Skip to main content
3. júní 2005

Engar hraðahindranir, takk!

Þorsteinn J. Vilhjálmsson, fyrirlestur fluttur á ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins um góða Vefstjórnun 2.mars 2005 

Þessi grein er unnin upp úr fyrirlestri sem haldinn var á ráðstefnu um góða vefstjórnun sem haldin var 2.mars síðstliðinn; Ég ætla aðeins að ræða reynslu mína og hugmyndir um myndvæðingu netsins, sem mér finnst vera jafn stórt stökk og að taka barn af leikskólanum Grænuborg og innrita það í heimspeki í Háskólanum. Ég ritstýri núna hlut á netinu, sem ég kalla sjónvarpstímarit. Í mínum huga eru að opnast mjög miklir möguleikar hvað varðar hreina fjölmiðlun og dreifingu myndefnis á netinu góða.

Ágætu ráðstefnugestir;

Ég vil byrja á að þakka fyrir það tækifæri að fá að taka þátt í þessari ráðstefnu um mikið áhugamál mitt nú um stundir, netið. Ég ætla aðeins að ræða reynslu mína og hugmyndir um myndvæðingu netsins, sem mér finnst vera jafn stórt stökk og að taka barn af leikskólanum Grænuborg og innrita það í heimspeki í Háskólanum. Ég ritstýri núna hlut á netinu, sem ég kalla sjónvarpstímarit. Í mínum huga eru að opnast mjög miklir möguleikar hvað varðar hreina fjölmiðlun og dreifingu myndefnis á netinu góða.

Þátturinn Nýjasta tækni og vísindi í sjónvarpinu fór alltaf svolítið í taugarnar á mér, því þar var alltaf verið að tala um framtíðina, lofa einhverju stórkostlegu í tækni og vísindum. Ég hef alltaf haft meiri áhuga á því sem raunverulega er hægt að gera, núna strax, í stað þess að bíða eftir þriðju kynslóð farsíma eða einhverju öðru loforði, sem verður seint eða aldrei að veruleika. Áhugi minn á tölvum kviknaði í Ármúlaskóla árið 1983, þar sem ég lærði svokallaða forritun. Það eitthvert slappasta nám sem ég hef komist í x, f, gsss x 3 og svo framvegis. Ég gæti ekki munað neitt af því núna, þótt lífið lægi við.

Mig langar aðeins að skilgreina netið, áður en ég verð eins og Sigurður Richter, eða Örnólfur Thorlacíus og byrja að tala um nýjustu tækni og vísindi á netinu. Þið munið öll eftir innhringingartóninum í fyrstu módemunum, sem voru á góðri leið með að festa sig í þjóðarsálinni líkt og hléstefið í Ríkisútvarpinu. Guði sé lof fyrir að gamla módemið er komið í tunnuna og hraðskreiðari ráterar teknir við. Í mínum huga er netið ekki aðeins almenningsbókasafn, stærsta uppflettiskrá í heimi, stærsta verslunarmiðstöð í heimi eða heimasíða fyrir fyrirtæki og stofnanir, það er miklu stærra en það.

Mig langar aðeins að flokka netið einsog við þekkjum það, hér er fyrst almenningsbókasafnið:
www.britannica.com

Netið er stærra en Smáralindin einsog við vitum öll. Það er ólýsanleg tilfinning að vera í milliliðalaus sambandi við verslanir, og fá vöruna heim að dyrum. Það er fleira til í netheimum en amazon.com og það eru margir hér á Íslandi, sem eru að gera ágæta hluti í netverslun.
www.veidihornid.is

Ég veit að verslunin Veiðihornið setti nýja netverslun í gang fyrir fáeinum mánuðum, sem hefur gengið hreint ágætlega. Björk er svo heilt heimsveldi á netinu, upplýsingar, tónlist og búð, á stúttfullri slóð í hennar nafni:
www.bjork.com

Svo eru það hefðbundnar heimasíður, sem langflest fyrirtæki á Íslandi eru með, og þær eru sannarlega mjög misgóðar. Ég hef sjálfur reyndar aldrei átt sérstakt erindi á fangelsi.is, sem betur fer reyndar:
www.fangelsi.is

Ég vek sérstaklega athygli á myndmálinu, gróðurmyndunum, sem eiga sjálfsagt að tákna, vetur...í merkingunni: Ég er í fangelsi. Svo vor eða sumar....í merkingunni: Það er þó alltaf von um að komast út aftur...eða hvað.

Svo eru það einstaklingarnir, sem blogga sig til dauðs á netinu. Ég gæti svosem valið marga úr, bjorn.is Bjarnason er klassík, en það er eitthvað einkar framsóknarlegt við valgerdi.is
www.bjorn.is

www.valgerdur.is

Í blogginu lýsa stjórnmálamenn skoðunum sínum og birta af sér ljósmyndir við hin ýmsu tækifæri, aðrir bloggarar láta sér nægja persónulega skýrslugerð, siggi pönk er ekki í Framsóknarflokknum, enda heitir síðan því andfélagslega nafni:
www.helviti.com/punknurse/ 

Þetta minnir okkur á að netið er opið öllum, fyrir alla, hvar sem er, hvenær sem er og svo framvegis. Ég gæti fundið til margt margt fleira, en það sem ég hef haft mestan áhuga á síðustu ár, er það sem ég kallaði áðan myndvæðingu netsins. Ég skal segja ykkur nákvæmlega hvar sú hugsun kviknaði. Ég var staddur með upptökuvél á Norðurpólnum fyrir um fjórum árum. Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari vakti heila nótt á heimleiðinni, við að senda ljósmyndir og grein, á netinu í höfuðstöðvar Morgunblaðsins á Íslandi. Þegar ég vaknaði um morguninn var Einar Falur búinn að senda grein og stórfínar myndir, og búið að bera út blaðið við Vesturgötuna í Reykjavík. Ég var ennþá með allar fimm spólurnar í töskunni minni og kom ekki heim til Íslands með þær fyrr en tveimur dögum seinna.

Hraðahindranirnar á netinu hafa verið óþægilegri en verstu hindranir sem gatnamálastjóri stendur fyrir í Reykjavík. Núna, loksins er netið að lifa almennilega við, og hraðinn orðinn alveg þokkalegur. Það þýðir að sjónvarpsefni, og lifandi myndir á netinu, er orðið daglegt brauð, en ekki bara loforð.

Svo ég orði þetta á góðri íslensku: Netið er orðið alvöru miðill, sjónrænn miðill, og vel nothæft sem fjölmiðill. Þetta finnst fólki kannski liggja í augum uppi:
www.mbl.is

mbl.is er góðkunningi á hverju sómakæru heimili, og hvað sem Vísis menn segja, þá sýna mælingar að mbl.is er stærsti netfréttamiðill á Íslandi ásamt ruv.is.
www.visir.is

www.ruv.is

Á þessum slóðum er líka vísir að útvarpi og sjónvarpi, hægt að draga á flot þætti sem maður missti af, eða horfa á sjöfréttirnar í beinni. Stórfínt. Svo ég tali nú ekki um fréttaþjónustu á heimsvísu:
www.timesonline.co.uk

www.nytimes.com

En ég er ekki bara að tala um notkun á netinu, sem aukabúgrein með öðrum rekstri. Netið er frábær viðbót fyrir fjölmiðla og önnur fyrirtæki, sem stórauka möguleika sína með netþjónustu, sölu á varningi eða þjónustu. Ég er að tala um netið, sem sjálfstæðan miðil, jafnvel fjölmiðil, sem er ekki til annarstaðar.
www.thorsteinnj.is

Ég setti af stað sjónvarpstímaritið Þetta líf.Þetta líf á netinu í janúar. Það kemur út einu sinni í mánuði, það er að segja: Þá er efnið sem hefur verið þar í mánuð tekið út, og nýtt sett í staðinn.

Mig langaði til að nota netið sem virkan miðil, ekki sem skjalasafn þar sem allt hleðst upp, heldur skipta út, koma með nýtt í staðinn fyrir það gamla. Þetta er eingöngu sjónvarpsefni, með textaskýringum að vísu, litlar sjónvarpsmyndir í litlum sjónvarpskassa.

Ég hef verið mikið spurður útí hvernig þetta er hægt, þar sem það eru hvorki styrktaraðilar að tímaritinu eða auglýsingar í því. Ég ákvað að fara leið sem notuð er í útvarpi í Bandaríkjunum:
www.npr.com

NPR, National public radio er dreift ókeypis um öll Bandaríkin, og útvarpstöðvar geta þar sett þætti einsog Morning editon inní dagskrá sína. Þetta er miðill án auglýsinga og þeir sem vilja styðja frjálsa og óháða fjölmiðlun, geta greitt frjáls framlög og eða verið einskonar áskrifendur.

Áskrift að sjónvarpstímaritinu Þetta líf.Þetta líf kostar 3600 á ári, 300 hvert tímarit. Áskrifendur fá tímaritið sent í pósti, sumsé beint á netföng sín hvar sem er í heiminum. Tímaritið sjálft er öllum opið, enda myndi lokað áskriftarkerfi hreinlega drepa það í fæðingu, það væru of fáir sem sæu það. Það eru líka margir sem hafa sagt mér í fullum trúnaði að þetta sé algerlega, gjörsamlega, áreiðanlega, og örugglega vonlaus viðskiptahugmynd, svona álíka og að stofna hraðhreinsun í botni Hvalfjarðarins, nú þegar göngin eru komin, og auglýsa: Hraðhreinsunin í Hvalfirði.....í alfaraleið. Það getur vel verið, en ég er þegar, eftir aðeins tvo mánði kominn með næstum þriðjung þeirra áskrifenda sem ég þarf, til að standa undir lágmarkskostnaði.

Svo ég dragi þetta saman: Ég er viss um að það er  hægt að reka sjálfstæðan fjölmiðil á netinu. En þetta er bara einn flokkur myndvæðingar netsins. Hvað með heimasíður fyrirtækja og hvar kemur þessi myndvæðing að daglegum notum. Ég er ekki viss um að sjónvarpsmynd um stöðuna á bankareikningnum mínum væri til bóta, tölur eru bara tölur: www.isb.is
www.spron.is

Mörg fyrirtæki birta eigin auglýsingar á heimsíðum sínum, það er áreiðanlega fínt, en ég spyr á móti: Hef ég ekki margt annað að gera en að horfa ótilneyddur á auglýsingar á netinu?

Það er með netið einsog svo margt annað, þeir sem vilja nota það til að auka eða bæta viðskipti sín eða þjónustu, þurfa að vita afhverju og hvernig þeir eiga að nota miðilinn. Ég þori varla að taka hér til handargagns einhverja íslenska síðu, vegna þess að hér inni gæti hæglega verið sá sem hannaði hana en samt, hreinsibílar.is eru í sérstöku uppáhaldi:
www.hreinsibilar.is

Hér er hreint ágæt heimasíða, um þjónustu sem er bráðnauðsynleg, það er hægt að losa stíflur og hvaðeina í lögnum án þess að grafa upp götur að ráði og svo framvegis. Hér eru fréttir af starfseminni, algerlega ódagsettar, og það sem meira er, ef ég þarf upplýsingar um þjónustuna, þá er ekki eitt einasta netfang á síðunni, og ekkert símanúmer heldur. Hvert er markmiðið með þessari síðu, má spyrja, nema hreint upplýsingagildi vitaskuld, því það er augljóst að fyrirtækinu er ekki sérlega umhugað um að láta ná í sig.
www.simmsfishing.com

www.casarosa.it

Þetta eru spurningar sem allir sem halda úti netmiðlum ættu að spyrja sig á hverjum degi helst: Hvað viltu með heimasíðunni, við hverja ertu að tala, í hverja viltu ná? Af hverju? Hvernig, hvenær?

www.simmsfishing.com
  er dæmi um afskaplega stílhreina, einfalda síðu, myndir af öllum vörum, upplýsingar um þær, hvar þær eru til sölu í heiminum, hvað þær kosta og svo framvegis.

Það er oft ekki flókið að útfæra hugmyndina, þegar hún er frágengin og eitthvað af spurningunum sem ég nefndi hér áðan hefur verið svarað farsællega.

Kjarni málsins er þessi: Það er vinna að vera með góða heimasíðu eða þjónustu á netinu. Það er vinna fyrir mig að safna efni, klippa það og útbúa fyrir sjónvarpstímaritið Þetta líf.Þetta líf. Ég veit ekki hvaðan sú hugmyndafræði er komin, að netsíðugerð og uppfærslur, sé aukavinna. Það þýðir ekki að huga um netið einsog þægilegt aukastarf fyrir starfsmenn til að grípa í, þegar rólegt er að gera. Það kallar á fagleg vinnubrögð, með fullri virðingu fyrir áhugafólki um heimasíðurgerð, þá þarf vana netamenn til að hanna netsíður, ef fyrirtæki vilja láta taka sig alvarlega.

Myndvæðing netsins er tækifæri til að taka eitt skref áfram, hætta að hugsa um heimasíðuna sína einsog verslunarglugga, og vona að einhver gangi framhjá, eða detti inn af götunni. Myndvæðingin gerir öllum kleift að setja fram upplýsingar á myndrænan hátt, sýna vörur sínar, og gefa viðskiptavininum gleggri mynd af þjónustunni. En, það kostar vinnu, og það þarf að kosta einhverju til, það er á hreinu.

Fyrirtæki þurfa að vita, í hvaða deild þau eru að spila. Ef menn eru í áhugamennsku, þá er það stórfínt í sjálfu sér. Umfram allt, þá þarf það að vera ljóst, afhverju fyrirtæki, stofnanir eða einstaklingar eru að standa í netbraski.

Ég get því miður ekki ennþá sent sjónvarpsefni heim frá Norðurpólnum, í fullum gæðum, en pressaðar skrár myndu skila sér. Nú ætla ég ekki að hætta mér inní tæknifrumskóg símafyrirtækjanna, en sjálfsagt að vísa til þeirra, sem lofa mestu nú um stundir, hive.is.
www.hive.is

Hvað sem tækninni líður, þá minni ég á að hún er aðeins hylki utan um innihald. Það kemur ekkert í staðinn fyrir fagmennsku, og vönduð vinnubrögð, og skiptir þá ekki máli finnst mér  hverskonar netavinnu fólk er. Þetta eru spennandi tímar, gangi ykkur vel!
www.thorsteinnj.is

Skoðað: 5703 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála