Hvað veistu um mig?
Stafræn gögn um notendur og fótspor sem þau skilja eftir sig á netinu hafa verið nýtt í markaðsstarfi fyrirtækja og stofnana um allan heim og eru orðin að sjálfstæðri söluvöru, sem seljendur og þjónustuveitendur kaupa sér aðgang að til að ná að „rétta“ markhópnum. En á allra síðustu árum, ekki síst í kjölfar GDPR, höfum við séð aukna umræðu um það meðal hagsmunasamtaka og almennings um neikvæðar hliðar sem þessu geta fylgt. Á fundinum munum við velta vefmælingum og stafrænni markaðssetningu fyrir okkur frá ýmsum hliðum og verða fjölbreytt erindi sem snerta á vefmælingum og persónuvernd. Hvað ber að varast við notkun slíkra tóla og hver er framtíðin.
Dagskrá:
11:50 Húsið opnar
12:05 Fundur settur og hádegisverður borinn fram
12:20 Við þurfum að tala um njósnahagkerfið
Gífurlegu magni upplýsinga um okkur er safnað, selt og því miðlað til allskyns fyrirtækja, um hvað okkur líkar, hvað við kaupum, andlega og líkamlega heilsu okkar, kynhneigð, staðsetningu, stjórnmálaskoðanir og svo framvegis. Að auki heimta sum forrit, og jafnvel heimilistæki, aðgang að myndunum þínum, myndavélinni, hljóðnemanum, tengiliðalistanum, dagatalinu þínu og svo má lengi telja. Hversu langt erum við til í að seilast fyrir "ókeypis hádegismat"? Eru sætu kattamyndböndin á netinu jafn saklaus og við höldum? Gerum við okkur grein fyrir hvað er í húfi?
Breki Karlsson, Neytendasamtökin
12:40 Stafræn gögn í Facebook-markaðssetningu
Fjallað verður um hvernig við notum stafræn gögn til að miða auglýsingum að ákveðnum hópum með hjálp Meta-pixelsins. Rætt verður um endurmarkaðssetningu og sérsniðna markhópa (custom audience). Hvað hefur breyst í kjölfar GDPR og hvaða áhrif hefur það á markaðsmálin?
Erla Arnbjarnardóttir, Sahara
13:00 Hvað felur Google Analytics í sér
Ragnar mun rekja stuttlega sögu vefmælinga, tilgang þeirra og hugsanlegar hættur. Hann mun svo sérstaklega beina sjónum að Google Analytics, hvað þurfi að hafa í huga við notkun þess og hvað við getum gert til að verja okkur, bæði sem almennir notendur og rekstraraðilar.
Ragnar Bjartur Guðmundsson, Vefgreining
13:20 Áhrif persónuverndarlaga á markaðssetningu og vefmælingar
Persónuverndarlög setja ýmis skilyrði um vinnslu persónuupplýsinga m.a. þegar kemur að vinnslu í þágu markaðssetningar og flutningi persónuupplýsinga úr landi. Evrópskar persónuverndarstofnanir hafa nýverið komist að þeirri niðurstöðu að notkun Google Analytics brjóti gegn ákvæðum evrópureglugerðar um persónuvernd (GDPR). Fjallað verður um hvaða áhrif framangreindar niðurstöður um Google Analytics hafa á íslensk fyrirtæki og stofnanir.
Alma Tryggvadóttir, Landsbankinn
13:40 Hvað Google veit um þig. Fjórar stoðir í leit
Netmarkaðssetning og vefmælingar hafa breyst töluvert síðustu misseri vegna tilkomu gervigreindar og aukinnar áherslu á persónuvernd. Við skoðum hvernig landslagið er í dag og hvernig þróunin verður næstu árin.
Þór Matthíasson, Svartigaldur
14:00 Fundarslit
Fundarstjóri: Rósa Stefánsdóttir, Fagkaup
Undirbúningsnefnd: Faghópur Ský um vefstjórnun
-
11. maí 2022
-
kl. 12:00 - 14:00
-
Félagsmenn Ský: 6.500 kr.
Utanfélagsmenn: 11.000 kr.
Félagar utan vinnumarkaðar: 4.500 kr. -
Grillaður grísahnakki bbq, sætkartöflumús, maís, sellerírót og sinnepssósa
Kaffi/te og sætindi á eftir