Andlát Oddur Benediktsson
Oddur Benediktsson prófessor
f. 5. júní 1937
d. 17. ágúst 2010
Tölvur, sem í fyrstu voru kallaðar rafeindareiknivélar eða rafreiknar, tóku að ryðja sér til rúms við háskóla og rannsóknarmiðstöðvar erlendis um miðja tuttugustu öldina. Hinar fyrstu þeirra voru hannaðar og smíðaðar í einu eða afar fáum eintökum og oft með tiltekna notkun í huga. Fyrstu tölvurnar sem framleiddar voru í umtalsverðu magni og ætlaðar til sölu á markaði voru frá fyrirtækinu IBM. Þetta voru IBM 1401 og IBM 1620, settar á markað 1959.
Upp úr 1960 komu til starfa á Íslandi nokkrir vísindamenn sem kynnst höfðu rafreiknum við nám og störf erlendis. Oddur Bendiktsson var einn þeirra, hafði numið vélaverkfræði og hagnýta stærðfræði í Bandaríkjunum. Í tengslum við námið hafði hann unnið við rafreikni af gerðinni IBM 650 og komist í kynni við forritunarmálið Fortran.
Um þessar mundir var í undirbúningi að setja á fót Raunvísindastofnun Háskólans og var í því samhengi meðal annars rætt um kaup eða leigu á rafreikni fyrir skólann. Lyktaði því máli svo að Framkvæmdabanki Íslands, sem hélt þá upp á 10 ára afmæli, gaf skólanum fé til að kaupa rafreikni af gerðinni IBM 1620 model II. Ný háskólastofnun, Reiknistofnun Háskóla Íslands, var stofnuð um rekstur vélarinnar og henni fengið húsnæði í kjallara Raunvísindastofnunar við Dunhaga. Magnús Magnússon var ráðinn forstöðumaður Reiknistofnunar og Oddur Bendiktsson, sem hafði aðstoðað hann við að undirbúa komu vélarinnar, varð fyrsti starfsmaður hennar. Þetta gerðist síðari hluta árs 1964, en rafreiknirinn mun hafa unnið sitt fyrsta verk á Þorláksmessu það ár.
Allt frá þeim tíma varð Oddur áhrifamaður í þróun og framgangi upplýsingatækni á Íslandi. Hann átti glæsilegan námsferil, lauk stúdentsprófi frá MR árið 1956 og hélt til frekara náms við Rensselaer Polytechnic Institute í New York. Hann lauk BME-gráðu í vélaverkfræði og stærðfræði árið 1960, M.S. í stærðfræði 1961 og Ph.D. í hagnýtri stærðfræði 1965.
Þegar litið er yfir starfsferil Odds við ævilok er ljóst að markviss vinnubrögð hans, glögg dómgreind á það hvað skipti máli og sú gáfa, er honum var gefin í ríkum mæli, að miðla víðtækri þekkingu sinni og hvetja aðra til góðra verka, hafa skilað þjóðinni miklum verðmætum. Af störfum hans fer mest fyrir kennslunni, en á því tímabili sem hann var sérfræðingur við Reiknistofnun kenndi hann miklum fjölda fólks, innan og utan Háskóla Íslands, forritunarmál, í fyrstu aðallega Fortran, sem var nýjung hér á landi og mikil bylting samanborið við að forrita á vélamáli eða Assembler.
Árið 1973 hóf Oddur störf sem dósent við stærðfræðiskor HÍ, en fluttist yfir í tölvunarfræðiskor þegar hún var stofnuð. Hann var einn af aðalskipuleggjendum námsbrautar í tölvunarfræðum við HÍ, var meðal annars formaður nefndar sem samdi námskrána í því fagi og síðar formaður nefndar sem skipulagði námskrá í hugbúnaðarverkfræði. Frá 1982-2007 gegndi Oddur prófessorsstöðu við tölvunarfræðiskor. Hann sinnti ýmsum stjórnunarstörfum fyrir Háskólann, var skorarformaður í tölvunarfræði í mörg ár og í stjórn Reiknistofnunar í um 20 ár. Hann var varaforseti raunvísindadeildar HÍ 1995 til 1997. Rannsóknir Odds beindust meðal annars að upplýsingakerfum og gæðastjórnun í hugbúnaðargerð.
Utan Háskóla Íslands voru helstu störf Odds þessi: Hann starfaði við fjarskiptakerfi gervitungla hjá Bell Laboratories 1962 - 63, hjá IBM á Íslandi og sat í stjórn félagsins frá 1969-72. Hann var yfirmaður tæknideildar Skýrr frá 1972-73 jafnframt stundakennslu við HÍ. Í leyfi frá HÍ árið 1997 starfaði hann við gæðastjórnun hugbúnaðarframleiðslu hjá EJS hf. Þá stofnaði hann árið 1985 fyrirtækið Tölvuþekkingu og átti það í fjögur ár. Oddur kom víða við í ráðgjafarstörfum, meðal annars fyrir Reiknistofu bankanna og ráðuneyti sjávarútvegs, menntamála og fjármála. Hann var formaður nefndar á vegum Rannsóknarráðs Íslands er gaf árið 1986 út álitsgerð og tillögur um stefnumótun á sviði upplýsingatækni.
Oddur gerði sér snemma grein fyrir þýðingu staðla enda ljóst að notkun staðla er lykillinn að vönduðum vinnubrögðum því nær á hvaða sviði atvinnulífsins sem er. Hann var hvatamaður að stofnun samtaka um stöðlun í upplýsingatækni, UT-staðlaráðs árið 1988, en áður hafði sami hópur starfað í skamman tíma undir heitinu Tölvuráð. Oddur var formaður UT-staðlaráðs til 1992. Innan vébanda þess tók hann þátt í norrænum staðlasamtökum , INSTA-IT og leiddi það samstarf meðal annars til útgáfu bókar sem hann ritstýrði og samdi að hluta, MSQH (Modelling a software quality handbook). Fór sú bók víða og varð kveikjan að alþjóðlega staðlinum ISO 9000-3. Oddur starfaði í tækninefndum á vegum alþjóðlegra staðlasamtaka, til dæmis ISO og IEEE. Hér heima var hann meðal höfunda að Innkaupahandbók um upplýsingatækni sem fjármálaráðuneytið gaf út í tveimur útgáfum, 1984 og 1988.
Oddur var frumkvöðull á sínu sviði og hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann hlaut verðlaun Ásu Wright árið 1996 og var sama ár valinn tölvumaður ársins hjá PC World Ísland. Árið 1993 var Oddur útnefndur heiðursfélagi Skýrslutæknifélags Íslands vegna brautryðjandastarfa í upplýsingatækni og fyrir félagið. Félag tölvunarfræðinga gerði Odd að fyrsta heiðursfélaga sínum árið 1997. Hann hlaut IBM Fellowship 1960-61 og Rickett's Price við útskrift 1960. Auk þess fékk hann alþjóðlegan námsstyrk vegna frammistöðu í námi.
Oddur Benediktsson starfaði alla tíð ötullega á vettvangi Skýrslutæknifélags Íslands. Hann var varaformaður 1976-7 og formaður árin 1977-1979. Mörg erindi hefur hann flutt á fundum félagsins. Hann var tekinn í tölu heiðursfélaga Skýrslutæknifélagsins á tuttugu og fimm ára afmæli þess. Á meðan Oddur var í stjórn hóf fagtímarit Skýrslutæknifélagsins, Tölvumál göngu sína, og sat Oddur í fyrstu ritnefnd þess. Í formannstíð hans voru ýmis málefni til umræðu, t.d. var ofarlega á baugi að sett yrðu lög um meðferð persónuupplýsinga í tölvum. Fjallað var um mikilvægi tölvunotkunar við stjórn fyrirtækja og um gagnasendingar um símkerfið. Grunnurinn að íslenskri stafagerð í stafatöflum og lyklaborði var lagður og Oddur kom að margvíslegum verkefnum sem stuðluðu að stöðlun í upplýsingatækni.
Í seinni tíð ber mest á frumkvæði hans að stofnun Öldungadeildar SKÝ, faghóps sem vinnur að varðveislu sögulegra minja um upplýsingatæknina. Þegar boðað var til ráðstefnu á vegum IFIP um sögu upplýsingatækninnar á Norðurlöndum kallaði hann saman hóp frumherja til að taka saman erindi um upphaf gagnavinnslu í íslenskri stjórnsýslu og atvinnulífi. Upp úr því starfi var Öldungadeildin stofnuð árið 2004. Þar sat hann í öldungaráði meðan heilsan leyfði. Hann gerði einnig fyrstu útgáfu af Söguvef Öldungadeildar, sem síðar var komið fyrir á vefsetri SKÝ.
Foreldrar Odds voru Stefán Már Benediktsson verslunarmaður, f. 1906, d. 1945, og Sigríður Oddsdóttir læknaritari, f. 1907, d. 1988. Systkini hans eru Einar, f. 1931, Svala, f. 1934, Þóra, f. 1935, og Ragnheiður, f. 1939. Oddur kvæntist Hildi Hákonardóttur, f. 1938, árið 1955. Börn þeirra eru Kolbrún Þóra, f. 1956, og Hákon Már, f. 1958. Þau skildu. Oddur kvæntist Hólmfríði R. Árnadóttur, f. 1939, árið 1970. Börn hennar af fyrra hjónabandi eru Árni Geir Pálsson, f. 1963, og Kári Pálsson f. 1964. Saman eignuðust Oddur og Hólmfríður Guðrúnu, f. 1971, og Katrínu, f. 1977. Þegar þetta er ritað eru barnabörn Odds og Hólmfríðar samtals 13 auk eins barnabarnabarns.
Oddur var hugsjónamaður, frumkvöðull af köllun, atorkumaður sem ekki gafst upp þótt á móti blési, maður sem kom málum sínum fram með hæglátri ýtni fremur en ofsa. Auk þess sem að ofan getur lét hann víða til sín taka t.d. á sviði umhverfisverndar, persónuverndar og friðarmála. Oddur var mannvinur og mikill fjölskyldumaður. Hann var stofnandi og formaður Krabbameinsfélagsins Framfarar. Megi minning hans lengi lifa.
Jóhann Gunnarsson