Skip to main content

Notendafélögin

Víða um heim hafa verið og eru starfandi öflug notendafélög ákveðins hugbúnaðar og Ísland hefur ekki verið nein undantekning á því sviði. Árið 1994 voru hér á landi all-margir slíkir hópar. Stærstir og virkastir á þeim tíma voru DECUS á Íslandi, sem voru samtök Digital (DEC) notenda. Þá voru einnig hópar svo sem notendafélag SKÝRR (Átthagafélag SKÝRR), Paradox-hópurinn og Archimedes og þeir sem höfðu aðgang að Íslenska menntanetinu höfðu aðgang að alls konar notendahópum sem skotið höfðu upp kollinum. Í umfjöllun um þessa hópa frá árinu 1994 var Skýrslutæknifélagið einnig nefnt til sögunnar sem einhvers konar samnefnari ýmissa hópa tölvuáhugafólks, en þó tekið fram að það sé um margt frábrugðið ýmsum hópum innan APCUG, alþjóðlegra samtaka notendahópa PC tölva, að því leyti að í félaginu sameinist bæði notendur og seljendur en í APCUG aðeins notendur.

Bæði framleiðendur hugbúnaðar og vélbúnaðar njóta góðs af samstarfi við slíka notendahópa og leggja mikla áherslu á góð samskipti við þá út um allan heim. Þeir njóta alls konar sérkjara og fá gjarnan kynningu á nýjustu útgáfum hugbúnaðar löngu á undan öðrum kaupendum og notendum. Vélbúnaður er einnig prófaður og lagður til notkunar á vegum þeirra. Ráðstefnur, sýningar og kynningarfundir eru einnig á dagskrá félaganna í samvinnu við þá sem þau tengjast.

DECUS

DECUS (Digital Equipment Computer Users’ Society) á Íslandi, notendasamtök Digital tölvunotenda voru stofnuð árið 1979. Þau voru hluti af alþjóðlegri hreyfingu með sama nafni sem voru ein elstu alþjóðasamtök tölvunotenda. Upphaflega voru samtökin stofnuð til að vera þrýstihópur á Digital og auka áhrif notenda á framleiðslu tölvubúnaðar frá fyrirtækinu. Þessi félagsskapur var líklega sá allra virkasti íslenskra notendahópa og hélt ráðstefnur og fyrirlestra víða um land, hélt út fréttabréfi og mánaðarlegum fundum. Í umfjöllun um DECUS þegar félagið hafði náð fimmtán ára starfsemi kemur fram að félagar voru um þrjú hundruð og starfaði félagið á þremur brautum, tæknibraut, notendabraut og stjórnendabraut. [2] Óformlegri en ágætlega virkur var svokallaður “potthópur“. Dæmi um starfsemina er að finna í grein eftir Marinó G. Njálsson í Morgunblaðinu 1994:

Á hverju vori er haldin tveggja daga ráðstefna þar sem fengnir eru bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar. Oftast hafa um hundrað manns sótt þessar ráðstefnur. Hægt er að velja um þrjá fyrirlestra á hverjum tíma, […] þar sem reynt er að höfða til áhuga sem flestra en ekki einvörðungu hinna dæmigerðu tölvusérfræðinga. Samhliða ráðstefnum er svo haldin tölvusýning sem er opin meðan á ráðstefnunni stendur.[3]

Þegar Örtölvutækni keypti Digital-umboðið um 1995 varð Arnlaugur Guðmundsson fulltrúi Digital í DECUS.

Þetta var mjög skemmtilegur félagsskapur, notendur skiptust á skoðunum um hvað væri hægt að bæta og úr þeessu varð ákveðið samfélag. Við héldum fundi hjá Rafmagnsveitum Reykjavíkur og víðar, þetta voru svona 30 manns sem mættu á hvern fund. Við héldum eina ráðstefnu á hverju ári úti á landi, oft á Hótel Örk en einnig góða ráðstefnu á Hótel Höfn í Hornafirði. Við gistum þar og héldum fundina í skólanum. Síðan var farið upp á jökul og borðað. Á laugardagskvöldinu var árshátíð Decus, eins og jafnan á þessum ráðstefnum.[4]

Um árþúsundamótin var félagsmönnum í DECUS boðið að gerast félagar í Skýrslutæknifélaginu og kom vænn hópur inn í félagið þá, sumir til að vera en aðrir til skemmri tíma.[5] Samvinna var með félögunum áfram og stóðu þau meðal annars að mikilli ráðstefnu um öryggismál, sem haldin var á Hótel Örk vorið 2003, X-Öryggi. Þetta var stærsta ráðstefna sem haldið hafði verið á Íslandi um öryggismál fram til þess tíma.[6] Öryggismál voru DECUS-félögum nokkuð ofarlega í huga því árið 1989 var einnig haldin fjölsótt ráðstefna á vegum DECUS á sama stað. Í frétt í Viðskiptablaði Morgunblaðsins var fjallað um hana:

HAGSMUNASAMTÖK Digital tölvueigenda á Íslandi, (DECUS ICEN UG), héldu árlega ráðstefnu samtakanna á Hótel Örk í Hveragerði fyrir skömmu. Þar komu saman yfir eitthundrað manns til að ræða áhugamál sín og bera saman bækur sínar. […]

Um langt skeið hefur verið starfandi félagsskapur erlendis sem kallar sig DECUS. Hér er um að ræða stærstu samtöku tölvunotenda í veröldinni sem telja um 112 þúsund notendur víðs vegar um heiminn. Markmið samtakanna er að safna og dreifa upplýsingum um notkun tölvanna, gefa út fréttabréf og standa fyrir ráðstefnum og fyrirlestrum. Þá reka samtökin stóran hug búnaðarbanka sem félagsmenn hafa aðgang að. Eitt af markmiðum samtakanna er að hafa áhrif á stefnumörkun og þróun vél- og hugbúnaðar frá DEC og koma sjónarmiðum notenda á framfæri. DECUS er rekið án gróðasjónarmiða og félagsmenn greiða engin félagsgjöld.

Fyrst íslenska DECUS-ráðstefnan var haldin í maí 1985 og á hverju ári síðan. Þá hafa svokallaðir SIGhópar (special interest group) verið stofnaðir um sérleg áhugamál innan félagsins. VAX-SIG var formlega stofnaður í janúar 1985, en hafði starfað óformlega frá 1981. PC-SIG var stofnaður 1984 og NET- SIG haustið 1986.[7]

Decus

Notendastarf SKÝRR

Á vegum SKÝRR var notendastarf bæði í formi notendaráðstefna, 1993 og 1996, og tæknisýningar árið 1993.

Notendafélag Dobis/Libis
Þá er rétt að nefna félag Dobis/Libis notenda bókasafnskerfisins samnefnda, einnig stofnað árið 1993. SKÝRR sá um rekstur kerfisins fyrir Borgarbókasafn Reykjavíkur og um 70 önnur almennings- skóla- og rannsóknarbókasöfn.[8] Hugbúnaðurinn fékk síðan nafnið Fengur.[9] Félagið hafði það að markmiði “að stuðla að samræmdri notkun kerfisins og viðhaldi þess í samvinnu við SKÝRR, að stuðla að kynningu Dobis/Libis á Íslandi og að fylgjast með þróun kerfisins erlendis.“[10] Þegar flestöll bókasöfn landsins sameinuðust um Gegni gerðust Dobis/Libis notendur félagar í Alefli.

IBM

System/38 klúbburinn hjá IBM á rætur allt aftur til ársins 1982. Þá voru fjórir aðilar með System/38 vélar frá IBM: Rekstrartækni, Brunabótafélagið, Sjóvá og Eimskip. Bergþóra K. Ketilsdóttir segir svo frá tilurð notendaklúbbsins:

Ég sótti 4 vikna námskeið í S/38 hjá IBM í Basingstoke í Englandi þá um sumarið [1982] en hafði ekki aðgang að vélbúnaði sjálf. Sá ég því minn kost vænstan að stofna notendaklúbb, sem fékk nafnið S/38 klúbburinn, í þeim tilgangi að koma þar á framfæri ýmsum fróðleik um S/38 og ekki síst til þess að hugbúnaðarsérfræðingarnir sjálfir sem unnu við vélina allan daginn gætu skipst á tæknilegum og rekstrarlegum upplýsingum og gefið hvorir öðrum góð ráð okkur öllum til hagsbóta.

Þessi notendaklúbbur náði vinsældum og upp úr honum spratt annar klúbbur AS/400 klúbburinn sem lifði góðu lífi að minnsta kosti í 25 ár.[11] Haldnar voru reglulega ráðstefnur á vegum IBM og klúbbsins og ýmiss konar kynningarstarfsemi. Þegar IBM rann inn í Nýherja hélt klúbbstarfið áfram í breyttri mynd.[12] Frá einni ráðstefna klúbbsins er sagt í Morgunblaðinu 20. september árið 1990. Þar kemur fram að hliðstæð ráðstefna hafi verið haldin tveimur árum fyrr, og þá í tvennu lagi, annars vegar fyrir notendur miðtölva og einkatölva og hins vegar fyrir notendur stærri tölvukerfa en nú var hægt að halda hana fyrir alla á einum stað. Margra grasa kenndi á ráðstefnunni og var haldin sýning í tengslum við hana. Þar var meðal annars sýnt afgreiðslukerfi fyrir búðir sem nota mátti fyrir strikamerktar vörur og þótti það áhugaverð nýjung.[13]

ICENUG, félag HP notenda á Íslandi

Félag HP-notenda á Íslandi bar nafnið ICENUG. Félagið stóð fyrir ráðstefnum, kynningum og sýningum og hafði meðal annars forgöngu fyrir því að íslenskir notendur sæktu alþjóðlegar notendaráðstefnur HP erlendis. Um markmið ICENUG segir í fréttabréfi HP frá vetrinum 1993-1994:

Markmið ICENUG er að veita meðlimum þjónustu á sem flestum sviðum, miðla þekkingu á milli notenda og standa vörð um hagsmuni þeirra, bæði gagnvart HP og öðrum aðilum. Félagið er hluti af INTEREX sem er alþjóðlegt félag HP notenda. […]

ICENUG leggur áherslu á góð og mikil samskipti við HP á Íslandi og mun félagið taka virkan þátt í HP-ráðstefnunni 9.-10. mars n.k. [1994].[14]

Á nefndri ráðstefnu fékk Félag HP-notenda meðal annars það hlutverk að kynna öryggismál í UNIX, OpenView netstjórnun og tölvupóstkerfi.[15]

Fleiri notendafélög

Ýmis fleiri notendafélög voru stofnuð með margs konar hlutverk. Af nokkuð öðrum toga er Alefli, notendafélag Gegnis sem stofnað var stofnað í sept. 2002. Hlutverk félagsins er meðal annars:

að samhæfa óskir og kröfur á hendur Landskerfi bókasafna hf. og framleiðendum Aleph-kerfisins og forgangsraða þeim, að fylgjast með og hafa áhrif á þróun kerfisins, að vera tengiliður við erlend notendafélög Aleph, einkum önnur norræn félög

Félagið stóð fyrir fræðslu af ýmsu tagi, námskeiðum og gaf út fréttabréf og var með heimasíðu.[16]

Hliðstæðir notendahópar hafa meðal annars verið starfandi  hjá notendum Tæknivals og Strengs. Þá var LSMS (Learmonth & Burchet Management Systems Ldt) notendafélag starfandi og nokkuð öflugt frá 1987 og fram á næsta áratug og stóð fyrir námskeiðum, fyrsta á vegum SKÝRR og síðan Stjórnunarfélags Íslands.[17] Ekki er ósennilegt að fleiri notendahópar hafi verið settir á laggirnar á einhverjum tímabilum.

Með breyttum samskiptaháttum hefur félagaformið vikið fyrir öðrum samskiptum notenda, til dæmis á samfélagsvefum.

 

[1] Marinó G. Njálsson: Notendahópar eru allra hagur: Gróska í starfsemi DECUS á Íslandi. Morgunblaðið, 4. ágúst 1994. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/148924/

[2] Marinó G. Njálsson: Notendahópar eru allra hagur: Gróska í starfsemi DECUS á Íslandi. Morgunblaðið, 4. ágúst 1994. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/148924/

[3] Marinó G. Njálsson: Notendahópar eru allra hagur: Gróska í starfsemi DECUS á Íslandi. Morgunblaðið, 4. ágúst 1994. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/148924/

[4] Arnlaugur Guðmundsson. Viðtal tekið

[5] Úr skýrslu stjórnar Skýrslutæknifélagsins 2001.

[6] Theódór R. Gíslason taldi þessa ráðstefnu eitt af fáum vísbendingum um faglega nálgun á öryggismálum á Íslandi á þeim tíma. Viðtal tekið 26.11.2015.

[7] Metaðsókn að ráðstefnu DECUS í Hveragerði. Morgunblaðið – viðskipti, 18. maí 1989. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/31628/?item_num=0&searchid=0babde5bd8c1939340fb80dc5b914a830accf7c6. Sótt 28.11.2015.

[8] Gegnir. Tölvumál, 28. árg. 1. ábl. (01.09.2003), bls. 28. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2365616. Sótt 29.11.2015.

[9] Fengur. Bókasafnið, 20. árg. 1. tbl. (01.06.1996), bls. 29. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2407032 . Sótt 29.11.2015.

[10] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld. Saga SKÝRR 1952-2002. Rv. 2002, bls. 211.

[11] Bergþóra K. Ketilsdóttir: Af minnisblöðum úr starfi hjá IBM. S/38 klúbburinn í bókinni: Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 157-158.

[12] Sigurður Bergsveinsson, 18. nóvember 2015.

[13] Holberg Másson: Margar nýjungar kynntar hjá IBM. Morgunblaðið, 20. September 1990, bls. B4. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=123494&pageId=1729496&lang=is&q=S/38. Sótt 18.11. 2015.

[14] Úr fréttabréfi HP veturinn 2003-2004.

[15] Úr auglýsingu um ráðstefnuna. Morgunblaðið, 8. mars 1994, bls. 3. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1802438. Sótt 18.11. 2015.

[16] www.landskerfi.is/skjol/.../eh_syn_kerfisnefndar.ppt.

[17] http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2360374&issId=182289&lang=4