nýlegan vafra, ritvinnslu, töflureikna og glærukynningakerfi.
Þegar starfsmenn komu úr sumarfríi hófst fræðsluátak. Haldin voru stutt kynningarnámskeið fyrir alla starfsmenn skólans, þar sem farið var yfir notkun kerfisins, auk þess að kynna hugmyndafræðina og samfélagið bak við frjálsan hugbúnað. Sérstaklega var farið yfir hvernig væri best að færa kennslugögn úr Microsoft skjölum yfir í opin snið frjálsa hugbúnaðarins, útskýrt var hvað gæti farið úrskeiðis og hvernig mætti leysa algengustu vandamálin.
Námskeiðin voru vel sótt og þóttu ómissandi þáttur í innleiðingunni.
Fyrstu skóladagarnir
Fyrstu skóladagarnir gengu vel fyrir sig. Nemendur kipptu sér ekkert upp við breytt tölvuumhverfi, hugsanlega af því að Facebook og YouTube eru eins, sama hvaða stýrikerfi er! Væntingar um hraðvirkara og léttara umhverfi stóðust og það gekk stóráfallalaust að færa gögn milli kerfa. Flest vandræði sem komu upp leystust samdægurs.
Boðið var upp á þjónustuborð þar sem starfsmenn gátu fengið aðstoð símleiðis og fyrstu dagana var tæknimaður yfirleitt á svæðinu, en það hlýtur að teljast góðs viti að hann hafði nánast ekkert fyrir stafni.
Annað tilefni til bjartsýni var þegar fulltrúar nemendafélagsins óskuðu eftir að fá „Linux“ á sínar vélar líka. Þeim varð að sjálfsögðu að ósk sinni.
Framtíðin
Þó að innleiðingin sé nú að mestu yfirstaðin, er vinnunni ekki lokið og verður það kannski aldrei enda er MR lifandi umhverfi þar sem þarfir koma til með að breytast.
Bregðast þarf við uppákomum, hvort sem eru bilanir eða hrekkir fjörugra nemenda. Hugbúnaðurinn stendur ekki í stað og skólinn mun þurfa að taka afstöðu til þess hve oft og hve ört skal uppfæra. Enn á eftir að koma reynsla á kerfið og samstarf þeirra sem að því standa, og það á eftir að koma í ljós hver sparnaðurinn verður þegar allt er talið. Kanna þarf hug nemenda til breytinganna og hugsanlega verður hægt að virkja þá og vekja athygli þeirra á frjálsum hugbúnaði.
Vinnan heldur því áfram.
Loks á ein afurð verkefnisins eftir að líta dagsins ljós, en stefnt er að því gefa frjáls bæði kerfishönnun og stillingar á heimasíðu þess. Vonandi mun það nýtast öðrum skólum í framtíðinni.
Bjarni R. Einarsson, Sérfræðingur, Opnum Kerfum
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.