Skip to main content

2023 UT-verðlaun Ský

Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2023

Controlant

UT-verðlaun Ský
Gísli Herjólfsson forstjóri og einn stofnanda Controlant, Erlingur Brynjúlfsson framkvæmdastjóri Vöruþróunar og einn stofnenda Controlant og forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson .

Controlant hlaut Upplýsingatækniverðlaun Ský 2023 sem voru afhent við hátíðlega athöfn á ráðstefnu- og sýningardegi UTmessunnar.  Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti stofnendum Controlant þeim Gísla Herjólfssyni, forstjóra og Erlingi Brynjúlfssyni, framkvæmdastjóra vöruþróunar, verðlaunin sem er glerlistaverk eftir Ingu Elínu.

UT-verðlaunin eru heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi.
Skýrslutæknifélag Íslands (Ský) veitir verðlaunin og eru þau að danskri fyrirmynd. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2010. Meðal fyrirtækja sem unnið hafa verðlaunin undanfarin ár eru Syndis, Íslensk erfðagreining og Marel.

Í rökstuðningi valnefndar segir:
„Vegverð Controlant hefur verið eftirtektarverð síðustu árin. Controlant hefur þróað vöktunarlausnir sem koma í veg fyrir skemmdir á lyfjum og matvælum í allri virðiskeðjunni og tryggir þar með öryggi sjúklinga, minnkar sóun og minnkar kolefnisspor.“
Ekki er óalgengt að óskilvirkt eftirlit með lyfjum og bóluefnum feli í sér að 20-40% afföll. Afleiðingin er árlegur kostnaður upp á billjónir dollara og hærra kolefnisspor af lyfjaframleiðslu og dreifingu sem er hærra en í til dæmis framleiðslu ökutækja. Með hitastigsvöktunar og rekjanleikalausnum Controlant geta viðskipavinir haft heildaryfirsýn yfir virðiskeðjuna sína í rauntíma með því að nota þráðlausa skynjara (m2m), miðlægt gagnaský og vefviðmót.

Gísli Herjólfsson forstjóri og einn stofnanda Controlant:  
„Við erum gríðarlega stolt af því að hljóta UT verðlaunin og fyrir hönd alls starfsfólks Controlant tökum við á móti verðlaununum með gleði og þakklæti. Á bak við árangur og velgengni Controlant standa 430 einstaklingar sem vinna saman að því að umbylta flutningi lyfja með hátæknilausnum sem auka öryggi, rekjanleika og sjálfbærni.” 

Erlingur Brynjúlfsson framkvæmdastjóri Vöruþróunar og einn stofnenda Controlant:  
„Við hjá Controlant erum drifin á­fram af fram­tíðar­sýn okkar um að út­rýma sóun í einni mikil­vægustu og dýr­mætustu að­fanga­keðju í heimi. Í því verkefni þarf að leysa úr læðingi krafta tækninnar og hugvit fólksins. Þessi viður­kenn­ing mun hvetja okk­ur áfram á þessari mikilvægu veg­ferð og við tökum við henni með stolti. Ég vil nota tækifærið til að þakka öllu starfsfólki Controlant fyrir sitt ómetanlega framlag, þrautseigju og hugvit. “

Um Controlant
Controlant er leiðandi hátæknifyrirtæki á sviði rauntíma vöktunarlausna fyrir alþjóðlega lyfjaiðnaðinn. Lausnir Controlant stuðla að öruggari, traustari, rekjanlegri og sjálfbærari flutningi lyfja á heimsvísu. Controlant var stofnað árið 2007 á Íslandi og hefur vaxið hratt undanfarin ár. Í dag starfa 430 manns hjá Controlant og starfstöðvarnar eru á Íslandi, í Hollandi, Danmörku, Póllandi og Bandaríkjunum. Mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims reiða sig á lausnir Controlant og má þar m.a. nefna Pfizer, Roche, og Johnson & Johnson.   

Það er með mikilli ánægju að veita Controlant Upplýsingatækniverðlaunin 2023.

Jafnframt voru veitt fern önnur verðlaun við þetta tækifæri; UT-Stafræna þjónustan, UT-Sprotinn, UT-Fyrirtæki ársins og UT-Fjölbreytileika fyrirmyndin; sem er nýr verðlaunaflokkur.

AWAREGO var valið UT-fyrirtæki ársins 2022 og tók Ragnar Sigurðsson á móti verðlaununum.

B93A2146

AwareGO sérhæfir sig í mannlega þættinum þegar kemur að netöryggi. Fyrirtækið framleiðir myndbönd og býður upp á kennsluhugbúnað sem nýtist fyrirtækjum og stofnunum við að auka vitund starfsfólks um netöryggi. Myndböndin fjalla á stuttan og hnyttinn hátt um algengustu netöryggishætturnar og eru framleidd með það í huga að fanga athygli starfsfólks og efla það til aukinnar árvekni bæði innan og utan vinnustaðarins. Síðastliðið ár hefur AwareGO unnið að hönnun og prófunum á netöryggisáhættumati fyrir starfsfólk og kom það á markaðinn nú nýverið. Áhættumatið auðveldar þeim sem sjá um netöryggismál að átta sig á öryggisstöðu vinnustaðarins og hvar úrbóta er þörf.

SNERPA POWER fékk verðlaun sem UT- sprotinn 2022 og tóku Íris Baldursdóttir og Eyrún Linnet við verðlaununum.

UT-sprotinn

Snerpa Power er sproti sem býður nýja og einstaka lausn fyrir stórnotendur (iðnað) á raforkumarkaði sem leiðir til verulega bættrar nýtingar auðlinda og aukinnar samkeppnishæfni raforkumarkaðar. Lausnin  flýtir orkuskiptum í átt að kolefnishlutleysi og sparar Íslandi sem samsvarar uppsettu afli allt að einnar meðalstórrar virkjunar. Framtíðarsýn SNERPA Power er raforkukerfi þar sem notendur rafmagns jafnt sem framleiðendur taka virkan þátt í að stuðla að hagkvæmri og snjallri nýtingu auðlinda og samkeppnishæfu raforkuverði. Félagið hefur á skömmum tíma aflað þriggja pilot partnera og farið í gegnum prófanir og mikilvægar vörður í vöruþróun í samstarfi við Landsnet og ISAL í Straumsvík.

CERT-ÍS er UT-Stafræna þjónustan 2022 og tók Guðmundur Arnar Sigmundsson við verðlaununum.

UT-Stafræna þjónustan

Netöryggissveitin CERT-IS hefur tekið stór skref í að stuðla að bættu netöryggi og viðbragðsgetu innan íslenskrar netlögsögu og mun halda því starfi áfram á næstu árum. Hefur sveitin virkjað að fullu sviðshópa mikilvægra innviða sem hafa það markmið að auka samhæfingu viðbragða og forvarna gegn netvá meðal rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu á Íslandi auk þess að stuðla að styttri viðbragðstíma vegna atvika.  CERT-IS hefur auk þess aukið upplýsingaflæði um áhættur og atvik til þjónustuhópa og íslensk almennings meðal annar gegnum nýja heimasíðu sveitarinnar og samfélagsmiðilinn Twitter. CERT-IS viðheldur einnig  ástandsvitund netöryggismála og miðlar þeim upplýsingum áfram með fræðslu og endurgjöf til þeirra er málið varðar, bæði með útgáfu ársskýrslu auk annara sértækrar upplýsingagjafar til nánustu þjónustuhópa.

INGA BJÖRK MARGRÉTAR BJARNADÓTTIR er UT-Fjölbreytileika fyrirmynd ársins 2022.

UT-Fjölbreytileika fyrirmynd

Inga Björk hefur verið leiðandi í umræðu um stafræn aðgengismál og þær stafrænu hindranir sem fylgt geta þeirri öru þróun sem hefur verið í tækniheiminum síðustu ár. Hún hefur verið óþreytandi talsmaður þess að enginn sé skilinn eftir m.a. við innleiðingu lausna eins og rafrænna skilríkja, og hefur staðið að margvíslegri fræðslu í þeim efnum á háskólastigi, til almennings og fagaðila. Hún er í doktorsnámi við Háskóla Íslands þar sem hún hyggst rannsaka aðgengi jaðarhópa að stafrænum heimi með áherslu á fatlað fólk. Inga Björk er frábær fyrirmynd og hefur unnið ötullega að  skilið fyrir þá mikilvægu vitundarvakningu um stafrænar hindranir, aðgengismál og ötult fræðslustarf, m.a. vegna innleiðingar á rafrænum skilríkjum.

---

Við óskum öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með verðlaunin.

---

Hér er yfirlit yfir 3 efstu í hverjum flokki sem voru tilnefnd.