Fjarlækningar - Fókus
Fyrirlestur um fjarlækningar
Haldinn verður fyrirlestur um fjarlækningar
þriðjudaginn 21. júní kl. 12:00 í Hringsal Barnaspítala Landspítalans við Hringbraut.
Fyrirlesari er Heather E. Hudson prófessor við University of Alaska. Titill fyrirlestrarins er:
Rural Telemedicine: The Alaska Experience
Heather E. Hudson er „Director, Institute of Social and Economic Research (ISER)” við University of Alaska í Anchorage. Hún er með meistara- og doktorsgráðu frá Stanford University og JD ( Joint Degree) frá University of Texas at Austin. Í störfum sínum hefur hún einbeitt sér að beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni til félagslegrar- og hagrænnar þróunar, auk skoðunar á stefnumarkandi þáttum fjarskipta til að auka nýtingu nýrrar tækni og þjónustu, einkum í dreifbýli.
Í fyrirlestrinum verður m.a. fjallað um eftirfarandi þætti:
Þróun fjarlækninga í dreifbýli Alaska, aðstöðu sem nú er til staðar og nýtingu fjarlækninga við neyðaraðstæður, til ráðgjafar, fjartúlkunar röntgenmynda og fleiri athugana, rafræna sjúkraskrá, fræðslu um lýðheilsu og þjálfun starfsmanna. Einnig verða sýnd gögn um ávinning við meðferð sjúklinga, tíma- og kostnaðarsparnað og aðra áhugaverða þætti er lúta að norðurslóðum. Í fyrirlestrinum verða einnig kynntir þættir úr áætlun um háhraðavæðingu fjarskipta í dreifbýli Bandaríkjanna sem tryggja eiga greiðan aðgang í skólum, bókasöfnum og heilsugæslustöðvum.
Próf. Hudson er svonefndur „Distinguished Lecturer“ á vegum alþjóðlegs félags rafmagnsverkfræðinga sem nefnt er IEEE (Institute for Electrical and Electronic Engineers). Þetta er félag sem vinnur mikið fræðastarf á sviðum rafmagnsverkfræði og öllu sem henni tengist, þ.á m. upplýsingatækni og notkunar hennar á heilbrigðissviðinu.
Hún heldur fyrirlesturinn í boði Íslandsdeildar IEEE og Fókus faghóps Skýrslutæknifélagsins og er aðgangur ókeypis.
Ekki þarf að skrá sig á fundinn fyrirfram.
Sæmundur E. Þorsteinsson, varaformaður IEEE á Íslandi
Valgerður Gunnarsdóttir, formaður Fókus faghóps Ský um upplýsingatækni í heilbrigðisgeiranum
-
21. júní 2011