2016 UT-verðlaun Ský
Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2016
Skúli Eggert Þórðarson og embætti ríkisskattstjóra
UT-verðlaun Ský 2016 voru afhent í lokahófi UTmessunnar laugardaginn 6. febrúar í Hörpu.
Valnefndin hafði að leiðarljósi að verðlaunin væru veitt fyrir framúrskarandi framlag á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti.
Að verðlauna þau afrek sem unnin hafa verið hjá embætti ríkisskattstjóra undanfarin ár er ekki hægt án þess að nefna Skúla Eggert Þórðarson í sömu andrá. Þess vegna var tekin sú ákvörðun að veita UT-verðlaunin til Skúla sem persónu og einnig embættinu sem slíku.
Skúli Eggert Þórðarson var skipaður ríkisskattstjóri frá 1. janúar 2007 og á þeim 9 árum sem hann hefur gegnt embættinu hefur hann verið drifkraftur í að koma í gegn mörgum stórum málum á sviði rafrænna lausna. Skúli Eggert er lögfræðingur að mennt og starfaði hjá RSK á árunum 1983 – 1993, var skattrannsóknarstjóri frá 1993 þar til hann tók við embætti sem ríkisskattstjóri.
Embætti ríkisskattstjóra var stofnað 1. október 1962. Starfsmenn þess eru u.þ.b. 250 á níu starfsstöðvum. Ríkisskattstjóri hefur með höndum álagningu opinberra gjalda og annarra skatta og gjalda og annast skatteftirlit. Ríkisskattstjóri setur framkvæmdar- og starfsreglur ásamt leiðbeiningum og birtir eftir því sem efni standa til og þýðingu hefur. Meginmarkmið ríkisskattstjóra er að skattskil almennings og fyrirtækja séu rétt og í samræmi við lögbundnar skyldur. Það er einnig eitt af meginmarkmiðum ríkisskattstjóra að þeir sem leiti til embættisins með ósk um þjónustu, svo sem að skrá fyrirtæki fá þjónustuna á öruggan og góðan hátt í samræmi við gildandi lagaákvæði.
Eitt af stærstu verkefnum Skúla Eggerts á fyrstu árunum sem ríkisskattstjóri var að sameina 10 stofnanir í eina. Gífurleg vinna var lögð í að breyta hugarfari og endurskilgreina starfsemina á meðan á sameiningarferlinu stóð ásamt því að viðhorf til starfsmanna og viðskiptavina RSK var endurskoðað. Mikil áhersla var lögð á mannlega þáttinn og að hafa alla starfsmenn virka í ferlinu. Skúli Eggert hefur eftir sameininguna haldið því starfi áfram og var RSK valin stofnun ársins árið 2015 og hefur fengið fjölda fleiri verðlauna fyrir góðan árangur á liðnum árum.
Af afrekum rafrænnar stjórnsýslu skal fyrst nefna að RSK reið á vaðið árið 1999 þegar fyrst var opnað fyrir skil á vefnum þ.e. hægt var að skrá inn tölur og senda rafrænt. Árið eftir, 2000, var hægt að geyma framtalið og vinna í því áður en það var sent til RSK. Einhver áritun var í framtölunum frá byrjun s.s. hjúskaparstaða, launamiðar og slíkt en síðar jókst áritun jafnt og þétt og komu t.d. inn upplýsingar frá fjármálastofnunum árið 2008. Útbúin var sérstakur veflykill sem var undanfari rafrænna skilríkja annars vegar fyrir einstaklinga og hins vegar fyrir fagaðila. Þessir veflyklar eru í notkun hjá mörgum enn í dag. Þessi rafræna leið til að skila skattaframtali þróaðist í gegnum árin og smám saman urðu upplýsingar inn á framtölunum meiri. Frá árinu 2010 hafa framtölin verið fullbúin hjá upp undir helmingi framteljenda þannig að í dag þurfa margir einungis að fara inn og samþykkja framtalið og skila rafrænt án þess að þurfa að bæta við upplýsingum.
Önnur verkefni í rafrænni stjórnsýslu eru:
· Rafræn skil á skattframtölum sló öll met árið 2015, voru 99,74%
· Leiðandi í rafrænni auðkenningu, fyrst með veflykli RSK, síðar rafrænum skilríkjum á debet kortum, og nú með rafrænum skilríkjum á símum.
· Leiðréttingin, mjög flókið verkefni með aðkomu margra aðila, snerti yfir 100 þúsund Íslendinga, rafræn ferli, rafrænar undirritanir.
· Rafræn skattkort, nú um áramótin 2015/2016
· Rafræn skil á skatttekjum, VSK, gistináttaskattur
· Eru að vinna að innleiðingu á rafrænni fyrirtækjaskrá, hægt að stofna fyrirtæki á vefnum, skrifað undir með rafrænum skilríkjum
Ljóst er að embætti ríkisskattstjóra hefur verið í fararbroddi og frumkvöðull í nýtingu upplýsingatækni sem auðgar líf sem flestra Íslendinga.
Undir stjórn Skúla Eggerts Þórðarsonar hefur embætti ríkisskattstjóra verið leiðandi í rafrænni stjórnsýslu og nýtt upplýsingatækni á snjallan hátt viðskiptavinum sínum til góða. Hann er hvetjandi yfirmaður og er vel liðinn af starfsfólki RSK.
Það er valnefnd UT-verðlauna Ský því mikil ánægja að afhenda Skúla Eggert og embætti ríkisskattstjóra verðlaunin í ár. Verðlaunagripurinn er glerlistaverk eftir Ingu Elínu listakonu. Í valnefndinni voru Hjálmar Gíslason verðlaunahafi 2015, Rakel Sölvadóttir verðlaunahafi 2014, Svana Gunnarsdóttir fyrir hönd styrktaraðila, Ari Kristinn Jónsson fyrir hönd háskólasamfélagsins, Jóhann Þór Jónsson frá Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja, Guðmundur Arnar Þórðarson úr stjórn Ský og Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský.